Vietnam hagnýtar upplýsingar,
Flag of Vietnam


VIETNAM
HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR
.

.

Utanríkisrnt.

Ferðaskilríki:  Vegabréf og áritun er nauðsynleg til að heimsækja landið, nema viðkomandi sé gestur yfirvalda landsins eða sé í opinberum erindum.  Áritun fæst hjá sendiráðum eða ræðismönnum Víetnams erlendis.  Ferðaskrifstofur annast öflun áritana fyrir ferðamenn, sem ferðast í hópferðum á þeirra vegum.  Nauðsynlegt er að hafa bólusetningarvottorð gegn gulu, komi fólk frá smitsvæðum.  Flugvallarskattur er innheimtur við brottför frá landinu.

Tollur:  Ferðamönnum er heimilt að flytja inn persónulega muni, s.s. myndavélar, filmur, ferðaritvél o.þ.h., en slíkir hlutir eru skráðir við komuna til að tryggja, að þeir hverfi aftur úr landi.  Forngripi má aðeins flytja úr landi gegn því skilyrði, að þeir hafi verið keyptir í ríkisverzlun og kvittun sé framvísað.

Gjaldmiðill Víetnam:  1 dong (D) = 10 hao = 100 xu.  Gamlir og nýir seðlar eru í umferð:  1, 2, 5, 10, 20, 30, 50, 100 og 500 dong.  Myntir í umferð (allar kringlóttar): 1, 2 og 5 xu (allar með gati), 1, 2 og 5 hao og 1 dong.  Nýr dong samsvarar 10 gömlum.

Það er stranglega bannað að flytja víetnamskan gjaldmiðil inn í landið og út úr því.  Heimilt er að flytja ótakmarkaðar upphæðir í erlendum gjaldeyri inn í landið.  Bezt er að láta skrá upphæðir innflutts gjaldeyris, því að við brottför þarf að gera grein fyrir afgangingum.  Útlendingar fá venjulega að skipta erlendum gjaldeyri í víetnamskan á hagstæðara gengi en innfæddir.  Svartamarkaðsbrask með gjaldeyri er stranglega bannað.  Bandaríkjadollar er enn sem fyrr eftirsóttur gjaldmiðill í landinu.  Sum hótel og verzlanir selja þjónustu sína og vörur aðeins gegn greiðslu í dollurum.  Því er gott að hafa þá við hendina líka.

Kreditkort eru ekki tekin sem gjaldmiðill í Víetnam.

Umferðarreglur:  Í Víetnam er hægrihandarakstur.  Hámarkshraði á þjóðvegum er 80 km og 30 km í þéttbýli.

Tungumál:  Þjóðtungan er víetnamska (upprunalega með kínversku letri).  Í norður- og suðurhlutum landsins eru talaðar mállýzkur.  Opinberlega var latneska letrið tekið upp árið 1910 (Quoc-ngu) með mörgum aukatáknum vegna ýmissa áherzlna og tónbrigða.
Margir Víetnamar tala og skrifa frönsku (í norðurhlutanum) og ensku (í suðurhlutanum).

Klukkan:  Kínverskur strandtími gildir allt árið, þannig að tímamunur milli Íslands og Víetnam er alltaf  + 9 tímar.

Mál og vog:  Metrakerfið.

Rafmagn:  Rafmagnið er ýmist 110V eða 220V eftir svæðum.  Í suðurhlutanum eru víða amerískar innstungur, þannig að það er nauðsynlegt að taka með sér millistykki.

Póstur og simi:  Frímerki landsins eru mjög áhugaverð.  Millilandasímtöl eru dýr.

Lögboðnir frídagar:  1. janúar, þrír dagar í lok janúar og byrjun febrúar (Tet), 30. apríl, 1. maí, 2. september, 25. desember.

Viðskiptatímar:
Opinberar stofnanir:  Mánud.-laugard. kl. 08:00-12:00 og 13:00-16:30.
Bankar:  Mánud.-föstud. kl. 08:00-16:30, laugard. 08:00-12:00.  Gjaldeyrisskipti aðeins fyrir hádegi.
Ríkisverzlanir:  Mánud.-sunnud. 08:30-11:30 og 14:00-16:00.
Verzlanir:  08:30-fram á kvöld alla daga.

NB.  Í Ho-Chi-Minh-borg er enn þá í gildi útgöngubann á nóttunni

Myndatökur:  Bannað er að taka myndir af hernaðarmannvirkjum, brúm, höfnum og flugvöllum.

Gjafir:  Víetnamskir leiðsögumenn, túlkar og annað þjónustufólk þiggja með þökkum minjagripi frá heimalöndum gestanna og líka ýmislegt annað, s.s. þjórfé, reiknitölvur, kúlupenna, litblýanta, tvinna og saumnálar og alls konar límmiða.

Klæðnaður:  Bezt er að klæðast léttum fötum úr náttúrulegum efnum (baðmull eða silki) og regnfatnaður er nauðsynlegur.  Síðla hausts og á veturna getur orðið svalt í norðurhluta landsins og í fjallahéruðunum, svo að það er ráðlegt að hafa hlýjan fatnað við höndina (peysu, vindjakka, kápu, frakka o.þ.h.).

Heilsa og heilbrigði:  Þótt ekki sé krafizt bólusetninga gegn smitsjúkdómum, er ráðlegt að láta sprauta sig gegn gulu og kóleru.  Malaría er landlæg í Víetnam, þannig að enginn ætti að dvelja þar án þess að taka pillur gegn henni.  Enginn ætti að neyta hýðislausra ávaxta eða ósoðins vatns.  Í hótelherbergjunum eru hitakönnur með soðnu heitu eða köldu vatni, sem fólk ætti líka að nota við tannburstun.  Auk meðala við kvefi og iðrakveisu er gott að hafa með sér flugnafælinn áburð, úða eða rafmagnsfælu og sótthreinsunarefni í vatn.

Gisting:  Einstaklingar geta ekki bókað hótelgistingu í Víetnam en slíkar bókanir fyrir hópferðir annast viðkomandi ferðaskrifstofur í samvinnu við ferðaskrifstofu í Víetnam, sem verður að hafa samráð við Ferðamálaráð landsins.  Sé fólk opinberir gestir eða í opinberum erindum fyrir land sitt, annast gestgjafinn eða Ferðamálaráðið bókanir.   Meðalverð á gistinótt er 40-50 Bandaríkjadalir á mann og vilji fólk fá vestrænan mat, verður að panta hann fyrirfram.  Það er ekki um auðugan garð að gresja í hótelvali:

Hanoi:  Thang Loi, Thong Nhat.

Ho-Chi-Minh-borg:  Cuu Long (Majestic), Duong Khoi; Doc Lap (Caravelle), Lam Son Square; Huu Nghi (Palace), Nguyen Hue; Ben Thanh (Rex), Nguyen Hue; Bong Sen (Miramar), Duong Khoi; Huong Duong (Central Palace), Nguyen Thi Minh Khai; Tan Hinh (First Hotel), Hoang Van Thu.

Sæmileg hótel er líka að finna í Hue, Da Nang, Nha Trang, Qui Nhon og Vung Tau.

Matur:  Í flestum hinna stóru hótela er hægt að fá vestrænan mat, ef hann er pantaður fyrirfram.  Það ættu samt allir að smakka víetnamskan mat, sem er að mörgu leyti líkur kínverskum mat, þótt sérréttir landsins skeri sig úr, m.a. vegna öðruvísi notkunar krydds.  Helztu sérréttir landsins eru:  Cha Gio (krabbakjöt, egg, grænmeti og krydd í deigrúllum, sem er dyfið í sterkar sósur), Nuoc Mam (sterkkryddaður fiskréttur), Chao tom (súrsætar rækjur með hrísgrjónum og grænmeti), Bo Bay Mon (mismunandi eftir landshlutum; nautakjöt með ýmiss konar sósum og grænmeti), Com Tay Cam (sneytt hænsna- og svínakjöt með sveppum, hrísgrjónum og engifersósu), Pho ( all-sterkkrydduð kjötsúpa með núðlum), Canh Chua (fiskisúpa) og Soupe Chinoise (víetnömsk útgáfa af kínverskri súpu).

Veitingahús:  Í Víetnam eru fá góð veitingahús en fjöldi lítilla veitingastaða og matvagna, þar sem hreinlætið er ekki sett á oddinn.

Verzlun:  Yfirvöld leggja mikla áherzlu á sölu afurða hefðbundins listiðnaðar úr bambus, fílabeini, skjalbökuskeljum og eðalviði.  Meðal þess, sem boðið er upp á eru skartgripaskríni, lakk- og perlumóðurgripir, leirmunir og skartgripir.  Skartgripirnir eru oft gerðir úr hráefnum, sem sótt eru í flök bandarískra flug-véla.  Þeir eru víða seldir í stóru hótelunum gegn erlendum gjaldeyri.  Fólk, sem vill láta sauma á sig föt, hvort sem er víetnömsk eða vestræn, fær þau að tveimur til þremur dögum liðnum eftir að mál hefur verið tekið.

Ho-Chi-Minhborg er nú sem fyrr aðalverzlunarborg landsins.  Þar eru flestar beztu verzlanirnar við aðalmarkaðstorgið og við göturnar Duong Khoi, Le Loi, Le Thanh Ton og Nguyen Hue.  Vörurnar eru víðast á föstu verði í stærri búðum en á að prútta í hinum minni og á mörkuðum.  Þeir, sem hafa áhuga á verkum víetnamskra listamanna (málverkum, lakkmunum), ættu að snúa sér til Xunhasaba í Hanoi (32 Hai Ba Trung).

Heimilisföng utan Víetnams
Sara Tours, Suðaustur-Asíu ferðaskrifstofa, Marienstr. 76, D-6050, Offenbach am Main, Þýzkalandi.  Sími 84 63 63.
Vináttufélag Þýzkalands og Víetnamska alþýðulýðveldisins, viðskipta-skrifstofa:  Duisburger Str. 46, D-4000 Düsseldorf 30, Þýzkalandi.  Sími 4901 11.
Sendiráð Víetnam, Konstantinstr. 37, D-5300-Bonn 2 (Bad Godesberg), Þýzkalandi.  Sími 35 70 21.
Ræðismaður Víetnam, 34, chemin François-Lehmann, CH-1218 Grand-Saconnex/Genève, Sviss.  Sími 98 75 08.

Heimilisföng í Víetnam:
Ferðamálaráð ríksins, 54 Nguyen Du, Hanoi.
Útibú í Ho-Chi-Minh-borg:  Saigontourist, 17 Lam Son Square og í öðrum stærri borgum.

Hátíðadagatal
Hefðbundnar hátíðir Víetnama og hátíðir, sem kommúnistar tóku upp eftir franskri fyrirmynd, fylgja flestir gamla, kínverska dagatalinu.  Á meðan á stríðsástandi stóð í landinu var lítið um hátíðahöld en þau hafa smám saman verið tekin upp að nýju.  Þar að auki eru komnir nýir hátíðisdagar, sem eiga að minna á hernaðarlegan og stjórnmálalegan árangur landsmanna.

Hátíðisdagar með fastri dagsetningu:
Nýársdagur (1. jan.); Sameingingardagurinn (30. apríl) til minningar um sameiningu Norður- og Suður-Víetnams árið 1976; Dagur verkamanna (1. maí); Sjálfstæðisdagurinn (2. sept.) til minningar um stofnun Alþýðulýðveldisins Víetnam árið 1945; Jóladagur (25. des.).

Hátíðir með breytilegum dagsetningum:
*Tet (víetnamska nýárshátíðin) er aðalhátíð Víetnama. Hún stendur í þrjá daga með logandi ljóskerjum, hofskrúðgöngum og hefðbundnum Giao-Thua-helgisiðum á miðnætti (lok jan./byrjun febr.); Hung-Vuong-dagurinn (apríl) er fæðingardagur stofnkeisarans Hung Vuong; Fæðingardagur Búdda er haldinn hátíðlegur, þegar tunglið er fullt í fjórða tunglmánuði (maí); Hátíð hinnar reikandi sálna er dauðahátíð við fullt tungl í sjöunda tunglmánuði (júlí/ágúst); Miðhausthátíð við fullt tungl í áttunda tunglmánuði (sept./okt.).  Þetta er kínversk hátíð (hamingjukökur, skrautleg ljósker fyrir börnin).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM