Úrúgvæ íbúarnir,
Flag of Uruguay


ÚRÚGVÆ
 ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Þegar Úrúgvæ fékk sjálfstæði árið 1828, var landið að mestu nýtt til beitar fyrir hjarðir nautgripa og sauðfjár.  Þá voru fá byggð ból utan Montevideo og Colonia del Sacramento og þorpanna meðfram Úrúgvæánni.  Beitarlöndin austan árinnar voru álitin einskismannsland milli portúgölsku Brasilíumannanna og spænsku Argentínumannanna.  Nokkur hópur innflytjenda kom til landsins frá ítalíu og Spáni.  Á þessum tíma var háð borgarastríð í Argentínu og innflytjendum fannst ekki góður kostur að setjast að á sléttunum (pampas) þar.  Þeir komu til Montevideo og settust að í suðurhluta landsins meðfram ánum Río de la Plata og Úrúgvæ. 

Eftir 1850 fluttust flestir evrópsku innflytjendanna á þessum svæðum til Argentínu og ollu stöðnun í landbúnaðnum í Úrúgvæ.  Kornrækt og kvikfjárrækt döfnuðu í norðurhluta landsins.  Eftir miðjan fjórða áratug 20. aldar fjölgaði fólki nægilega í suðurhltuanum til að færa búskapinn til nútímahorfs.  Nú orðið eru beitilönd afgirt og aðskilin með gaddavírsgirðingum og þjóðvegir eru afgirtir.  Nýjum grastegundum hefur verið sáð í beitilöndin og risastórir búgarðar eru algengir.  Miklu meira er um sauðfé í norðvesturhlutanum en nautgriparækt er aðalbúgreinin sunnan Negroárinnar.

Montevideo er langstærsta borg landsins og borgirnar Salto, Paysandú, Las Piedras og Rivera eru miklu minni.

Úrúgvæjar eru að langmestu leyti afkomendur evrópskra innflytjenda, aðallega Spánverja og Ítala á 19. og 20. öld.  Allmargir eru afkomendur Frakka og Breta.  Landnemar, sem komu á undan þeim, komu frá Argentínu og Paragvæ.  Mjög fáir afkomendur innfæddra indíána eru eftir í landinu.  Flestir negrar, sem búa í landinu, eru afkomendur innflytjenda frá Brasilíu.

Þjóðin er frábrugðin flestum öðrum þjóðum Latnesku-Ameríku hvað trúarbrögð snertir, því að rómversk-katólk trú er ekki yfirgnæfandi.  Samkvæmt manntali eru 60% landsmanna þeirrar trúar en mun færri iðka trúna eins og trúbræður og systur í öðrum nágrannalöndum.  Meþódistakirkjur í bæjum landsins bera vott um átak mótmælenda í trúboði á þriðja áratugi 20. aldar.  Víða starfa söfnuðir biskupakirkjunnar og annarra mótmælenda en gyðingar eru tiltölulega fáir og helzt í Montevideo.  Trúboðar mormóna hafa verið athafnasamir í landinu.

Þar sem fátt er um indíána í landinu er spænskan sameiginleg tunga landsmanna.  Við landamæri Brasilíu er spænskan talsvert skotin portúgölsku og þar eru íbúarnir yfirleytt tvítyngdir.

Landinu er skipt í 19 héruð og Montevideo er hið fjölmennasta.  Höfuðborgin hefur næstum fyllt út í öll horn þess.  Næstfjölmennast er Canelones-hérað og hin eru miklu fámennari.  Rúmlega 80% íbúa landsins búa í þéttbýli.  Síðla á 8. áratugnum var Íbúafjöldinn áætlaður rúmlega 3 miljónir.  Íbúum hefur fjölgar mun hægar en víðast annars staðar í löndum Latnesku-Ameríku.  Fæðingatíðnin í landinu og fjöldi ungs fólks er minni en í öðrum Suður-Ameríkulöndum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM