Ho Chi Minh borg Saigon Vietnam,
Flag of Vietnam


HO CHI MINH BORG - SAIGON
VIETNAM

.

.

Utanríkisrnt.

Ho-Chi-Minhborg (víetnamska: Thành Phõ Hõ Chí Minh) hét áður Saigon (3,5 millj. íb.).  Hún er stærsta borg landsins og var höfuðborg lýðveldisins Suður-Víetnams frá 1955 til 1975.  Frakkar hófu byggingu hennar við norðausturjaðar Mekongóshólmanna á síðari hluta 19. aldar.  Stæðilegar nýlendubyggingar, breiðgötur, trjágötur, lystigarðar og skurðir setja ljá borginni sérstæðan svip.  Aðalbreiðgöturnar tvær, Duong Knoi (Tu Do) og Duong Nguyen Hue með óteljandi búðum og veitingastöðum auk helztu hótela bera enn þá franskt yfirbragð.

Notre Dame-kirkjan (1883), eitt einkenna borgarinnar, stendur svolítið afsíðis frá Saigonánni við Boulevard Duong Khoi (Tu Do).  Skammt norðan hennar er aðalpósthúsið.  Gia-Long-höllin og ráðhúsið eru meðal athyglisverðra nýlendubygginga.  Hin fagra bygging fyrrum þjóðleikhúss Saigon stendur við stór gatnamót Duong Khoi (Tu Do) og Le Loi.  Nú er hún *Þinghús.  Rétt hjá því er Huong Duong hótelið (fyrrum Continental Palace; með kaffiverönd) og andspænis því er Doc Lap hótelið (fallegt útsýni af þaki þess).

Boulevard Le Loi, þar sem úir og grúir af götusölum, liggur frá Þinghúsinu til suðvesturs að miðbæjarmarkaðnum í grennd við brautarstöðina.

Xo Viet Tinh (Thong Nhat) tengir Thong Nhathöllina (Sameingingarhöllina; fyrrum forsetahöll) og hinn skoðunarverða dýragarð.  *Þjóðminjasafnið er þar í lystigarði.  Þar eru sýndar afbragðs menningarminjar Víetnama, Khmer og Cham auk listmuna frá Kína og Japan.  Andspænis safninu er hið svokallaða Minjagripahof.

Einum km suðvestan Sameiningarhallarinnar er Xa-Loi-pagódan, nútímabygging úr steinsteypu.

Í Gia Dinh-hverfinu er grafarhof Le Van Duyet marskálks, mikillar hetju, sem þjónaði fyrsta Nguyen-höfðingjanum Gia Long.  Hofið, sem eyðilagðist árið 1831 og var endurbyggt, er mikið heimsótt, þegar Víetnamar fagna nýju ári.  Þetta hof er eitt skýrustu dæmanna um áadýrkun í landinu.

Kínaborgin Cholon er eiginlega samvaxin Ho-Chi-Minh-borg.  Hún er skorin fjölda skurða með staurahúsum og þröngum götum og mjög áhugaverð.  Þar eru fjörugir markaðir og nokkur kínversk hof og önnur guðshús létta á yfirbragði borgarinnar.

Bærinn Bien Hoa, 25 km norðan Ho-Chi-Minh-borg,  er við hraðbraut, sem Bandaríkjamenn byggðu.  Þessi bær er kunnur fyrir leirmunagerð.

Bærinn Cu Chi er 30 km norðvestan Ho-Chi-Minh-borgar.  Hann var miðstöð skæruliða, sem leituðu skjóls í neðanjarðargöngum í Víetnamstríðinu á milli þess, sem þeir ollu Bandaríkjamönnum skráveifum.

Í bænum Tay Ninh, norðvestan Ho-Chi-Minh-borgar, er hið stórkostlega *Cao-Dai-hof.  Eftirmyndir þess standa í Tiger Balm lystigörðunum í Singapúr og Hongkong.  Inni í því eru súlur, skreyttar gipsdrekum, útsaumaðir gunnfánar og fallegar höggmyndir.  Þar er líka auga Cao Day málað á blátt hnattlíkan.  Caodai-trúin kom fram síðla á þriðja áratugi 20. aldar.  Hún á rætur í Buddhatrú, kenningum Konfúsíusar og kristinni trú.  Meðlimir trúflokksins fá að sögn fyrirmæli frá hinum mikla anda, Cao Cay, og ákveðnum sögulegum persónum, m.a. Viktor Hugo.

Vung Tau (áður Cap St. Jacques), 70 km suðaustan Ho-Chi-Minh-borgar, við Suðurkínahaf.  Á stríðsárunum var þar fremur ömurlegur hvíldarstaður fyrir ástralska hermenn, sem börðust í Víetnam.  Síðan hefur ýmislegt breytzt.  Nú eru komin góð hótel og veitingahús, sem framreiða afbragðs fiskrétti.  Hvít ströndin og sjórinn eru orðin nokkuð hrein aftur.

Mekong-óshólmarnir:  Suðvestan Ho-Chi-Minh-borgar eru hinir 70.000 km² óshólmar Mekong fljótsins, stærsta fljóts SA-Asíu.  Þar er geysilegur fjöldi framræsluskurða, enda hefur hver fermetri þess verið nýttur til landbúnaðar aldatugum saman, einkum til hrísgrjónaræktar.  Óshólmarnir eru þéttbýlt.  Banana- og kókospálmar eru áberandi og skýla þeim, sem vinna á ökrunum, fyrir brennandi geislum sólarinnar.  Þegar suðvesturmonsúninn ríkir, milli maí og nóvember, er mest í fljótinu og stór svæði eru undir vatni.  Þá eru bátar aðalsamgöngutækin og stórir bátar geta siglt alla leið til kambódísku höfuðborgarinnar, Phnom Penh.

Nálega 65 km suðvestan Ho-Chi-Minh-borgar er My Tho.  Þaðan er haldið í skoðunarferðir í bátum um óshólmasvæðið.  Þar er hin athyglisverða Minh-Trang-pagóda og umhverfis hana eru stórar ávaxtaplantekrur.  Frá My Tho sigla ferjur um margar kvíslar Mekong til  Vinh Loi á strönd Suðurkína-hafs og til Can Tho, aðalbæ Transbassac-héraðs (Bassac = aðalkvísl fljótsins), sem er mikilvægur verzlunarstaður með hrísgrjón.

Aðalborg An Giang-svæðisins, Long Xujen, er undir yfirráðum Hoa-Hoa-trúflokksins.  Xujen Phu stofnaði hann á fimmta áratugi 20. aldar (Vietminh drápu hann árið 1947).  Nú tilheyra 60% íbúa svæðisins þessum trúflokki og 10% eru katólskt fólk, sem flýði þangað frá Norður-Víetnam eftir vopnuð átök árið 1954.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM