Hue Vietnam,
Flag of Vietnam


HUE
VIETNAM

.

.

Utanríkisrnt.

Hin gamla höfuðborg Víetnams, Hue (200.000 íb.) er við neðri hluta Song Huong (Ilmfljót), sem á upptök í fjöllunum í Annam.  Það er farið um Col des Nuages (Skýjaskarð), þegar fólk ferðast til Hue frá Da Nang.  Borgin, sem varð illa úti í loftárásum árið 1968, er núna meðal skoðunarverðustu staða landsins.  Lífið í borginni er mjög bundið gömlum hefðum og siðum.  Listilega skreytt Búddahof og gamlir þjóðbúningar eru algeng sjón á götum úti.  Á kvöldin eru oft haldnar sýningar á keisaralegum hofdönsum.

*Da Noi kastalinn frá keisaratímanum er athyglisverður.  Bygging hans var hafin árið 1804, þegar Gia Long var keisari.  Ngo Mon (Hlið suðursins) er aðallhliðið.  Það snýr að ánni og yfir því gnæfir 40 m hár fánaturn, þar sem fáni hinna sigursælu kommúnista var dreginn að húni árið 1968.  Turninn var reistur árið 1809 og hefur verið endurbyggður tvisvar síðan.  Yfir Ngo Mon er Ngu Phung (Fimmfönixahúsið), þar sem keisararnir komu fram opinberlega við hátíðleg tækifæri.  Við aðalgötuna utan hliðsins er skjöldur, sem stendur á: „Taktu af þér húfuna og hneigðu þig".

Frá Ngo Mon liggur brú að görðum Thai Hoa (Hallar hins himneska friðar).  Efri hallargarðurinn var aðeins ætlaður hæst settu mandarínunum og neðri garðurinn fyrir hina lægra settu.  Krýningarhöllin, sem stendur enn þá, var byggð árið 1833.  Gia Long lét reisa gang í miðju kastalans en hann er horfinn.

Dien-Tho-höllin (Höll eilífs lífs) var byggð 1803.  Þar bjuggu mæður keisaranna.  Í The-Mieu-hofinu eru 9 duftker höfðingjaættarinnar.  Margar byggingar hallarinnar eru í niðurníðslu og garðarnir eru vanræktir.

Skammt norðan keisarakastalans er Tinh-Tam-vatnið (Vatn hjartagleð-innar).  Við vatnið standa nokkrir laufskálar og þar létu keisararnir gjarnan þreytuna líða úr sér.

Rúmlega 5 km vestan borgarinnar, á norðurbakka Ilmfljóts, gnæfir hinn sjö hæða turn, Phuoc-Duyen, þar sem áður stóð Linh-Mu-pagódan (1844).  Einu minjarnar um hana er ein súla og tveggja tonna bjalla.

Nguyen-keisaragrafirnar eru nokkrum km ofar en Hue við fljótið (skoðunarferðir með sampan, drekabát).  Hin fyrsta þeirra, 7 km frá Hue, er gröf keisarans Tu Duc (1848-1883), falin í furuskógi og umkringd háum múr.  Á grafarsvæðinu er gröfin sjálf, hof, laufskáli og tjörn.  Sunnar eru grafir keisaranna Dong Khan (1885-1889), Thieu Tri (1841-1847) og Khai Dinh (1916-1925).  Grafir Gia Long (1808-1820), fyrsta Nguyen-keisarans og eftir manns hans, Minh Mang (1820-1840), eru á hinum árbakkanum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM