Svissneski lífvörðurinn Vatikanið,


SVISSNESKI LÍFVÖRÐURINN
VATIKANIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Þessi herdeild er skipuð hermönnum, fæddum í Sviss, sem eru ábyrgir fyrir öryggi páfa.  Þeir fylgja honum sem lífverðir og standa vörð um Vatíkanið og sumardvalarstað hans, Castel Gandolfo.  Herdeildin er óháð svissneska hernum og lýtur stjórn páfa, sem hún sver hollustueið í Belvedere.  Nýliðar verða að sanna, að þeir séu af svissnesku bergi brotnir, fæddir í hjónabandi, séu rómversk-katólskir, einhleypir, yngri en 25 ára, heilbrigðir og lýtalausir.  Liðsforingjar eru komnir af fjölskyldum aðalsmanna.  Liðsmenn eru venjulega klæddir bláum, tvískiptum, 15.-17. aldar búningum með bláar húfur.  Við hátíðleg tækifæri klæðast þeir búningum, sem talið er að Mikelangeló hafi hannað í kringum 1506.  Frakkinn er röndóttur í litum Medici-fjölskyldunnar, rauður, dökkblár og gulur.  Um hálsinn er hvítur fellingakragi og hjálmarnir háreistir.  Stundum klæðast hermennirnir brynjum.  Vopnabúnaðurinn er atgeirar og sverð.  Þeir eru einnig þjálfaðir í meðferð nútímavopna.

Herbúðirnar eru við austurjaðar Vatíkanríkisins, norðan torgs Péturskirkjunnar, við hliðina á Páfahöllinni.  Kapella þeirra er SS. Martino og Sebastiano og Campo Santo Teutonico við Péturskirkjuna er kirkjugarður þeirra.

Svissneskir málaliðar voru í þjónustu páfaríkisins síðla á 14. öld og 15. öld.  Árið 1505 stakk svissneski biskupinn (síðar kardínáli) Mattheus Shiner með umboði páfa upp á varanlegri, 200 manna herdeild Svisslendinga, sem starfaði undir stjórn páfa.  Hinn 21. janúar 1506 kom fyrsta herdeild svissneskra lífvarðarins til Vatíkansins.  Hún ávann sér snemma orð fyrir fórnarlund og hetjuskap; 157 liðsmenn hennar féllu í árásinni á Róm 1527.  Árið 1914 var herdeildin endurskipulögð undir stjórn ofursta, 5 liðsforingja og 15 sveitarforingja.  Prestur annaðist herdeildina, sem taldi 110 hermenn.  Árin 1959, 1976 og 1979 voru gerðar breytingar á skipulagi lífvarðarins.  Fjöldi þeirra var ákveðinn 100 (ofursti, 3 liðsforingjar, prestur, 23 sveitarforingjar, 2 bumbuslagarar og 70 hermenn).

Árið 1981 var lífvörðurinn í viðbragðsstöðu, þegar gerð var tilraun til að ráða Jón Pál II, páfa, af dögum á torgi Péturskirkjunnar.  Árið 1998 var gerð sjálfsmorðsárás á herbúðirnar.  Þá féllu ofurstinn, eiginkona hans og varðmaður.  Þá voru liðin næstum 150 ár síðan morð höfðu verið framin í Vatíkanríkinu.

Stundum er talað um lífvörðinn sem lögreglu Vatíkanríkisins, en sérstök, ítölsk lögreglusveit annast yfirstjórn öryggismála.  Starfssvið hennar nær ekki til Péturstorgsins, sem hin almenna lögregla í Róm annast.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM