Vietnam skoðunarvert,
Flag of Vietnam


VIETNAM
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Þegar ferðast er frá Hanoi til vesturs í átt að landamærum Laos, er farið um mjög falleg landsvæði.  Þar eru stórskorin fjöll og kynlegar klettamyndanir, þröng dalverpi og gróðri vaxin svæði.  Landsvæðið milli Son La (gestahús stjórnarinnar) og Dien Bien Phu er byggt T'ai-fjallafólki, sem brennir enn þá land til ræktunar.  T'ai-fólkið er ólíkt fjarskyldum ættingjum sínum í Tælandi, með því að það er ekki blandað mongólum.  Það býr víða uppi í fjöllum til að geta verið nær guðum sínum og öndum.  Hin síðar ár hafa yfirvöld reynt að fá það til að taka þátt í samyrkjubúskapnum í fjalladölunum.

Dien Bien Phu
er þekkt úr sögunni, þegar hópar tugþúsunda Víetnama komu hver á eftir öðrum og brutu franskar hersveitir á bak aftur árið 1954.  Merkin um þessi gífurlegu átök sjást víða enn þá, s.s. skriðdrekar og bryndrekar, sem Frakkar skildu eftir á flóttanum eða voru eyðilagðir.  Undanfarin ár hefur ríkisstjórn landsins stuðlað að uppbyggingu þjónustu við ferðamenn í þessum landshluta, s.s. gistiaðstöðu.

Sé ekið til suðurs frá Hanoi til Than Hoa og Hghe Tinh, eru mörg samyrkjubú á leiðinni.  Á þessari leið er hin þjóðsagnakennda Ham-Rong-brú (Drekagilsbrú).

Iðnaðarborgin Vinh á ströndinni við Tongkingflóa varð mjög illa úti í Víetnamstríðinu og endurbyggingin hefur verið hægfara.  Í grennd við hana er Bong Sen, þar sem Ho Chi Minh fæddist.

Da Lat er heilsubótarbær uppi í fjöllum 230 km loftlínu norðaustan Ho-Chi-Minh-borgar.  Svissneski bakteríufræðingurinn Alexandre Yersin, sem fann svartadauðaveiruna, stofnaði hann árið 1893.  Landslagið er prýtt furuskógum og nokkrum vötnum og loftslagið er mjög þægilegt.  Meðalhitinn á sumrin er u.þ.b. 20°C og 15°C á veturna og næturnar eru hressandi svalar.  Bærinn stendur við vatn og umhverfis hann eru einbýlishús með fallegum görðum (gladíólur, hibiskus, rósir, mímósur, bougainvillea o.fl.).  Í grennd við Da Lat búa enn þá nokkrir Moiættflokkar, sem hægt er að heimsækja með sérstöku leyfi.

Á leiðinni frá Da Lat til Phan Rang (til suðausturs; á strönd Suðurkínahafs) er gamla Chambyggðin Dran, þar sem talið er að menningarminjar Chamríkisins sé að finna (m.a. gullkórónu).  Fleiri Chambyggðir er að finna  á strönd Ninh Thuanhéraðs og norðar.

Afkomendur Chamfólksins eru dekkri á hörund en Víetnamar og tala tungumál líkt malæísku.  Margir þeirra klæðast enn þá hefðbundnum  búningum sínum með litskrúðugum höfuðbúnaði.  Félagslegt kerfi þeirra byggist á yfirráðum mæðranna.  Nokkrir múrsteinsturnar minna á forna frægð og veldi Chamfólksins.  Einn hinn fegursti þeirra stendur við Thap Cham.

Strandborgin Nha Trang (240.000 íb.) er 320 km suðaustan Ho-Chi-Minh-borgar.  Hún er á svæði Cham-fólksins og í grennd við hana er einn elzti Chamturninn, Po Nagar, í heilu lagi.  Saryvarman konungur lét reisa hann árið 784.  Við Nha Trang eru langar baðstrendur.  Klukkustundarakstur norðar er Kap Varella með *frábærri baðströnd.

Við Qui Nhon (170 km norðan Nha Trang) og Hung Thanjh eru fleiri varðturnar Chamfólksins.

Strandborgin Da Nang (áður Tourane; 500.000 íb.) er við fagran, sigðlaga flóa.  Chamlistasafnið þar er heimsóknar virði.  Nærri borginni er marmarafjall með Buddhaklaustri á toppi.  Bak við klaustrið liggur vegur inn í helli úr náttúrulegum marmara og dagsljósið lýsir hann upp í gegnum rauf í fjallinu (þar er lítil pagóda).  Í öðrum hellum í grenndinni eru fallegar dropasteinamyndanir.

Sunnan Da Nang er My Son, fyrrum andleg miðstöð Chamfólksins.  Þar er merkilegast að skoða gamalt Bhadres-Cham-altari (10.öld) og velvarð-veittan varðturn.

Bærinn My Lai (nú Tinh Khe) er líka sunnan Da Nang.  Þar frömdu bandarískir hermenn hroðalegt fjöldamorð.  Minnisvarði og lítið safn minna á þenna atburð.

Hoi An (30 km sunnan Da Nang) er fallegur bær með fjölda pagóda.  Hann var mikilvæg verzlunarmiðstöð undir stjórn Hollendinga, Portúgala og Frakka.

AFÞREYING 
Næturlíf:  Þegar á heildina er litið, er varla hægt að tala um næturlíf í Víetnam, alla vega ekki í höfuðborginni Hanoi.  Í Ho-Chi-Minh-borg kemur ókunnur ferðamaður ekki auga á möguleikana, sem eru fyrir hendi nú sem fyrr.  Þar aka eftirlitssveitir hersins um götur og útgöngubann ríkir.  Helzti viðburðurinn þar er Saturday night fever í Ben Thanh-hótelinu (aðgangseyrir).  Eini nætur-klúbburinn, sem er hægt að mæla með er Number 15 Bar í grennd við Doc Lap-hótelið.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM