Caracas meira Venesúela,
Flag of Venezuela


CARACAS
MEIRA

VENESÚELA
.

.

Utanríkisrnt.

Íbúarnir.  Íbúar Caracas, líkt og í landinu öllu, eru aðallega kynblendingar (mestizo).  Auk þessara blendinga Spánverja og indíána er nokkur hópur svartra Afríkumanna.  Einnig er nokkuð um fólk af asísku bergi brotnu en eftir síðari heimsstyrjöldina hefur verið nokkuð aðstreymi Evrópumanna.  Á sjötta áratugnum kom fjöldi Spánverja, Portúgala og Ítala til Caracas.  Árið 1956 bjuggu rúmlega 40% hinna 438.000 erlendu íbúa landsins í Caracas.  Þessin innflytjendur og afkomendur þeirra hafa aðallega komið sér fyrir í sérstökum hverfum (barrios) borgarinnar.  Búferlaflutningar innanlands hafa einnig valdið mikilli fjölgun borgarbúa og frjósemin hefur verið mikil.  Flestir koma frá Andessvæðinu, einkum frá héruðunum Táchira og Mérida og Trujillo, þótt Caracas virki sem segull á aðra hluta landsins líka.

Stéttaskipting er mikil og greinileg í Caracas eins og annars staðar í Suður-Ameríku og kemur fram í búsetu í borginni.  Æðri stéttin efnaðist af rekstri búgarða í upphafi og síðan iðnaði, viðskiptum og fasteignaumsýslu.  Hún býr við allsnægtir, aðallega í austanverðum dalnum og við strönd Karíbahafsins.  Miðstéttin hefur aðallega komið sér fyrir í olíuiðnaðnum og hefur haft tekjur af miklu aðstreymi Evrópumanna til borgarinnar.  Hún býr aðallega um miðbik borgarinnar og nokkrum úthverfum.  Lægsta stéttin, aðallega verkamenn, þjónar og atvinnulausir, búa í fátækrahverfum uppi í hlíðunum sunnan og vestan borgarinnar.

Allt frá upphafi vega hefur rómversk-katólsk trú verið aðaltrúarbrögð borgarbúa en önnur trúarbrögð eru líka iðkuð.  Spænska er aðaltungan, þótt enska sé alls staðar notuð, þar sem ferðamenn eru á ferðinni.

Iðnaður.  Caracas er miðstöð alls, sem gerist í landinu.  Þetta átti ekki sízt við iðnað og viðskipti allt fram á sjötta áratuginn, þegar landstjórnin gerði áætlanir um fleiri iðnaðarsvæði í landinu.  Engu að síður er Caracas enn þá aðaliðnaðarborg landsins og lögð er áherzla á vefnaðarvöru og fatnað, matvæli og drykkjarvöru, tóbak, timbur, pappír, prentun, leir- og steinvöru, gúmmí- og leðurvöru, gler, efnavöru, lyf, málm- og plastvöru.  Rúmlega 20% iðnframleiðslu landsins fer fram í Caracas og þar starfa 30% af vinnuaflinu, sem er tengt iðnaði.  Mikilvægi iðnaðar hefur farið hraðminnkandi í borginni, því að ný iðnfyrirtæki hafa sprottið upp annars staðar í landinu og reynt er að færa mengandi iðnað frá borginni.

Verzlun og viðskipti.  Þjónustugeirinn er mikilvægastur fyrir Caracas.  Hann felur í sér innflutning og heildsölu, samgöngur og opinberar stofnanir, menntun og heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu hins opinbera.  Borgin er miðstöð viðskipta og flest stór iðnfyrirtæki, bankar og tryggingafyrirtæki eru þar með höfuðstöðvar sínar.  Þarna eru líka allar stofnanir ríkisins og sendiráð eða ræðismenn erlendra ríkja.  Ferðaþjónustan verður æ mikilvægari fyrir efnahag landsins og aðalmiðstöð hennar er í Caracas, þar sem er fjöldi hótela og ferðaskrifstofa.  Víðast um landið dafna byggingarfyrirtæki vegna mikillar uppbyggingar.  Hvað sem henni líður er atvinnuleysi landlægt og ekki dugar fyrir fólk að grípa til götusölu eða skóburstunar, því að framboðið er þegar of mikið.

Samgöngur
.  Caracas er beintengd við margar aðrar borgir heims loftleiðis og um heimshöfin.  Maiguetía-millilandaflugvöllurinn er á ströndinni í tæplega 17 km fjarlægð frá borginni.  Hann þjónar einnig innanlandsflugi til allra landshluta.  Tveir minni flugvellir, La Carlota og Francisco de Miranda, þjóna líka borginni.  La Guaira og Puerto Cabello (minna) eru hafnarborgir Caracas og um þær fer mestur hluti inn- og útflutnings borgarinnar.  Nútímahraðbraut með göngum í gegnum fjöllin tengir hana við Maiquetía, La Guaira og margar Strendur og sumardvalarsvæði á ströndinni.  Þessi hraðbraut var opnuð 1953.

Samgöngur í borginni byggjast á miklum fjölda strætisvagna, einkabílum og leigubílum.  Þegar umferð er mest, eru stræti borgarinnar næstum stífluð og þetta vandamál virðist fremur aukast en hitt.  Kerfi almenningssamgangna er gallað en batnaði verulega við opnun neðanjarðarlestanna 1983.  Fjölakreina hraðbrautir innan borgar greiða líka fyrir umferðinni.  Járnbrautirnar, sem voru mikilvægustu tenglar borgarinnar við sjávarsíðuna og dalanna innar í landinu, eru ekki lengur í notkun.

Stjórnsýsla.  Caracas er setur ríkisstjórnar landsins.  Þar búa rúmlega 40% allra ríkisstarfsmanna.  Borginni sjálfri er stjórnað sem einni heild, þótt hún hafi vaxið út fyrir mörk sins héraðs.  Forsetinn skipar héraðsstjóra.  Hvert hérað hefur sitt lögreglulið og ákveður hvaða deildir þess starfa undir stjórn borgarráða.  Aðalstöðvar héraðslögreglu Caracas eru í borginni undir beinni stjórn héraðsstjórans.  Borgarráðið hefur verið áhrifamikið í stjórn mála héraðsins allt frá nýlendutímanum.  Skipulag borgarinnar er í höndum Comisión Metropolitana de Urbanismo.  Allt frá 1535 hefur Caracas verið setur katólsks biskups og erkibiskups síðan 1804.

Þjónusta og heilbrigðismál.  Vatnsbirgðirnar í dalnum voru álitnar langt umfram þarfir fyrstu þrjár aldirnar eftir að búseta hófst í dalnum.  Vatnsskorts fór ekki að gæta fyrr en í kringum 1940 og síðan þá hefur stöðugt verið leitað að nýjum vatnsbólum til að mæta aukinni þörf.  La Mariposa og Agua Fría-stíflurnar voru byggðar 1949 og árið 1956 var lokið við vatnsleiðslu frá ánni Río Tuy til La Mariposa-lónsins.  Vatnsöflun er enn þá meðal mikilvægustu verkefna borgaryfirvalda.  Þau þurfa einnig að beina kröftum sínum að lausn vanda vegna sorphirðu og eyðingar og mengunar.  Sorpi er sturtað beint í ána Río Guaire og iðnaður, ökutæki og vinnuvélar valda mikilli mengun í þessum lokaða dal.

Caracas hefur notið rafmagns síðan 1897 og er nú tengt raforkuneti landsins.  Náttúrugas er flutt um leiðslur frá Guárico og Anzoátegui-héruðum í Austur-Llanos.

Á síðari hluta 20. aldar beindu ríkisstjórnin og einkaaðilar miklu fjármagni til fjárfestingar til Caracas, þannig að borgin dafnaði meira en aðrar borgir og landshlutar.  Árið 1936 var Íbúafjöldinn rúmlega tvöfaldur miðað við Maracaibo, sem er næststærsta borg landsins.  Árið 1971 var Íbúafjöldinn orðinn rúmlega þrefaldur.  Innflytjendur hafa komið í stórum hópum frá öðrum landshlutum og flestum Evrópuríkjum.  Há fæðingatíðni hefur einnig átt þátt í þessari þróun, sem hefur leitt til verulegs húsnæðisskorts.

Háreistum íbúðarblokkum hefur fjölgað gífurlega, en ekki nógu hratt til að koma í veg fyrir myndun fátækrahverfa með þúsundum kofaræksna úr bárujárni, pappa eða öðru tiltæku efni uppi í hlíðunum.  Víða hafa spænsk nýlenduhús orðið að víkja fyrir þessum blokkum, þannig að fá eru eftir og þeim fækkar óðum.

Þessi stöðuga fjölgun íbúa hefur gert heilbrigðisyfirvöldum erfitt að mæta auknu álagi.  Innan borgar er fjöldi heilsugæzlustöðva, heilsuhæla, sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila.

Menntun.  Talsverð áherzla hefur verið lögð á menntun í borginni.  Þar eru allar tegundir skóla auk barnaheimila og daggæzlustöðva fyrir börn yngri en sex ára.  Meðal helztu æðri menntastofnana er Caracasháskóli (1725) í miðjum dalnum í nútímahúsnæði, Simón Bolívar-háskólinn (vísindi og tækni) og einkareknu háskólarnir Andrés Bello (katólskur), Metropolitan og Santa María.  Þarna eru líka skólar á sviði hreinlætis, fjöllista og herskóli.

Menningarlíf.  Höfuðborgin er aðalmiðstöð menningarlífs í landinu.  Þar eru leikhús, listasöfn, tónlistarhús, danssalir og kvikmyndahús (kvikmyndagerð).  Ateneo de Caracas er nútímaleikhús, sem var vígt 1983, móðurmálsstofnun og akademíur fyrir sögu, læknisfræði og stjórnmála- og félagsvísindi eru einnig í borginni.  Þar er og Þjóðarbókhlaðan og fjöldi annarra bókasafna, listagallerí, þjóð- og borgarleikhúsin og listaskóli.

Fjölmiðlar.  Í borginni er fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva og dagblaða.  Gaceta de Caracas var fyrst gefið út 1808 og var helgað baráttunni fyrir sjálfstæði landsins.  Helztu dagblöð landsins eru enn þá gefin út í Caracas, Ultimas Noticias, El Nacional, El Mundo og El Universal, og þeim er dreift um allt land.  Af þessum sökum er mun minna gefið út af prentuðu efni annars staðar í landinu.  Fyrst var sjónvarpað í landinu árið 1953.

Afþreying.  Milt loftslagið í borginni og góð íþróttamannvirki gera borgarbúum kleift að taka þátt í íþróttum og horfa á leiki.  Hornabolti og knattspyrna eru vinsælustu íþróttirnar og margir fylgjast með veðreiðum á stórum skeiðvelli, sem tekur 30.000 manns í sæti, og nautaati 10-12 sinnum á ári.  Auk þessa er fjöldi golfvalla, sundlauga, tennisvalla og baðstranda við Karíbahafið.  Torg og skemmtigarðar eru fjölmargir.  Hinir vinsælustu eru Parque Nacional el Avila, Parque Los Caobos, Jardín Botánico og Parque del E
ste í La Floresta.

SAGAN
Búseta í Caracas hófst rúmlega 40 árum eftir stofnun Cumaná (1523) í austri og Coro (1527) í vestri.  Búgarður var reistur í dalnum árið 1557 (Francisco Fajardo, sonur spænsks höfuðsmanns og dóttur indíánahöfðingja) og árið 1561 stofnaði Juan Rodríguez Suárez borgina á landi búgarðsins.  Hún átti ekki langa lífdaga í upphafi, því indíánar réðust á hana og lögðu í rúst.  Endurheimt dalsins hófst 1566 og hann byggðist skjótt á ný.  Diego de Losada hefur fengið heiðurinn af stofnun borgarinnar  1567.  Hann nefndi hana Santiago de león de Caracas eftir heilögum Jóhannesi postula, verndardýrlingi Spánar, Don Pedro Pnce de León, landshöfðingja og caracas-indíánunum, sem bjuggu á svæðinu.

Árið 1578 var borgin ferhyrningslöguð í kringum eitt torg.  Göturnar voru beinar og steinlagðar og lækir úr fjöllunum runnu meðfram þeim.  Þrjú hús voru úr múrsteini, hvert tveggja hæða með stráþökum.  Veggir flestra annarra húsa voru úr reyr og leir (bajareque) eða sólþurrkuðum leirsteinum og þökin úr stráknippum eða leirflísum.  Á þessu tímabili voru hús æðri stéttanna stór með trjáprýddum inngörðum, súlnagöngum og aðskildar vistarverur fyrir þræla og hesthús.  Borgin stækkaði fyrst meðfram vegunum til norðurs og suðurs og síðar til austurs og vesturs.

Borgarráðið (Cabildo) lét æ meir til sín taka í við stórn miðhluta landsins og brátt myndaðist útvalinn hópur, sem stjórnaði pólitískum og efnahagslegum málum borgarinnar.  Árið 1577 varð Caracas að höfuðborg héraðsins.  Enskir sjóræningjar lögðu hana í rúst árið 1595 og næstum allar byggingar hennar hrundu í jarðskjálftum árið 1755 og 1812.  Á 17. og 18. öld varð hún smám saman að mikilvægasta þéttbýli landsins.  Það tók skamman tíma að bæla niður andstöðu indíánanna gegn þessari þéttbýlismyndun, m.a. vegna bólusóttarfaraldurs, sem felldi innfædda í hrönnum.  Sjóræningjar gerðu sér ekki tíðförult inn í dalinn, þótt borgin væri í grennd við norðurströndina.  Gull fannst í dalnum og aðliggjandi fjöllum og síðan var farið að rækta kakó til súkkulaðigerðar.  Uppi í dalnum var þægilegra og heilsusamlegra að búa en niðri á láglendinu og þar var nægilegt drykkjarvatn.

Simón Bolívar, mesta hetja Suður-Ameríku, fæddist í Caracas 24. júlí 1783.  Foreldrar hans voru framarlega í flokki hinnar æðri stéttar.  Kennarar hans blésu honum í brjóst sjálfstæðisþrána fyrir spænskumælandi lönd álfunnar.  Hann kom sér upp litlum her í Kólumbíu, réðist inn í Venesúela og náði Caracas á sitt vald í ágúst 1813 og fékk að launum nafnbótina „Frelsarinn”.  Ári síðar voru föðurlandsvinirnir hraktir á flótta en þegar landið fékk sjálfstæðí 1830, varð Caracas höfuðborg þess.

Árið 1870 hófust miklar breytingar á borgarskipulaginu undir stjórn Antonio Guzmán Blanco, forseta.  Þegar hann var ekki fjarverandi í París og lét leppforseta sinn, var hann upptekinn við að gera Caracas að eftirmynd Parísar.  Franski byggingarstíllinn frá þessum tíma tók við af spænska nýlendustílnum.  Breiðgötur voru byggðar og sumar götur voru breikkaðar til að borgin mætti stækka.  Járnbrautin milli Caracas og La Guaira var tekin í notkun árið 1883.  Brautin lá um brött strandfjöllin og tengdi höfuðborgina við hafnarborg sína við Karíbahafið.  Á fyrri hluta 20. aldar var farið að vinna að uppbyggingu sérstaks borgarhluta fyrir æðri stéttina í El paraiso.  Skömmu síðar var hafin skiplagning hverfis fyrir miðstéttina í vesturhlutanum. 

Árið 1936, að Juan Vicente Gómez, hershöfðingja og einræðisherra í 27 ár, rann upp blómaskeið í landinu í tengslum við olíuvinnslu.  Íbúum Caracas fjölgaði og borgin var þanin út eins og landslagið leyfði.  Í miðbænum var El Sinencio-hverfinu breytt í stórt íbúðar- og viðskiptahverfi fyrir millistéttina.  Þetta þróunarskeið borgarinnar, sem hófst 1939, markaði upphaf nútímabyggingarlistar hennar.

Frá 1951 til 1957 var annar einræðisherra hersins við völd (Marcos Pérez Jiménez).  Hann lagði mesta áherzlu á nútímavæðingu borgarinnar.  Fátækrahverfum var rutt brott og byggðar háreistar íbúðablokkir og breiðar hraðbrautir milli borgarinnar, innlandsins og strandar.  Útlitsbreytingar borgarinnar voru snöggar og miklar.  Gamla borgin var að hverfa.  Fjöldi úthverfa spratt upp eins og gorkúlur á hæðunum og byggingar fyrir verzlun og viðskipti og stjórnsýslu voru reistar á ótrúlega skömmum tíma.  Þegar árið 1956 var farið að gera ráð fyrir að Caracas yrði ekki miklu lengur höfuðborg landsins vegna takmarkana á stækkun hennar og hafizt var handa við skipulagninu annarra iðnaðarborga.  Engu að síður hefur Caracas haldið áfram að stækka og þróast og haldið velli sem mikilvægasta borg landsins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM