Landsvæði Ungverjalands var hluti rómönsku héraðanna Dasíu og Pannóníu á
jaðarsvæði Rómarveldis. Þessu héruð voru meðal henna fyrstu, sem
germanar lögðu undir sig í lok 2. aldar e.Kr. Síðar komu húnar og ráku
þá brott. Eftir dauða Atla húnakonungs, náðu germanar svæðinu aftur
undir sig en urðu að víkja aftur á 5. öld, þegar avarar, sem voru af
asískum uppruna, ruddust suður. Þegar fór að draga úr veldi þeirra á 8.
öld náðu móravía (slavar) norður- og austurhlutum svæðisins undir sig og
á árunum 791-97 lagði Karl mikli allt svæðið undir ríki sitt.
Öld
síðar (895-96) lögðu magyarar (finnsk-úrgískir) Pannóníu undir sig.
Leiðtogi þeirra, hinn þjóðsagnakenndi Árpád, leiddi þá til sigurs yfir
Móravíu, í ránsferð um Appennínaskagann og í árásum á Þýzkaland. Veldi
magyara náði yfir hálfa Evrópu í hálfa öld eftir dauða Árpáds árið 907
og árið 955 lögðu þeir Búrgúnd í rústir. Síðar sama ár biðu þeir ósigur
fyrir herjum Ottó I, keisara Hins heilaga rómverska ríkis, við ána Lech.
Þá tóku magyarar upp vinsamlegra samneyti við þetta volduga og
kristninnar og vestrænna áhrifa fór að gæta í Ungverjalandi. Géza
hertogi lét skírast árið 975. Sonur hans, Stefán I, ættfaðir Árpádanna,
fékk formlega viðurkenningu sem konungur Ungverjalands, þegar Sylvester
II, páfi, titlaði hann „postullega hatign”. Þessum titli héldu konungar
landsins í rúmlega níu aldir.
Árpádkonungar.
Í tíð Stefáns I, sem var tekinn í dýrlingatölu 1083, hófst nýtt skeið í
landinu. Kristnin varð opinber trúarbrögð, heiðnin var kveðin niður,
konungsvaldinu var miðstýrt og landinu var skipt í stjórnsýslusvæði.
Íbúar af öðrum kynþáttum voru meðhöndlaðir sem undirsátar.
Þeim
var þrælkað út og látnir greiða háa skatta öldum saman. Að Stefáni I
gengnum gerðu heiðnir uppreisnir og arftaki hans varð einnig að berjast
við germanska innrásarheri. Ladislas I, sem var rómaður fyrir vizkulega
lagasetningu, gerðist bandamaður Gregorys VII, páfa og styrkti þannig
veldi sitt. Ladislas lagði undir sig
Króatíu,
Bosníu og hluta af Transylvaníu og eftirmaður hans, Koloman, náði hluta
af Dalmatíu.
Konungsveldinu hnignaði á 12. öld, einkum vegna innanríkisdeilna, sem
Manuel I Comnenus, keisari Býzantíums, kom af stað. Hann skipti löndum
milli hliðhollra aðalsmanna til að komast yfir ungversku krúnuna og varð
þannig upphafsmaður að veldi aðalsins í Evrópu á síðmiðöldum. Að Manuel
I látnum 1180 hurfu áhrif Býsans en barónarnir (aðalsmenn) héldu
forréttindum sínum. Andrés II, konungur, reyndi að endurreisa
miðstýringuna. Árið 1222 gaf hann út grundvallarlög, sem fólu í sér
ýmsar ívilnanir, s.s. skattleysi aðalsmanna. Þótt þessi lög nytu
allmikils fylgis valdalítilla aðalsmanna, tókst ekki að draga úr völdum
stóru landeigendanna. Á valdatíma eftirmanns Andrésar, Béla IV, ruddust
mongólar yfir landið. Flestir þeirra hurfu á braut árið 1241 en veik
stjórn og enn frekari ívilnanir drógu úr mætti konungsveldisins.
Upphaf erlendra áhrifa. Að Andrési III látnum árið 1301, rofnaði
valdaskeið Árpádkonunganna. Karl Róbert af Anjou tryggði sér kosningu
sem Karl I af Ungverjalandi og tryggði þannig aðkomu Angevinættarinnar
að krúnunni. Á valdatíma hans, sem lauk 1342, kom hann á reglu, dró úr
veldi aðalsins og treysti innviði ríkisins. Hann vann einnig nokkuð
land, þ.á.m. Bosníu og hluta af Serbíu. Með hjónabandi hans og
Elísabetar , systur Kasimírs III, Póllandskonungs, tryggði hann syni
sínum Lúðvík pólska konungsdæmið. Hann var konungur Pólverja til 1382.
Vegna þess að hann varð konungur Pólverja og landvinningastríðs
við Feneyinga, varð Ungverjaland stærsta ríki Evrópu. Lúðvík gerði
ýmsar umbætur á stjórnsýslunni, dró enn úr veldi aðalsins og efldi
verzlun, vísindi og iðnað. Síðustu valdaárin varð hann að láta vaxandi
veldi Ottómana eftir syðstu hluta ríkisins. Sigismund, sem var krýndur
1387, skipulagði herför gegn Tyrkjum en beið afgerandi ósigur 1396.
Fleiri ófarir komu í kjölfarið, s.s. ósigur gegn Feneyingum og
kostnaðarsama baráttu gegn siðbótamönnum (hússítum), sem hann fylgdi
fast eftir sem heilagur rómverskur keisari eftir 1411.
Á
tveggja ára valdatíma tengdasonar Sigismunds, Alberts II af Habsburg,
héldu Tyrkir áfram árásum sínum. Eftir dauða Alberts 1439 upphófst
mikil samkeppni um krúnuna. János Hunyadi tókst að halda Tyrkjum í
skefjum og hindra yfirtöku þeirra. Hann varð að þjóðhetju og vann
frækilegan sigur, þegar hann rauf umsát Tyrkja í Belgrad 1456.
Matthías Korvínus, sonur Hunyadis, var valinn konungur árið 1458 þrátt
fyrir mikla andstöðu fylgjenda Friðriks III, hins heilaga rómverska
keisara. Nýi konungurinn, sem var hæfasti og upplýstasti þjóðhöfðingi
Evrópu á þessum tíma, kom á mörgum umbótum í stjórnkerfinu, stofnaði
fastaher og efldi verzlun og menningu. Hann var afbragðsherforingi og
náði Austurríki úr höndum Habsborgara árið 1480 og flutti hirð sína til
Vínar. Landvinningarnir, sem náðu einnig til Móravíu, Silísíu og
Lúsatíu, gerðu Ungverjaland að öflugasta konungsríki Mið-Evrópu.
Að
honum látnum (1490) tóku aðalsmenn völdin og þá upphófust átök milli
stétta landsins og bændauppreisn.
Skipting Ungverjalands. Stjórnmálaleg óreiða jókst fyrstu tvo áratugi 16. aldar, þannig að
landsmenn gátu ekki varizt fjendum sínum. Árið 1521 náði tyrkneski
herinn undir stjórn Suleimans I, soldáns, Belgrad og Sabac, sem voru
aðalútverðir konungsríkisins í suðri. Árið 1526 gjörsigraði Suleiman
ungverska herinn í orrustunni við Mohács, þar sem Lúðvík II, konungur og
20.000 manna hans féllu. Búda fell 10. sept. 1526 og Suleiman dró her
sinn frá Ungverjalandi.
Næstu
150 árin eftir ósigurinn við Mohács voru stöðugar væringar í landinu,
aðallega milli Habsborgarkeisaranna, sem lögðu vesturhluta Ungverjalands
undir sig, Tyrkja, sem náðu tökum á miðhlutanum og ungverskra aðalsmanna,
einkum í Transylvaníu. Í þessari valdabaráttu varð Transylvanía miðstöð
magyara gegn Tyrkjum og Austurríkismönnum. Magyarar sögðu skilið við
katólsku kirkjuna á siðbótartímanum og skapað sér fjandskap Habsborgara
af þeim sökum. Eftir miðja 16. öldina, þegar gagnsiðbótin var hafin,
urðu deilurnar við Habsborgara að blóðugum átökum. Að loknu Langa
stríðinu (1593-1606) neyddist Rúdolf II, keisari, til að veita magyörum
í Transylvaníu pólitískt og trúarlegt sjálfstæði, aukið landrými fleiri
tilslakanir.
Transylvaníumenn voru andstæðingar Habsborgara í Þjátíuárastríðinu
(1618-48). Fyrstur í fararbroddi þeirra var Gabríel Bethlen, prins af
Transylvaníu og konungur Ungverjalands. Georg I Rákóczy, eftirmaður
hans frá 1631, hélt áfram baráttunni gegn yfirráðum Habsborgara í
Vestur-Ungverjalandi. Hann gerði innrás í Austurríki með aðild Svía og
Frakka árið 1644. Ferdinand III, keisari, neyddist til að láta undan
mörgum kröfum Rákóczys, þ.á.m. um fullt trúfrelsi fyrir alla Ungverja
innan landamæra Habsborgara. Næsta áratuginn tók Georg II Rákóczy við
völdum, Tyrkir náðu yfirráðum yfir Transylvaníu og gerðu hana smám saman
að héraði í ríki sínu.
Samtímis þessu höfðu trúboðar gagnsiðbótarinnar og fulltrúar Habsborgara
árangur sem erfiði á ungverskum yfirráðasvæðum. Þannig tókst að róa
þessa Ungverja og fá þá til að hætta baráttunni gegn Habsborgurum.
Mótmælendur máttu sæta auknum þvingunum og þær leiddu til uppreisna á
ungversku svæðunum. Uppreinarmenn, með Imre Thököly, greifa, í
fararbroddi, unnu sæta sigra gegn keisarahernum (Leopold I). Thököly
fékk hernaðaraðstoð frá Tyrkjum árið 1682 en í átökunum tókst
keisarahernum að hrekja Tyrki að mestu frá Ungverjalandi og fylgi
Thökölys hrundi. Leopold I hefndi sín grimmilega á foringjum
uppreisnarmanna og neyddi ungverska þingið að staðfesta erfðagengi
Habsborgara að ungversku krúnunni. Samkvæmt samningunum í Karlowitz
1699 héldu Tyrkir einungis ungverska héraðinu Banat, sem þeir misstu 19
árum síðar. Samningurinn tryggði Habsborgurum yfirráð í Transylvaníu.
Habsborgaratíminn.
Árið 1703 nýtti Francis II Rákóczy (1676-1735) sér þátttöku
Austurríkismanna í Spænska erfðastríðinu og efndi til nýrrar uppreisnar
gegn þeim. Með aðstoð Frakka kom hann á fót bráðabirgðastjórn og hélt
Austurríkismönnum í skefjum til 1708, þegar hann beið hroðalegan ósigur
fyrir þeim. Andspyrnan hélt áfram þar til Karl VI, keisari, lagði fram
viðunandi friðarsamninga í apríl 1711, sem fólu í sér almenna
sakaruppgjöf, trúfrelsi og margar pólitískar tilslakanir. Næstu öldina
voru samskipti Habsborgara og ungverskra þegna þeirra almennt friðsamleg.
Þjóðernisvakningin.
Á ólguskeiðinu eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789 voru langflestir
ungverskir þegnar austurrísk-ungverska keisaradæmisins trúir yfirvöldum.
Fjöldi magyarskra þjóðernissinna aðhylltust byltingarhugmyndir, sem
leiddu til uppreisna upp úr 1815. Þessi þróun leiddi til stofnunar
Frjálslynda flokksins, sem hóf kraftmikinn áróður fyrir þingbundinni
stjórn og fleiri þjóðfélagsumbótum. Frjálslynda hreyfingin með marga
stjórnvitringa í fararbroddi (István Széchenyi greifa, József Eötvös,
Ferenc Deák, Lajos Kossuth og Lajos Batthyány) lét mikið til sín taka á
bókmenntasviðinu. Henni tókst að brjótast undan þvingunaraðgerðum
ríkisstjórnarinnar og tryggði framgang margra framfaramála á þingi. Hún
kom því til leiðar, að almennir borgarar fengu opinber embætti og losaði
um kverkatak aðalsins á leiguliðum.
Byltingin 1848 og málamiðlunin.
Hinir framfarasinnuðu stjórnmálaflokkar unnu afgerandi sigur í
þingkosningunum 1847. Ríkisstjórnin hunzaði úrslitin unz byltingu var
hótað í Vínarborg næsta ár. Þá varð hún við kröfum þjóðernissinna og
fól Batthyány stjórnarmyndun. Samkvæmt lögum, sem gengu í gildi í marz
1848, rauf stjórnin næstum öll tengsl við Austurríki. Öfgafull
þjóðernisvitund magyara kom einkum fram við lögbindingu ungverskunnar
sem þjóðartungu og brottflutning annarra tungumálahópa. Rúmenskir og
króatískir íbúar gerðu víða uppreisnir. Þegar byltingarhreyfingin beið
ósigur í Vínarborg í nóvember 1848, reyndu Austurríkismenn árangurslaust
að endurreisa veldi Habsborgara í Ungverjalandi. Í apríl 1849 lýsti
þingið yfir afnámi konungsveldis Habsborgara og sjálfstæði Ungverjalands.
Í maí
sama ár gerði Frans Jósef I, keisari, hernaðarbandalag við Nikulás I,
Rússakeisara. Herir beggja sigruðu mun fámennari her Ungverja, sem
gáfust upp í ágúst 1949. Hinn 6. október 1849, sem er enn þá
sorgardagur í landinu, voru Batthyány og 13 aðrir byltingarmenn
líflátnir. Þessar aftökur og fleiri alvarlegar refsiaðgerðir voru
upphaf endurinnleiðingar austurrískrar miðstýringar, sem hélzt um
áratugs skeið. Eftir ósigur Austurríkismanna í Ítalska frelsisstríðinu
árið 1859 varð keisaraveldið fyrir hverju áfallinu af öðru. Frans Jósef
neyddist því til málamiðlana við ungverska þegna keisaradæmisins. Enn á
ný reis alda ungverskrar þjóðernisvitundar með Ferenc Deák í fararbroddi.
Árið
1865 samþykkti keisarastjórnin uppkast að nýrri stjórnarskrá fyrir
magyara. Áður en þetta skjal fékk á sig endanlega mynd sigruðu Prússar
Austurríkismenn í Sjö vikna stríðinu. Þessi atburður styrkti stöðu
Ungverja. Samkvæmt málamiðlunarstjórnarskránni, sem tók loks gildi í
marz 1867, urðu Austurríki og Ungverjaland að aðskildum konungsríkjum
undir stjórn sama einvaldsins. Stjórnarskráin átti að tryggja Ungverjum
full þegnréttindi og jafnrétti við Austurríkismenn í varnar- og
utanríkismálum og á fleiri sviðum. Hinn 8. júní 1867 var Frans Jósef,
keisari, krýndur konungur Ungverjalands. Austurrísk-ungverska
keisaradæmið entist til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Fyrri
heimsstyrjöldin og lýðveldið.
Ungverskir stjórnmálaforingjar studdu hervæðingu Austurríkismanna vegna
óttans við rússneskan sigur, sem ylli liðhlaupum minnihlutahópa slava í
landinu og sundurlimun þess. Eftir því sem leið á styrjöldina og
ósigrum fjölgaði, gætti vaxandi skorts á matvælum og fleiri nauðsynjum,
sem leiddi til mikillar óánægju meðal almennings. Lát Frans Jósefs 21.
nóvember 1916 og krýning Karls I veiktu tengslin milli landanna.
Óeirðir innanlands jukust og 25. október 1917 stofnaði Mihály Károlyi,
greifi, þjóðþing, sem ýtti enn frekar undir kröfuna um almennar
kosningar, upplausn ríkisþingsins og friðarsamninga við bandamenn.
Keisaradæmið var opinberlega leyst upp 11. nóvember 1918 og fimm dögum
síðar lýsti þjóðþingið yfir stofnun lýðveldisins Ungverjalands með
Károlyi sem fyrsta forseta.
Róstur
héldu engu að síður áfram og í marz 1919 veltu kommúnistar, með Béla Kun
í fararbroddi, stjórn Károlyis úr sessi. Nýja ríkisstjórnin þjóðnýtti
verksmiðjur, fyrirtæki og banka og fjöldi dagblaða var bannaður.
Samtímis þessu réðust Tékkar inn í norðurhluta landsins og Rúmenar inn í
suðurhlutann og innanlandsróstur færðust í vöxt. Béla Kun réði ekki við
neitt, sagði af sér 1. ágúst 1919 og flúði til Austurríkis. Þremur
dögum síðar lögðu Rúmenar Búdapest undir sig og héldu borginni til 14.
nóvember.
Þjóðstjórnin.
Bráðabirgðastjórn með þátttöku hinna mörgu stjórnmálaflokka landsins var
mynduð fyrir tilstuðlan bandamanna 25. nóvember 1919. Forsætisráðherra
hennar var Miklós Horthy de Nagybánya, fyrrum aðmírjáll í
austurrísk-ungverska hernum, sem hafði skipulagt gagnbyltingarher og
ríkisstjórn á stuttum valdatíma kommúnista. Stjórnin réðist strax gegn
vinstri mönnum og frjálslyndum með miklu offorsi. Að kröfu bandamanna
var efnt til almennra kosninga snemma árs 1920. Þjóðþingið rauf þegar
öll tengsl við Austurríki, lýsti landið konungsríki og gerði Horthy að
konungi. Hinn 4. júní 1920 undirritaði stjórnin Trianonsamninginn,
friðarskilmála bandamanna, sem svipti Ungverjaland Transylvaníu, Króatíu
og Slóvakíu. Horthy hélt landsmönnum í einræðisgreipum í rúmlega tvo
áratugi.
Í
forsætisráðherratíð Stefáns Bethlen (1921-31) var efnahagsástandið í
molum og þjóðernissinnum var heitt í hamsi vegna hinna niðurlægjandi
afarkosta Trianonsamningsins. Eftir að Horthy skipaði nýfasistann Gyula
von Gömbös forsætisráðherra í sept. 1932, einkenndist þessi
þjóðernishyggja af árásargjarnri utanríkisstefnu í garð
nágrannalýðveldanna og náinnar samvinnu við einræðisstjórnir fasista á
Ítalíu og nasista í Þýzkalandi. Samstarfið við Þjóðverja var Ungverjum
hagstætt. Þegar Hitler hafði skipt Tékkóslóvakíu, lét hann Ungverjum
eftir hluta Slóvakíu og alla Rúteníu. Ungverjaland sagði sig úr
Þjóðabandalaginu og gerðist aðili að and-komitern-bandalagi Ítala,
Þjóðverja og Japana.
Síðari
heimsstyrjöldin.
Við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar lýstu Ungverjar sig hlutlausa en
aðgerðir þeirra bentu til eindregins stuðnings við markmið öxulveldanna.
Kröfum þjóðernissinna um yfirráð yfir Transylvaníu var mætt að hluta
árið 1940, þegar Ítalar og Þjóðverjar létu Ungverjum eftir norðurhluta
rúmanska héraðsins. Í ap´ril 1941 nýtti ungverska stjórnin sér árásir
Þjóðverja á Júgóslavíu og sendi her inn á svæðin, sem voru sniðin af
Ungverjalandi samkvæmt Trianonsamningnum 1918. Hinn 27. júní 1941 lýsti
Ungverjaland yfir stríði gegn Sovétríkjunum og 13. desember gegn BNA.
Her landsins beið afhroð og mikið mannfall á rússnesku vígstöðvunum og í
ágúst 1943 reyndi stjórnin árangurslaust að komast að samkomulagi um
frið við bandamenn. Í marz 1944 lögðu þýzkar hersveitir landið undir
sig og komu á fót leppstjórn með samþykki Horthys. Þessi stjórn hóf
strax ógnvekjandi baráttu gegn öllum andstæðingum og gyðingum, sem þeir
annaðhvort drápu miskunnarlaust eða sendu úr landi. Sovézkar hersveitir
réðust inn í Ungverjaland 7. október. Horthy vildi gefast upp fyrir
þeim en Þjóðverjar settu hann af nokkrum dögum síðar.
Hinn
20. janúar 1945 undirrituðu sovézkir fulltrúar bráðabirgðastjórnar
landsins skilmála um vopnahlé og 13. febrúar féll Búdapest fyrir
Sovétmönnum. Bráðabirgðastjórnin gerði stór landsvæði og eignir
kirkjunnar upptæk. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar gerði
hinn endurreisti kommúnistaflokkur allt til að komast í meirihluta.
Sigurvegarinn í kosningunum 4. nóvember var Litli landeigendaflokkurinn
undir forystu Zontán Tildy. Lýst var yfir stofnun lýðveldis og Tildy
var kosinn forseti. Samsteypustjórn var mynduð með Ferenc Nagi, einum
leitoga landeigendaflokksins, sem forsætisráðherra og aðalritara
kommúnistaflokksins sem varaforsætisráðherra.
Kommúnistaríkið.
Mánuðum saman eftir stofnun lýðveldisins var Ungverjaland á barmi
gjaldþrots. Matvælaskortur var mikill og óðaverðbólga geisaði.
Samgöngukerfið var ónýtt og óyfirstíganlegir efnahagsörðugleikar komu í
veg fyrir uppbyggingu.
Í
janúar 1947 ákærðu kommúnistar nokkra leiðtoga Litla
landeigendaflokksins fyrir samsæri um að steypa lýðræðinu og handtóku þá.
Nagy neyddist til að segja af sér í maí og annar samflokksmaður hans,
Lajos Dinnyés, tók við af honum. Liðsforingjar í hernum, sem voru
grunaðir um óhollustu við kommúnista, voru fjarlægðir. Í júlí var
þingið leyst upp og í ágúst fóru nýjar þingkosningar fram. Þótt
kommúnistar fengju aðeins 22% atkvæða, voru þeir ráðandi afl í
samsteypustjórninni, sem Dinnyés myndaði. Félagslegi
jafnaðamannaflokkurinn var neyddur til að sameinast kommúnistaflokknum
1948 og úr varð Ungverski verkamannaflokkurinn. Hreinsanir í flokknum
snemma árið 1949 treystu völd kommúnista. Í maí 1949 voru enn haldnar
þingkosningar og kjósendur áttu um fátt að velja, því engir aðrir en
kommúnistar og stuðningsmenn þeirra voru í framboði. Í ágúst var
stjórnarskrá
Alþýðulýðveldisins
Ungverjalands samþykkt.
Efnahagsumbætur
hófust strax í anda kommúnismans. Samstarfssamningar voru gerðir við
Sovétríkin og önnur kommúnistaríki. Flestir skólar kirkjunnar voru
þjóðnýttir og hundruð presta og nunna, sem mótmæltu, voru hneppt í
fangelsi. Jósef Mindszenty, kardínáli, var handtekinn og dæmdur í
lífstíðarfangelsi snemma árs 1949. Fjöldi verksmiðja var einnig
þjóðnýttur. Bændur, sem vildu ekki taka þátt í samyrkjubúskap, urðu að
þola upptöku jarða sinna. Þúsundir andstæðinga kommúnistastjórnarinnar
voru dæmdir í þrælkunarbúðir.
Að
Jósef Stalín, forsætisráðherra Sovétríkjanna, látnum 1953 slakaði
ungverska stjórnin svolítið á tökunum. Mátyás Rákosi, sem varð
forsætisráðherra 1952, var áfram formaður kommúnistaflokksins, þegar
Imre Nagy tók við sem forsætisráðherra. Hann stóð fyrir frjálslegri
efnahagsstefnu, náðaði nokkra pólitíska fanga og afnam fangabúðir.
Tengslin við önnur kommúnistaríki voru áfram náin og Ungverjar stóðu að
varnarsamningi þeirra í Varsjá. Þeir tóku einnig þátt í auknu samstarfi
kommúnistaríkjanna (COMECON).
Í apríl
1955 var Nagy vikið frá völdum og rekinn úr kommúnistaflokknum vegna
ásakana um andsovézka þjóðernishyggju og frávik frá stefnu Sovétríkjanna.
Eftirmaður hans var András Hegedüs, lærisveinn Rákosi. Annar Sovétsinni,
Emö Gerö, varð aðalritari flokksins. Eftir að Nikita Khrushchev,
Sovétleiðtogi, hafði fordæmt Stalín fyrir ódæði hans, slaknaði aftur á
taumunum í Ungverjalandi.
Byltingin 1956.
Óánægja almennings fór vaxandi og andstæðingar stjórnarinnar efldust við
að Pólverjar höfnuðu Sovétríkjunum. Stúdentar mótmæltu skyldunámi í
rússnesku og Marx-Lenínisma og lýstu stuðningi við andsovézku
hreyfinguna í Póllandi. Verkamenn tóku undir kröfuna um endurkomu Nagys
í embætti forsætisráðherra. Hinn 23. október gafst Hegedüs
forsætisráðherra upp á baráttunni gegn kröfugöngunum og kvaddi til
herdeildir sovézka hernámsliðsins. Verkamannaflokkurinn hrakti Hegedüs
frá völdum og setti Nagy í hans stað og János Kádár, sem hafði verið í
fangelsi, sakaður um að vera þjóðernissinni, varð aðalritari í stað Gerö.
Nagy tók undir með mótmælendum og tilkynnti að frjálsar
fjölflokkakosningar yrðu haldnar. Hann lofaði efnahagsumbótu, leysti
Mindszenty kardínála úr haldi, krafðist brottflutnings sovézka hersins,
hafnaði Varsjársamningnum og lýsti Untgverjaland hlutlaust ríki í
trausti þess, að eiga stuðning vestrænna ríkja vísan. Sovétríkin lofuðu
tilslökunum en óeirðunum linnti ekki. Snemma í nóvember bældu sovézkar
hersveitir þær miskunnarlaust niður. Hundruð Ungverja voru líflátin,
þúsundir fangelsaðar og nærri 200.000 manns flúðu land.
Kádárstjórnin.
Ný ráðstjórn var mynduð með Kádár sem forsætisráðherra og leiðtoga
endurskírðs kommúnistaflokks, Verkamannaflokks Ungverjalands.
Sovétstjórnin lofaði 250 miljóna bandaríkjadala styrk og fullum
stuðningi. Uppreisnarmenn voru dæmdir til refsingar allt til ársloka
1958 og þúsundir þeirra voru fluttar nauðugar til Sovétríkjanna. Nagi
og margir fylgismanna hans voru líflátnir. Mindszenty leitaði hælis hjá
bandarísku viðskiptanefndinni í Búdapest, þar sem hann dvaldi, unz
stjórnvöld leyfðu honum að fara úr landi 1971. Nagy stóð ekki við
loforð um frjálsar kosningar.
Kádár
hélt styrkum höndum um stjórnvölinn í rúmlega þrjá áratugi og byggði
styrk sinn aðallega á aðalritaraembættinu í flokknum, þótt hann væri
einnig forsætisráðherra með hléum. Eftir byltinguna 1956 voru tökin á
almenningi hert mjög en upp úr 1967 fór heldur að slakna á þeim. Í
almennum kosningum í marz 1967 var stjórnarandstæðingum leyft að bjóða
fram með takmörkunum og skilyrðum um viðurkenningu stjórnvalda.
Ríkisvaldið hélt áfram að sýna Kremlstjórninni hollustu og tók þátt í
innrásinni í Tékkóslóvakíu árið 1968.
Nýjar
efnahagsráðstafanir voru innleiddar árið 1968. Þær fólu mun minni
miðstýringu í sér og meira frjálsræði til handa stjórnendum
ríkisfyrirtækja. Mest áherzla var lögð á arðsemi í stað kvóta áður. Að
fimm árum liðnum virtist þessi stefna hafa verið árangursrík, þótt
svolítið hafi hægt á iðnframleiðslunni.
Snemma
á áttunda áratugnum juku Ungverjar viðskipti og menningartengsl við
önnur ríki en kommúnistaríkin. Árið 1972 var tekið upp gagnkvæmt
stjórnmálasamband við BNA og næsta ár hófust samningar við
Vestur-Þýzkaland um eðlilegt stjórnmálasamband. Sambandið við
rómversk-katólsku kirkjuna batnaði. Árið 1974 leysti Páfastóll
Mindszenty kardínála frá störfum sem erkibiskup í Esztergom.
Tengslin við Vesturlönd bötnuðu stöðugt og viðskipti jukust allan 8.
áratuginn. Efnahagnum var stýrt að hluta í takt við fríverzlun,
almenningi til mikilla hagsbóta. Snemma á 9. áratugnum fór verðbólga að
aukast og Kádár sá ástæðu til að gera breytingar á stjórnarmunstrinu.
Þess var gætt, að styggja ekki Kremlstjórnina og styðja hana gegn
frelsistilburðum Pólverja 1981 og 1982. Gripið var til neyðarráðstafana
um miðjan áratuginn, þegar enn hallaði undan fæti í efnahagsmálunum og
almenningur krafðist málfrelsis og félagslegra umbóta. Í maí 1988 sagði
Kádár af sér aðalritarastöðunni og Károly Grósz, sem hafði verið
forsætisráðherra síðan 1987, tók við. Hann hafði barizt harðri baráttu
gegn verðbólgunni og lagt á nýja skatta, dregið úr niðurgreiðslum og
hvatt til einstaklingsframtaks. Fleiri vísbendingar um stefnu í
frelsisátt komu fram í minni ritskoðun, stofnun stjórnmálaflokka og
frelsi til verkfalla og mótmæla. Árið 1989 var Nagy jarðsettur með
mikilli viðhöfn á vegum ríkisins. Dregið var úr ferðahömlum,
stjórnarskráin var endurskoðuð með lýðræðislegt fjölflokka kerfi í huga
og nafni landsins var breytt úr Alþýðulýðveldinu Ungverjalandi í
Lýðveldið Ungverjaland. Í marz og apríl 1990 var mynduð samsteypustjórn
vinstri- og miðflokka eftir fyrstu frjálsu kosningarnar í 45 ár. Eftir
að mistókst að ná samstöðu um beinar forsetakosningar í
þjóðaratkvæðagreiðslu, valdi þingið rithöfundinn Árpád Göncz í embættið.
Árið
1990 varð Ungverjaland fyrsta Mið-Evrópuríkið austantjalds til að gerast
aðili að Evrópuráðinu og 1991 og 1992 undirritaði ríkisstjórnin samninga
um samstarf við Pólland, Tékkland og Slóvakíu, Rússland og Úkraínu.
Sambandið við Slóvaka og Rúmena var stirt vegna slæmrar meðferðar á
ungverskum minnihlutahópum í þessum löndum. Um mitt ár 1992 höfðu
Ungverjar tekið við rúmlega 100 þúsund flóttamönnum frá fyrrum
Júgóslavíu og ríkisstjórnin bað um aðstoð frá Vesturlöndum. Í apríl
1994 sóttu Ungverjar um aðild að ESB. Ungverski sósíalistaflokkurinn (fyrrum
verkamannaflokkurinn) fékk 72% þingsæta í kosningunum í maí sama ár og
tilnefndi leiðtoga sinn sem forsætisráðherraefni, þegar þingið kom saman
í júlí. Það kynnti miklar niðurskurðaraðgerðir til að grynnka á
erlendum skuldum (28 miljarðar US$). Frekari neyðaraðgerðir voru
kynntar í marz 1995 og lög, sem áttu að stuðla að einkavæðingu og
einkarekstri, voru samþykkt í maí. |