Kaspíahafið
er salt stöðuvatn í Suðvestur-Asíu, hið stærsta í heimi.
Vestan þess er Azerbaijan og Rússland, Kazakhstan að norðaustan
og austan, Turkmenistan að austan og Íran að sunnan.
Lengd þess frá norðri til suðurs er 1210 km og breiddin er
210-436 km.
Flatarmálið er 371 þúsund km².
Strandlengjan er óregluleg með stórum flóum að austanverðu,
m.a. Krasnovodsk og hinn grunni Kara-Bpgaz-Gol, þar sem er er mikil
uppgufun og saltvinnsla.
Meðaldýpi Kaspíahafsins er 170 m en dýpst er það syðst,
995 m. Yfirborðið
er mishátt á milli ára en oftast í kringum 28 m neðan sjávarmáls.
Á árunum 1960-80 lækkaði yfirborðið mjög, sumpart vegna þess
að vatn úr ánum, sem renna til þess, var nýtt í auknum mæli til
áveitna og annarra þarfa.
Árið 1980 var byggð stífla þvert fyrir flóann
Kara-Bogaz-Col til að draga úr vatnstapi.
Þá myndaðist stöðuvatn, sem búizt var við að entist í
nokkur ár.
Þess í stað þornaði flóinn algerlega upp árið 1983.
Samtímis þessu fór yfirborð Kaspíahafs að hækka á ný og
byggð var áveita til að veita vatni aftur inn í flóann.
Vatnsborðið heldur áfram að rísa og byggðir með ströndum
fram verða fyrir æ fleiri flóðum vor og haust.
Borgirnar Makhachakala og Derbent, sem liggja lægst, eru í
mestri flóðahættu.
Sunnan
og suðvestan Kaspíahafs er Elburs og Kákasusfjöllin.
Meðal stærstu fljóta, sem falla til þess eru Volga (stórt óshólmasvæði),
Ural og Emba.
Þær streyma allar í það norðanvert.
Úr austri falla m.a. Gorgan og Atrek, úr vestri Kura.
Ekkert vatn rennur úr Kaspíahafi á yfirborði jarðar en það
er tengt Eystrasalti, Hvítahafi og Svartahafi með skipaskurðum og ánni
Volgu. Þessir
vatnavegir halda leiðinni milli olíulindanna í Baku á Apsheronskaga
og Norður-Evrópu opinni.
Á síðasta áratug 20. aldar hófu nokkur olíufélög samstarf
um olíuleit í Kaspíahafi.
Fiskveiðar í því eru verulegar og verðmætustu
fisktegundirnar eru styrja, lax, karfi, og síld.
Síbreytilegt vatnsborð, mengun og ofveiði hefur haft alvarleg
áhrif á fiskistofna.
Talið er, að fjöldi veiddra styrja hafi minnkað úr 200 milljónum
árið 1990 í 60 milljónir um miðjan áratuginn.
Meðal annara dýra, sem lifa í Kaspíahafi eru skjaldbökur, hnísur
og selir.
Kaspíahaf
er oft hættulegt sjófarendum vegna suðaustanfárviðra og á veturna
er norðurhlutinn lokaður vegna ísa.
Aðalhafnarborgirnar við Kaspíahaf eru Krasnovodsk,
Turkmenistan, Baku, Azerfaijan og Makhachkala, Rússland.
Gervitunglsmynd af Wikipedia. |