Indlandshafið
er minnst stórhafanna þriggja. Vestan
þess er Afríka, Asía að norðan, Ástralía og Eyjaálfa að austan
og Suðurstkautslandið að sunnan.
Mörkin milli þess og Atlantshafsins eru óskýr en oftast er
4020 km langur spotti af lengdarbaugnum 20°A milli syðsta hluta Afríku
og Suðurskautslandsins notaður til viðmiðunar.
Heildarflatarmál Indlandshafs er u.þ.b. 28,3 milljónir km².
Það er norðurmjótt og skiptist í Arabíuhaf og Bengalflóa.
Arabíuhafið greinist í Persaflóa og Rauðahaf. Meðaldýpi Indlandshafs er u.þ.b. 4210 m, lítið eitt
meira en Atlantshafsins, og dýpsti hluti þess, 7725 m, er fyrir suðurströnd
indónesísku eyjarinnar Java. Flestu
dýpstu hlutar þess eru í norðausturhlutanum, þar sem u.þ.b. 130
þúsund km² eru rúmlega 5500 m djúpir.
Indlandshaf
er þakið eyjum. Hinar stærstu eru Madagaskar og Shri Lanka.
Meðal hinna smærri eru Maldive-eyjar og Máritíus.
Meðal stórra fjóta, sem falla til Indlandshafs eru afrísku árnar
Limpopo og Zambezi, asísku árnar Irrawaddy, Brahmaputra, Ganges, Indus
og Shatt Al-Arab. Oftast
eru vindar Indlandshafs hægir og þar ríkja löng logntímabil.
Hitabeltisóveður ríða stundum yfir, einkum í grennd við Máritíus,
og árstíðabundnir monsúnvindar ríkja á hafsvæðinu.
Hinn 27. desember 2004 hnikuðust flekamót fyrir vesturströnd
Súmötru (Indónesía) og ollu gríðarlegum jarðskjálfta, 9,0 á
Richter. Hann olli risaflóðbylgju (TSUNAMI), sem gekk á land í
13 ríkjum við Bengalflóa og Indlandshaf, allt til Sómalíu og
Kenja í Afríku. Flóðið varð líklega á þriðja hundrað
þúsund manns að aldurtila. Víða á ströndum þessara
landa voru - og verða á ný - fjölsóttir ferðamannastaðir (Phuket,
Sri Lanka, Malasía o.fl.). Þar fórst fjöldi fólks víða
að úr heiminum, s.s. nokkur þúsund Ástrala, Norðurlandabúa,
Þjóðverja, Frakka, Englendinga o.fl.. |