Úrúgvæ sagan,
Flag of Uruguay


URUGVÆ
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Fyrir daga Evrópumanna var landsvæði Úrúgvæ byggt 5000-10.000 indíánum (charrúa og chaná).  Indíánaættbálkarnir, sem voru hálfgerðir hirðingjar, höfðu ekki þróað tækni til búskapar og ræktunar á gresjum landsins.  Þeir fluttust til Strandar á sumrin til að veiða fisk og safna skelfiski, ávöxtum og rótum.  Á veturna voru þeir inni í landi við veiðar (dádýr, strútar o.fl. teg.) með bola-slöngvum, boga og örvum.  Hópar 8-12 fjölskyldna með höfðingja bjuggu í smáþorpum með 5-6 stráhúsum.  Hinir grimmu charrúa-indíánar réðust á óvini sína til að færa út veiðilendur sínar og fanga konur og börn.

Nýlendutíminn
.  Spænski landkönnuðurinn Juan Diaz de Solis kannaði landið 1516.  Það var lítt eftirsóknarvert vegna skorts á hráefnum og vinnuafli, því að Indíánarnir höfðu ekki fasta búsetu.  Nautgripum frá nærliggjandi svæðum var komið þar fyrir og þeim fjölgaði í margar miljónir á nokkrum árum.  Þá komu kúrekarnir (gauchos; kynbl. hvítra og indíána) til skjalanna, án fastrar búsetu, og veiddu dýr aðallega vegna húðanna.  Árið 1680 stofnuðu Portúgalar í Brasilíu til byggðar gegnt Buenos Aires við árósa Río de la Plata, sem þeir kölluðu Colonia do Sacramento, til að stunda smyglverzlun við spænsku landnemana og flytja silfur ólöglega frá Perú.  Spænsk yfirvöld snérust gegn þessari starfsemi með því að byggja virkisbæinn San Felipe de Montevideo 1726 til árása á Colonia do Sacramento, sem gafst loks upp fyrir Spánverjum 1777.  Montevideo varð aðalhafnarborg Spánverja við Suður-Atlantshafið og hafizt var handa við að skipta landinu milli stórra búgarða.  Árið 1776 varð það hluti af yfirráðasvæði varakonungsins á la Plata-svæðinu með Buenos Aires sem höfuðborg.

Þjóðerniskrísan 1810-80.  Þegar sjálfstæðishreyfingar vöknuðu í Buenos Aires 1810, var Montevideo meginmiðstöð konungssinna.  Inni í landi stýrði José Gervasio Artigas, foringi Blandengues sjálfboðahersins, baráttunni gegn Spánverjum.  Hann naut stuðnings íbúa dreifbýlisins, andkonungssinna, stjórnar Montevideo og hers frá Buenos Aires.  Artigas lagði fyrst dreifbýlissvæði landsins undir sig og síðan Montevideo.  Hann stefndi að stofnun laustengds sambandsríkis héraðanna í la Plata og styrkri stöðu Montevideo í samkeppninni við Buenos Aires.  Völd Artigas uxu og hann gerðist jafnréttissinnaðri, þannig að þessar áætlanir urðu ógnvekjandi í augum Buenos Aires-búa. Þeir létu því afskiptalaus afskipti Portúgala, sem lögðu landið undir sig 1820 og ráku Artigas í útlegð.

Íbúarnir börðust á móti yfirráðum Brasilíumanna.  Argentínumönnum stóð heldur ekki á sama og stjórn þeirra studdi Juan Antonio Lavalleja, einn hinna útlægu liðsforingja Artigas, og 33 hermenn hans, þegar þeir fóru yfir ána til að frelsa föðurlandið 1825.  Það gekk hvorki né rak í styrjöldinni, sem fylgdi.  Bretar komu á sáttum 1827 og næsta ár var undirritaður samningur, sem gerði landið (Repúbica oriental del Uruguay) að sérstöku ríki milli Brasilíu og Argentínu.

Hinn 18. júli 1830, þegar stjórnarskrá landins var samþykkt, var Íbúafjöldinn u.þ.b. 74.000.  Tuttugu ára styrjöld og skortur hafði minnkað nautgripahjarðirnar og margir búgarðar og framtíðarvonir fjölda fjöskyldna urðu að engu.  Bæði Argentína og Brasilía girntust Úrúgvæ.  Fyrstu ár þessa nýja lýðveldis voru hrapalleg.  Fylgismenn fyrsta og annars forseta landsins, José Fructuoso Rivera og Manuel Oribe, börðust.  Fylgjendur Oribe, sem klæddust hvítu, urðu Blanco-flokkurinn og réðu lögum og lofum í dreifbýlinu.  Frá 1843-51 sátu þeir með aðstoð argentíska einræðisherrans Juan Manuel de Rosas um Rivera og fylgismenn hans, sem klæddust rauðu,  Hinir rauðklæddu urðu að Colorado-flokknum með höfuðstöðvar í Montevideo.  Frakkar og Englendingar stóðu fyrst í stað að baki Colorado-flokknum og síðar Brasilía.  Þegar þessum átökum lauk 1851 án þess að hrein úrslit fengjust, var dreifbýlið í sárum, ríkið gjaldþrota og landsmenn stóðu frammi fyrir því að glata sjálfstæði sínu.  Menntamenn vildu afnema stjórnmálaflokkana, sem höfðu dregið landið niður í skítinn, en stríðsástandið hafði haft varanleg áhrif á almenning og skipt honum í tvær fylkingar, Colorados eða Blancos.  Pólitískar væringar, borgarastyrjaldir og afskipti Brasilíu- og Argentínumanna komu í veg fyrir að landsmenn nýttu sér tækifæri til aukinnar útflutningsverzlunar í kjölfar iðnvæðingarinnar í Evrópu.  Herinn tók völdin á áttunda áratugi 19. aldar.

Nútímavæðing landsins 1880-1930.  Grimmd hersins og ágreiningur almennings drógu mjög úr stuðningi við herstjórnina, þannig að Coloradoflokkurinn komst aftur til valda árið 1890.  Engu að síður stuðlaði átak hersins til að koma á friði um stundar sakir í dreifbýlinu á níunda áratugnum að hröðun efnahagsumbóta.   Þær fólust aðallega í því að girða lendur búgarða, sameiginlegri beit sauðfjár og nautgripa og kynbótum.  Útflutningur ullar og þurrkaðs nautakjöts flýtti fyrir lagningu járnbrauta og jók fjárfestingar Breta.  Montevideo nútímavæddist og innflytjendum fjölgaði.  Um aldamótin 1900 hafði íbúafjöldin þrettánfaldast frá því að landið varð sjálfstætt (1830).  Þótt Íbúafjöldinn væri kominn í u.þ.b. eina miljón, vantaði mikið á að straumur innflytjenda jafnaðist á við Argentínu.  Stöðugar væringar milli Colorado- og Blancosfylkinganna hamlaði mjög nútímavæðingunni.

Kröfur Blancoflokksins um meiri áhrif í stjórn landsins kveiktu elda byltingarinnar 1897 undir forystu Aparicio Saravia.  Henni lauk með morði Juan Idiarte Borda, forseta Coloradoflokksins, sem var ekki að undirlagi Blancomanna.  Spennan innanlands jókst og sterkur leiðtogi Coloradomanna, José Batlle y Ordónez, var kosinn forseti 1903.  Árið eftir gerðu Blancomenn byltingu, sem stóð í átta mánuði og kostaði gífurlegar fórnir áður en Saravia var drepinn.  Árið 1905 voru fyrstu almennu kosningarnar haldnar í landinu í þrjátíu ár án verulegra kosningasvika og Coloradomenn voru sigurvegarar.

Batlle, hetja Coloradomanna, nýtti sér efnahagsframfarirnar, sem friðurinn hafði í för með sér.  Hann stefndi að ríkisafskiptum af landbúnaðarframleiðslunni, samdrætti í innflutningi, öflun erlends fjármagns og bættum lífskilyrðum verkamanna.  Samfara þessu var stuðlað að bættri menntun og minni ághrifum katólsku kirkjunnar.  Lög um hjónaskilnaði voru samþykkt, dauðarefsing var afnumin og réttarstaða lausaleiksbarna var bætt.

Batlle sat í tvö kjörtímabil (1903-07 og 1911-15).  Hann áttaði sig á því, að fyrirætlanir hans þurftu mun lengri tíma og óttaðist að framtíðarforsetar landsins fylgdu ekki fordæmi hans.  Hann gerði því breytingar á stjórnarskránni, sem afnámu embætti forsetans og fólu margskipuðu ríkisráði, colegiado, framkvæmdavaldið.  Þessar aðgerðir klufu Coloradoflokkinn og endurvöktu andstöðu Blancomanna.  Í fyrstu leynilegu kosningunum 1916 var þetta frumvarp fellt.  Áhrif Batlle voru samt næg til að bjarga hluta hugmyndarinnar um ríkisráðið og komizt var að málamiðlun um skiptingu framkvæmdavaldsins milli forsetans og ríkisráðs árið 1919.  Niðurstaðan 1916 sýndi glögglega, að landsmenn gátu ekki sætt sig við umbótaáætlanir Battle.  Útkoman var ríkisstjórn, sem var íhaldsamari á öðrum sviðum en félagslegum umbótum.  Stuðlað var að bættum lífskilyrðum með stuðningi við staðnaða nautgriparæktina, sem þreifst vegna hás heimsmarkaðsverðs fyrir 1930.

Efnahagshrörnun og herstjórnir 1930-73.  Að Batlle y Ordónez látnum 1929 tókst Gabriel Terra (Colorado) að komast í forsetastól.  Þegar heimskreppan skall meðfullum þunga á Úrúgvæ, kenndi efnahagsstefnunni um.  Blancoleiðtoginn Luis Alberto de Herrera studdi Gabriel Terra í hallarbyltingu 31. marz 1933 og ríkisráðið var lagt niður og full völd forsetans voru tryggð á ný.  Eftirmaður hans í embætti 1938-42 var Alfredo Baldomir hershöfðingi, mágur Terra.  Þeir beittu báðir íhaldssömum aðgerðum gegn kreppunni.  Ríkið hafði afskipti af verkalýðsfélögum, frestaði félagslegum umbótum og hélt dauðahaldi í brezka markaði fyrir kjötafurðir í stað þess að þjóðnýta brezk fyrirtæki í landinu.  Í orði rak stjórnin frjálsan markaðsbúskap en á borði urðu afskiptin á efnahagssviðinu meiri.  Gjaldeyrisviðskipti urðu flókin, vatnsorkuver var byggt og reynt var að draga úr atvinnuleysi og halda stuðingi fólksins með því að ráða ríkisstarfsmenn eftir flokkslínum.  Fjöldi fólks flosnaði upp í dreifbýlinu og fluttist til Montevideo.  Gjaldeyrisskortur vegna minnkandi útflutnings dró máttinn úr framleiðslugreinunum og áherzla var lögð á iðnvæðingu Montevideo.  Mikið dró úr fæðingatíðni í landinu á þessum tíma.

Í síðari heimsstyrjöldinni jókst útflutningur kjöts, ullar og húða til Evrópulanda og skammvinnt velsældarskeið rann upp.  Lýðræðisflokkar landsins styrktust einnig á þessum tíma og þeir beindu kröftum sínum að réttlátri skiptingu lands milli íbúanna.  Tomás Berreta úr Coloradoflokki Batlle, sem hann stofnaði 1919, var kosin forseti í kosningunum 1946.  Hann dó skyndilega og Luis Batlle Berres varaforseti, frændi Battle, varð forseti.  Í Kóreustríðinu hækkaði verð ullar í BNA og Berres tókst að kaupa járnbrautirnar af Bretum auk annarra þjónustufyrirtækja, vígja nýjar ríkisstofnanir, auka iðnvæðingu, niðurgreiða landbúnaðarafurðir og lækka verð matvæla.  Honum tókst einnig að útrýma atvinnuleysi um tíma.  Árið 1951 var stjórnarskránni breytt.  Forsetaembættið var lagt niður og við tók níu manna framkvæmdaráð í samræmi við stefnu Batllista.  Á þessu blómaskeiði lýðræðis voru þjóðartekjur í Úrúgvæ hæstar á mann í Latnesku-Ameríku.

Um miðjan sjötta áratuginn lækkaði ullarverðið við lok Kóreustríðsins og augljóst var, að sauðfjárræktin gæti ekki lengur staðið undir þessum lífskilyrðum.  Stjórnmálamenn reyndu af öllum mætti að verða við kröfum kjósenda með því að halda neyzlunni uppi með því að tæma gjaldeyrssjóði landsins, síðan með erlendum lánum og gengisfellingu pesósins.  Efnahagnum hrakaði, verðbólgan var rúmlega 60%, félagsleg þjónusta hrundi, iðnfyrirtæki fóru á Hausinn og fjöldi manns flutti úr landi.

Blancoflokkurinn komst til valda 1958 í fyrsta sinn síðan 1865 en tókst ekki að laga ástandið, þótt hann sæti í tvö kjörtímabil.  Árið 1966 var gerð breyting á stjórnarskránni og embætti forseta tekið upp á ný.  Kosningarnar á þessu ári færðu Coloradoflokknum aftur völdin en verðbólgan og framleiðslulægðin héldu landinu í heljargreipum.  Spennan í þjóðfélaginu jókst við blóðug átök lögreglu, stúdenta og verkalýðsfélaga og hryðjuverk borgarskæruliðar Tupamaros, sem börðust fyrir sósíalisma, juku enn á óreiðuna.  Þegar lögreglunni tókst ekki að halda Tupamaros í skefjum, var hernum beitt gegn þeim.  Tupamarosskæruliðarnir voru sigraðir og herinn tók völd 1973.

Herstjórnin 1973-85.  Herinn brást við með grimmd og nákvæmni, sem var nýnæmi fyrir landsmenn.  Á þessu tímabili voru pólistískir fangar fleiri í Úrúgvæ en annars staðar í heiminum.  Mannréttindasamtök mótmæltu fjölda ofbeldisverka, pyntingum, drápum og mannshvörfum.  Fangelsi, ritskoðun, afnámi borgaralegra réttinda og upplausn verkalýðsfélaga var beitt til að ná stjórn á almenningi og neyða hann til að fallast á nýja efnahagsstefnu.  Erlendar fjármálastofnanir voru laðaðar til viðskipta með háum vaxtaboðum, iðnjöfrar og stórbændur voru hvattir til að taka lán til nútímavæðingar, launum var haldið niðri og verkföll voru bönnuð.  Ríkisstjórnin lét byggja vegi og veitur.  Launin lækkuðu stöðugt og mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota vegna innflutningssamkeppni en engu að síður varð talsverður árangur í útflutningsgeiranum, byggingariðnaði og endurreistn Montevideo sem fjármálamiðstöðvar landsins.  Árið 1980 ákvað herinn að efna til kosninga um breytingar á stjórnarskránni, sem tryggðu honum völdin í landinu til frambúðar.  Þrátt fyrir að fjölmiðlar væru undir stjórn hersins og andstöðuöflum væri haldið í skefjum, felldu kjósendur nýju stjórnarskrána.

Þessar kosningar kipptu undirstöðunum undan lögmæti herstjórnarinnar og efnahagsstefna hennar beið skipbrot 1982, þegar dregið var verulega úr lánum til latnesk-amerískra ríkja vegna stríðsins um Falklandseyjar og hruns efnahagslífsins í Argentínu, sem var nátengt Úrúgvæ.  Stjórnin átti engra annarra kosta völ en að láta gengið falla.  Skuldir ríkisins, fyrirtækja og stórbýla hækkuðu gífurlega.  Á þessu stigi varð herinn að snúa sér til stjórnmálamanna og semja um almennar kosningar árið 1984.

Borgaraleg stjórn.  Julio María Sanguinetti, frambjóðandi Colorado-Batllista, var kosinn forseti 1984.  Honum tókst að koma á fullu lýðræði og endurreisti mannréttindi.  Hann veitti öllum yfirmönnum í hernum uppgjöf saka til að ná markmiðum sínum, þótt almenningur krefðist réttarhalda yfir þeim.  Forsetinn glataði trausti almennings og verkamenn efndu til verkfalls til að ná aftur fyrri kaupmætti launa.  Erlendar skuldir landsins námu í kringum 5 miljöðrum US$ og Íbúafjöldinn var um 3 miljónir.  Sanguinetti vildi ekki hefja neinar aðgerðir í efnahagsmálum, sem fælu í sér mikla áhættu.  Lögin um sakaruppgjöf stóðu af sér þjóðaratkvæðagreiðslu 1989 en Coloradoflokkurinn missti stjórnartaumana til Blancoflokksins í nóvember sama ár.  Þá var luis Alberto Lacalle kosinn forseti.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM