Vietnam sagan,
Flag of Vietnam


VIETNAM
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Víetnamar, sem eru mjög skyldir kínverjum og nokkrum þjóðflokkum Indónesíu, komu upprunalega frá ósasvæði Rauðár og Suður-Kína (aðallega frá Guangdong-héraði).  Um miðja 3. öld f.Kr. höfðu aðalþjóðflokkar Víetnama sameinast í einu ríki, sem hét Au Lac í upphafi en Nam Viet síðar.  Árið 111 f.Kr. náði kínverska Han-höfðingjaættin völdum í Víetnam og landið var kínverskt hérað til 938.  Þá tók við takmarkað sjálfstæði landsins, sem var þó áfram skattland kínverja.  Kínversk áhrif á menningu og líf Víetnama voru sterk og varanleg eins og glögglega kemur í ljós í fylgni landsmanna við kenningar Konfúsíusar, tal- og ritmáli, klerkaveldi og stjórn landsins.  Samt hafa Víetnamar varðveitt lungann úr séreinkennum sínum.

Ýmsar víetnamskar höfðingjaættir réðu landinu frá 10.-15. öld en þá tóku kínverjar aftur völdin um skamma hríð.  Eftir 1428 réði Le-ættin landinu og hélt völdum til 1776.  Þá fékk landið nafnið Dai Viet.  Áður en Le-ættin komst til valda elduðu Víetnamar og indó-malæíski þjóðflokkurinn Cham grátt silfur.  Chamfólkið hafði tekið upp hindúatrú, líkt og khmerarnir í vestri.  Á 15. öld tókst Víetnömum að leggja undir sig æ stærri svæði Chamfólksins, þar til þeir innlimuðu allt ríki þeirra, sem náði að Camauskaga, þar sem khmerar ríktu.

Le-ættin var valdalítil á tímabilinu 1672 til 1776, þegar völdum hennar lauk.  Landinu var skipt í tvö heimastjórnarsvæði árið 1672 á milli hinnar voldugu Trinh-ættar í norðurhlutanum og Nguyen-ættarinnar í suðurhlutanum eftir heiftuga borgarastyrjöld.  Árið 1776 hófst Tay-Son-uppreisnin, sem olli falli Trinh- og Nguyen-ættanna.  Í kjölfarið var hægt að sameina ríkið að nýju.  Að síðasta Tay-Son-leiðtoganum látnum árið 1792 komst Nguyenættin aftur til áhrifa og árið 1802 tókst Gia Long keisara að sameina landið.  Undir stjórn hans var landið nefnt Viet Nam og fagrir kastalar voru byggðir í Huehéraði.

Árið 1802 sameinaði Nguyen Anh norður (Tonkin), mið- (Annam) og suðurhlutann (Cochin-Kína) og gerðist keisari landsins.  Frakkar skárust í leikinn á sjötta tug nítjándu aldar.  Þeir gerðu landið að verndarsvæði árið 1883 og stofnuðu sambandsríkið Indókína - ásamt Kambódíu og Laos - árið 1887.  Uppreisnir gegn nýlenduherrunum hófust á fjórða tug tuttugustu aldar og héldu óslitið áfram í rúmlega 40 ár.  Japanar hernámu Víetnam árið 1940 og komu upp leppstjórn með Bao Dai keisara í fararbroddi.  Árið 1941 stofnaði kommúnistaleiðtoginn Ho Chi Minh her þjóðernissinnaðra skæruliða - Viet Minh - til að berjast gegn Japönum.  Á lokamánuðum stríðsins naut Viet Minh stuðnings Bandaríkjamanna og lýðveldið Víetnam með Ho Chi Minh sem forseta var stofnað í Hanoi, þegar Japanar höfðu gefizt upp.  Frakkar náðu ekki undirtökunum aftur fyrr en 1946.  Þeir viðurkenndu Víetnam í fyrstu sem „frjálst ríki” innan Franska-Indókína.  Ho Chi Minh fór frá Hanoi eftir árekstra við Frakka og hóf skæruhernað gegn þeim og Bao Dai keisara.

Víet Minh náði smám saman öllu Tonkinhéraði undir sig og Frakkar urðu að gefast upp við Dien Bien Phu eftir 55 daga umsátur árið 1954.  Friðarsamingarnir í Genf sama ár leiddu til skiptingar landsins milli kommúnista í norðurhlutanum og Boa Dai keisara í suðurhlutanum.  Gert var ráð fyrir almennum kosningum í öllu landinu árið 1956, en Norðlendingar neituðu að taka þátt í þeim.  Árið 1955 var Boa Dai stuggað frá völdum og Ngo Dinh lýsti yfir stofnun lýðveldið í Suður-Víetnam.  Harðstjórn Diems olli aðgerðum skæruliða kommúnista í hinu nýstofnaða lýðveldi og árið 1960 voru samtök kommúnista - Víet Cong - stofnuð til að velta hinni vestrænsinnuðu ríkisstjórn úr sessi.

Frá lokum 18. aldar náðu æ fleiri vestrænir trúboðar og kaupmenn fótfestu í landinu.  Frakkar nutu ýmissa forréttinda vegna stuðnings síns við hina ríkjandi Nguyenætt en smám saman kom til alvarlegri árekstra milli Evrópumanna og Víetnama.  Árásum á kristnar trúboðsstöðvar leiddu til þess, að Frakkar hernámu borgina Sai-Gon (Ho Chi Minhborg).  Víetnam hætti að vera sjálfstætt ríki eftir að Frakkar náðu norðurhluta landsins undir sig líka árið 1883.  Loks var landinu skipt í þrjú stjórnsvæði:  Cochinchina (syðst) varð að franskri nýlendu, Tongkingsvæðið með Rauðárósum og Annamhérað með gömlu höfuðborginni Hue varð að frönskum verndarsvæðum.  Kambódía, Laos og Víetnam voru þaðan í frá kölluð Franska-Indókína.

Þjóðernishreyfingum óx stöðugt fiskur um hrygg allt fram að síðari heimstyrjöld.  Japanar hernámu Víetnam árið 1941 en eftirlétu frönsku Vichystjórninni stjórn landsins.  Í marz 1945 veittu Japanar Víetnömum sjálfstæði að Frökkum forspurðum.  Bao Dai, síðasti Nguyen-leiðtoginn, varð þjóðhöfð-ingi.  Eftir uppgjöf Japana í ágúst 1945 hafði fylgi kommúnista, Vietminh, aukizt verulega.  Leiðtogi þeirra, Ho Chi Minh, stofnaði bráðabirgðastjórn 2. september 1945 í Hanoi og lýsti yfir stofnun Víetnamska alþýðulýðveldisins og Frökkum fannst sér ógnað.  Indókínastríðið hófst og stóð yfir frá 1946 til 1954, þar til Frakkar lýstu sig sigraða.  Afdrifaríkasta ósigur þeirra í þessu stríði beið herdeild þeirra hinn 7. maí 1954 við Dien Bien Phu.  Indókínaráðstefnan í Genf ákvað að landinu skyldi skipt um 17. breiddarbaug (hlutlaust svæði), þar til efnt yrði til almennra kosninga árið 1956.  Fram til þess tíma réði Diem-stjórnin með stuðningi Bandaríkjamanna í Suður-Víetnam.  Eftir 1957 kom til mikilla þjóðernisátaka í hinu nýstofnaðar lýðveldi, Suður-Víetnam og árið 1960 sameinuðust uppreinaröflin í þjóðfrelsisfylkingunni (FNL; Vietcong).  Þessi hreyfing náði undir sig mestum hluta lands sunnan 17. breiddarbaugsins fyrir árið 1963.

Árið 1961 sendi John F. Kennedy bandaríska hernaðarráðgjafa til að aðstoða Suður-Víetnama.

Þegar BNA gripu inn í átökin, jukust átökin, sem voru staðbundnari áður, og Víetnamstríðið hófst án þess að nokkurn tíma væri lýst yfir styrjöld.  Stríðsaðilarnir voru þjóðfrelsisfylking Vietcong og Norður-Vietnam, sem sendi heri sína um hina svonefndu Ho Chi Minh-leið til Suður-Víetnams, og suður-víetnamskar hersveitir, studdar af Bandaríkjamönnum.  Stríðsvél BNA komst á fullt skrið í valdatíð Johnsons forseta árið 1965.  Bandaríkjamenn álitu að þeir gætu beygt Norður-Víetnama í duftið með B-52-sprengiflugvélum sínum.  Þar að auki dreifðu þeir hinu gróðureyðandi efni, Agent Orange yfir stór skógarsvæði.    Árið 1964 var þetta lið orðið að heilu herdeildunum, sem hóf gífurlegar loftárásir á Norður-Víetnam eftir að bandarískar eftirlitssveitir höfðu orðið fyrir meintum árásum Norðanmanna.  Í lok árs 1964 var fjöldi bandarískra hermanna, sem tók virkan þátt í hernaðaraðgerðum, orðinn 200.000.  Suður-Víetnam stóðst hina miklu „Tet-sókn” Norðanmanna árið 1968 en veikleikar Sunnanmanna og bandaríska hersins komu vel í ljós.

Friðarviðræður hófust árið 1968 en bandarískar hersveitir börðust með hnúum og hnefum við Víet Cong í Kambódíu og Laos árið 1970. 
Í nóvember 1968 stöðvaði Johnson forseti allar hernaðaraðgerðir gegn Norður-Víetnam.  Um mitt árið 1969 hóf Nixon forseti brottflutning bandarískra herja frá landinu.  Í marz 1972 hófu kommúnistar stórárásir í Suður-Víetnam, sem Nixon svaraði með gagnárásum á Norður-Víetnam.  Hinn 27. janúar 1973 var lýst yfir gagnkvæmu vopnahléi í París, sem alþjóðleg eftirlitsnefnd átti að fylgjast með.  Eftir að meirihluti herstyrks BNA hafði verið fluttur heim hófu Norður-Víetnamar árásir á ný og lögðu undir sig stór landsvæði.  Loks tókst kommúnistum að leggja Suður-Víetnam allt undir sig.  Saigon féll 30. apríl 1975 og landið var undir herstjórn í heilt ár á eftir.

Árið 1976 fóru fram almennar kosningar í öllu landinu og í kjölfarið fékk allt landið nafnið Alþýðulýðveldið Víetnam.
Stríðinu lauk formlega með friðarsamningunum í París árið 1973, en það hélt áfram eftir að Bandaríkjamenn höfðu flutt hersveitir sínar heim.  Eftir að kommúnistarnir í norðurhlutanum höfðu sameinað landið árið 1975 tókst ekki að hefja enduruppbyggingu vegna landamærastríðs við Kína og hernáms Kambódíu árin 1979-1989.  Skortur á efnahagsstuðningi frá hinum vestræna heimi hefur staðið í vegi fyrir eðlilegri efnahagsþróun og valdið gífurlegum landflótta (bátafólkið).  Allt frá 1989 til 1990 hefur verið reynt að móta raunhæfa stefnu til að laða að fjármagn frá Vesturlöndum.

Síðan þessir atburðir áttu sér stað í Víetnam hafa íbúarnir orðið að glíma við hroðalegar afleiðingar áratuga stríðsástands.  Náttúru landsins var stórlega raskað, mikill skortur var á matvælum og efnahagslífið var í rúst.  Samtímis tilraunum til enduruppbyggingar urðu Víetnamar að berjast áfram í Laos og hafa átt í stöðugum útistöðum við risann í norðri vegna landamæra-deilna.  Árið 1979 lögðu víetnamskar herdeildir Kambódíu undir sig og hröktu ógnarstjórn Rauðu khmeranna frá völdum.  Samkvæmt samþykktum ráðstefnu utanríkisráðherra um Indókína var Víetnömum gert að flytja heri sína brott þaðan í áföngum frá árinu 1985 til 1990.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM