Hanoi Vietnam,
Flag of Vietnam


HANOI
VIETNAM

.

.

Utanríkisrnt.

Hanoi (ha = fljót og noi = hérna megin; þýðir hér: Borgin við árbuginn (2,6 millj. íb.) varð höfuðborg Víetnam við sameiningu landsins árið 1976.  Fyrrum var hún meðal fegurstu og mest aðlaðandi borga Suðaustur-Asíu.  Enn þá eimir eftir af þessum töfrum, þegar gengið er um trjáprýddar breiðgöturnar eða stórkostlega lystigarðana, þótt loftárásirnar á borgina hafi skilið eftir stór sár og eytt obbanum af þeim.  Hanoi er á stóru vatnasvæði á vesturbakka Rauðár (Song Hong), sem er nokkur hundruð metra breið á þessum slóðum.

Í gamla bæjarhlutanum eru margar gamlar og fallegar byggingar, s.s. *Quan-Su-pagódan (aðalbúddahof landsins), Ngoc-Son-hofið (byggt úti í tjörn; 19.öld), Byltingarsafnið og *Sögusafnið.  Þessar byggingar eru allar austan og norðaustan aðalbrautarstöðvarinnar.  Það er gaman að skoða Skjaldbökupagóduna á lítilli eyju í Litlavatni.  Sagan segir að skjaldbaka hafi þar fært víetnamskri hetju sverð nokkurt, sem dugði til að reka árásarheri kínverja af höndum Víetnama.  Tveggjasystrapagódan (Den Hai Ba) var reist til minningar um tvær konur, sem leiddu uppreisn gegn kínverjum árið 40 e.Kr.

Sunnan aðalbrautarstöðvarinnar er hinn vinalegi Leningarður.  Við austurjaðar hans er Van-Ho-sýningarsvæðið.  Austar er Hai-Ba-Trung-hofið.

Í norðurhluta gamla bæjarhlutans var kastali, sem var reistur á 19. öld.  Þar standa nú opinberar byggingar og vinsæll markaður undir þaki.  Long-Bien-brúin (2 km) yfir Rauðá tengir gömlu miðborgina við hinn bakkann.

Skammt norðvestan aðalbrautarstöðvarinnar er Menningarhof Konfúsíusar frá 15. öld.  Í grenndinni er Fagurlistasafnið.  Við Duong Dien Bien Phugötu er Flaggturn höfuðborgarinnar og Hersafnið.

Við Norðvesturenda Duong Dien Bien Phu-götu gnæfir *Ho Chi Minh grafhýsið, sem var reist árið 1975.  Rétt norðan þess, við grasagarðinn, er forsetahöllin, sem var löngum bústaður frönsku landstjóranna.  Úti í tjörn skammt suðvestan grafhýsisins er fögur pagóda, Chua Mot Cot frá 11 öld, sem var líklega byggð til minningar um víetnamskan þjóðhöfðingja.  Við lítið vatn, tæplega einum km norðan grafhýsisins, er Quan Thanh-hofið frá 11. öld.  Inni í því er 3,72 m há og 4 tonna þung stytta af Tran Vu, guði norðurhlutans.  Enn norðar, á lítilli eyju, er hin fagra Tran-Quoc-pagóda.  Þar stóð áður sumarhöll.

Í vesturhluta borgarinnar er Giang-Vo-sýningarsvæðið.  Vestan þess sjónvarpsturn Hanoi úr stáli og enn vestar er Thu-Le-lystigarðurinn með dýragarði og ríkisfjölleikahúsinu.  Vestan þessa garðs er Den-Voi-Phuc-hofið (Hof hinna krjúpandi fíla).  Það er helgað Linh Lang prinsi, sem tókst dável upp við varnir landsins með fílum sínum.

Í skógi vöxnu fjalllendinu 76 km vestan höfuðborgarinnar er borgin Hoa Binh, sem er tilvalin miðstöð til ferðalaga um svæði, þar sem ýmsir tiltölulega fámennir þjóðflokkar búa, og skoðunarferða um ósnortin skógasvæði.

Hafnar- og iðnaðarborgin Haiphong (1,2 millj. íb.) er 105 km austan Hanoi við norðurjaðar óshólma Rauðár.  Hún er smám saman að taka á sig mynd eftir hremmingar Víetnamstríðsins.  Engin önnur borg landsins varð fyrir meiri loftárásum Bandaríkjamanna en hún (mest árið 1972).  Baðstrend-urnar við Do Don við Tongkingflóa í grennd Haiphong eru vinsælar.

*Ha-Long-baðströndin er 160 km austan Hanoi.  Hún er einhver fegursti hluti Víetnams.  Nafnið Ha-Long þýðir Staðurinn, þar sem drekinn óð út í sjó, enda segir þjóðsagan, að himneskur dreki hafi gert einmitt það, og gusurnar, sem mynduðust við það fyllti dalina, þannig að einungis hæstu tindar stóðu upp úr.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM