Úrúgvæ efnahagslífið,
Flag of Uruguay


ÚRÚGVÆ
 EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Grundvöllur efnahags landsins var lagður 1603, þegar landstjóri Paragvæ, Hernando Arias de Saavedra, lét flytja fjölda nautgripa og hesta niður eftir ánni frá Asunción.  Gripunum var skipað á land Úrúgvæmegin, þar sem þeir lifðu eins og villt dýr.  Síðar á öldinni voru hjarðirnar orðnar svo stórar, að veiðimenn frá Buenos Aires fóru að eltast við þær og selja húðir.  Æ fleiri kúrekar tóku þátt í þessu ævintýri og brátt varð ljóst, að festa þurfti landamærin í sessi til að búa í haginn fyrir stofnun hinna stóru búgarða á svæðinu.

Verg þjóðarframleiðsla á mann er einhver hin hæsta í Latnesku-Ameríku og fremur góð lífskilyrði eru háð tekjum af landbúnaði og útflutningi afurða hans.  Þessi grundvöllur er mjög valtur, því hann byggist á sveiflukenndri eftirspurn og verðlagi á heimsmarkaði.  Ríkisstjórnir landsins hafa því hvatt til þróunar iðnaðar og verndað hann með tollum, innflutningsleyfum, ívilnunum við innflutning vélbúnaðar og mismunandi gengi erlendra gjaldmiðla.  Flytja verður inn mestan hluta eldsneytis, hráefna, farartækja og vélbúnaðar til iðnaðar.

Miðstéttin í þéttbýlinu er ríkjandi, þrátt fyrir mikilvægi landbúnaðarframleiðslunnar.  Félagsleg þjónusta er víðtækari en í öðrum Suður-Ameríkulöndum, en hún er dýrkeypt.

Hvergi í landinu eru nægilegar birgðir í jörðu af olíu, náttúrugasi, kolum eða járni.  Þetta stendur í vegi fyrir grózku og þróun iðnaðarins.  Landslagið býður ekki upp á hagkvæmustu möguleika til nýtingar vatnsorku og flest orkuverin byggðust á innfluttum kolum og olíu.  Á þessu var mikil breyting, þegar orkuverin við árnar Negro og Úrúgvæ voru tekin í notkun snemma á níunda áratugnum.

Landbúnaður.
Nautgripa- og sauðfjárrækt eru mikilvægustu atvinnugreinar landsins.  Afurðir þessara dýra nema 40% af útflutningstekjum landsmanna.  Nautakjöt og ull eru verðmætustu afurðirnar.  Allt tiltækt land er notað til framleiðslunnar og eina leiðin til að auka hana er með bættri tækni.  Vegna þessarar þróunar hefur lítill hluti landsins verið nýttur til ræktunar korns.  Framfarir og aukning á sviði ræktunar hafa verið litlar nema hvað æ meira er ræktað af hrísgrjónum.  Aðrar aðalræktunartegundir eru sykurreyr, hveiti, sykurrófur, fóðurgras (sorghum), kartöflur, vínber og maís.

Iðnaður
.
Ríkið rekur fjölda fyrirtækja.  Það á orkuveitur og olíuhreinsunarstöðvar, alkóhóll- og sementsverksmiðjur, stjórnar stærstu kjötvinnslunum og fiskiðjuverum, járnbrautunum, nokkrum bönkum og flestum tryggingafyrirtækjum.   Matvælavinnsla og önnur vinnsla landbúnaðarafurða er frumatvinnugrein.  Hinn niðurgreiddi ullariðnaður landsins hefur aukið útflutningstekjur.  Neyzluvörur, sem eru framleiddar í landinu, eru m.a. vefnaðarvörur, dekk og aðrar gúmmívörur, skór og heimilistæki.

Fjármál og viðskipti.
Seðlabanki landsins var stofnaður 1967.  Hann hefur yfirumsjón með ríkis- og einkabönkunum.  Greiðslujöfnuður landsins hefur að mestu verið með halla allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.  Aðalinnflutningsvörur landsmanna eru hráolía, vélabúnaður og tæki, efnavörur, plastikvörur, harpís, gúmmí og flutningatæki.  Helztu viðskiptalöndin eru BNA, Argentína, Nígería og Þýzkaland.

Samgöngur
.
Landslag landsins stendur lítt í vegi góðra samgangna, þannig að talsvert víðtækt net vega og járnbrauta hefur verið byggt með Montevideo sem þungamiðju.   Malbikaðir vegir tengja höfuðborgina við aðrar borgir og bæi.  Aðalþjóðvegurinn liggur til landamæranna og annarra nágrannaborga.  Fjöldi malarvega liggja um allar byggðir landsins.  Mestur hluti flutninga fer fram á vegakerfinu og dregið hefur úr nýtingingu járnbrauta.  Járnbrautakerfið var keypt af Bretum eftir síðari heimsstyrjöldina.  Það tengir Montevideo við járnbrautakerfi Argentínu og Brasilíu.

Erlend skipafélög annast mestan hluta út- og innflutnings landsins vegna smæðar eigin flota kaupskipa.  Skip og bátar af ýmsum stærðum sigla um vatnakerfi landsins og skíðabátar eru notaðir milli Montevideo og Buenos Aires yfir árósa Río de la Plata.  Millilandaflugvöllurinn er í grennd við Carrasco sumardvalarstaðinn, tæplega 22 km frá miðborg Montevideo.  Ríkisflugfélagið PLUNA (Primeras Líneas Uruguayas de Navegación Aérea) tengir Montevideo við héraðshöfuðborgirnar og nágrannalöndin.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM