Montevideo
er höfuðborg Úrúgvæ og samnefnds héraðs.
Hún er við norðanverða árósa Río de la Plata.
Bruno Mauricio de Zabala, landstjóri í Buenos Aires, stofnaði
borgina árið 1726 til að draga úr aðstreymi Portúgala til þessa
landshluta frá Brasilíu.
Á fyrstu árunum var þarna spænsk setuliðsborg.
Í lok nýlendutímans fóru viðskipti að aukast og
kaupmennirnir áttu mikinn þátt í því, að landið fékk sjálfstæði.
Á árunum 1807-30 var borgin á víxl undir yfirráðum Breta,
Spánverja, Argentínu og Brasilíu.
Það dró úr viðskiptum og íbúum fækkaði.
Sjálfstæði fékkst 1830 án þess að stöðugleiki væri
tryggður.
Úrúgvæ var leikvangur innlendra, argentínskra og brasilískra
áhrifa, sem náðu hámarki í umsátri sameinaðra herja Argentínu og
Úrúgvæ á árunum 1843-51.
Varnarlið borgarinnar naut aðstoðar Frakka og Englendinga, sem
héldu uppi hafnbanni á Buenos Aires.
Afleiðingin var sú, að Montevideo blómstraði á þessum tíma
og varð að mikilvægri hafnarborg
við Río de la Plata.
Um
höfnina fer mestur hluti út- og innflutnings landsins.
Mest er flutt út af ull, kjöti og húðum.
Ullin er unnin í verksmiðjum í borginni og kjötvinnslur sjá
um frystingu og undirbúning kjötafurðanna.
Verksmiðjur, sem framleiða vefnaðarvörur, skó, sápu, eldspýtur
og fatnað eru um alla borgina.
Einnig er framleitt vín og mjólkurvörur.
Meðal stærstu fyrirtækja landsins eru Ancap (Administración
Nacional de Combustibles, Alcohol y Portland) olíuhreinsunarstöðvarnar
og sementsverksmiðjurnar, járnbrautaverkstæði og orkuveitur.
Höfnin
er mesti athafnastaður borgarinnar.
Flugsamgöngur eru tryggðar um flugvöllinn í Carrasco, fjórar
járnbrautalínur skerast í borginni og vegir liggja til annarra aðalborga.
Æðri
menntunar er aðeins hægt að afla sér í höfuðborginni.
Lýðveldisháskólinn var stofnaður 1849.
Verklegi háskólinn (1878) annast verklegu hlið námsins og
starfar eins og námsflokkar.
Leikhúslíf
hefur verið fjörugt í borginni síðan Casa de Comedias var opnað
1795. Síðan
komu Teatro San Felipe og Teatro Solis (enn við lýði; 1856).
Náttúrusögusafnið (1900), Náttúruþjóðminjasafnið
(1837), Þjóðlistasafnið (1911) og Þjóðarbókhlaðan (1816) eru meðal
áhugaverðra staða borgarinnar.
Knattspyrnuvöllurinn er í Batlle y Ordónez-garðinum og víða
í öðrum görðum er afþreyingu að finna.
Þá er hægt að velja úr röð baðstranda alla leið að
Punta del Este við Atlantshaf.
Áætlaður íbúafjöldi 1980 var tæplega 1,3 miljónir. |