Skoðunarverðir staðir
*Safnaðarkirkjan
í miðborginni (12.öld). Hún
stendur á rústum rómverskra herbúða. Forbyggingin er í barokstíl.
Inni við kórinn eru 19 gotnesk sætisútskot og einu þeirra
var breytt í islamskt bænaaltari.
Einnig er þar að finna leifar gotneskra múrmynda.
Hliðarkapella með helgidómageymslu í endurreisnarstíl frá
1507 og 1510. Tröppur
liggja niður í jörðina frá torginu vinstra megin kirkjunnar
í safn, þar sem sjást veggjabrot rómverskra rústa (frá árinu
294) herbúðanna Castrum Contraaquincum, sem
Diokletian reisti.
**Þinghúsið
var byggt 1885-1905 eftir teikningum Imre Steindl.
Það er í nýgotneskum stíl með kúpli í endurreisnarstíl.
Húsið er alls 268 m langt, 118 m breitt og 96 m hátt.
U.þ.b. 40 kg gulls voru notuð í útiskreytingar.
*Kirkja heilags Stefáns
er stærsta kirkjan í Budapest. Bygging
hófst 1851. Árið 1868
hrundi kúpullinn og endurreisn var lokið árið 1905.
*Þjóðminjasafnið
var byggt í klassískum stíl árið 1840.
*Ríkisóperan
var byggð 1875-1884. Innandyra
eru múrmyndir beztu málara Ungverjalands.
*Hetjutorgið.
Þar er safn skapandi lista og þúsund ára minnismerkið.
Torgið var lagt árið 1896 á 1000 ára afmæli byggðar
ungverskra þjóðflokka. Í
miðju þess er stytta Gabríels erkiengils með sjö furstum á fótskör.
Þar er og gröf óþekkta hermannsins.
Undir bogunum eru ungverskir konungar (hinir frægustu), furstar
frá Siebenburgen og þjóðhetjur landsins.
***Zitadelle.
Eftir að hafa bælt niður frelsisstríð Ungverja, létu
Habsborgarar reisa þennan smákastala 1851 á eldri grunni gömlu stjörnuathugunarstöðvarinnar
til að geta betur mætt nýjum frelsisbylgjum.
Síðar var þar herstöð.
Á steintöflum má lesa sögu borgarinnar.
Útsýni frá kastalanum er frábært.
Þar er svalaveitingahús og vínstofa í jarðhúsum virkisins.
Framan við múrana stendur hinn risastóra frelsisstytta
(minnisvarði frá 1947) til minningar um, að Rússar frelsuðu
Budapest undan oki Þjóðverja og látna rússneska hermenn.
Við rætur hæðarinnar er eitt bezta hótel Budapest, Gellért,
sem var reist árið 1918 (endurnýjað kringum 1985).
Þar er heilsubótarstaður (40-45°C radíumvirkar, kalkríkar
laugar) með öldusundlaug og sundhöll.
*Grafarkapella Gül Baba
(Rósaföðurins). Hann var
islamskur förumunkur, sem lézt í Buda og múslimar tóku í dýrlingatölu.
Tyrkneski jarlinn lét reisa átthyrnda kúpulinn 1543-48.
*Hringleikahúsið
frá 2. öld var ætlað rómverskum hermönnum.
Það var notað til ársins 375 og síðar varð það virki.
Á miðöldum héldu menn það rústir hallar Attila húnakonungs.
Langöxull þess er 89 m og þveröxull 66 m; sæti fyrir 13.000
áhorfendur.
**Kastalafjall.
Þar eru margir skoðunarverðustu staða Budapest og þaðan er
frábært útsýni frá fiskimannavirkinu.
Sigismund konungur af Luxemburg lét reisa þar höll, sem var stækkuð
síðar og Tyrkir eyðilögðu. Barokhöll
Maríu Theresíu stendur á grunni hennar (stækkuð 1894-1906).
Þar er nú listasafn ríkisins með verkum ungverskra málara og
myndhöggvara 19. og 20. aldar og sögusafn borgarinnar (sagan frá
1686) og verkamannasafnið auk bókasafna.
**Matthíasarkirkjan
(krýningarkirkja). Fyrsta
kirkjan var byggð 1255-69. Henni
var breytt oft á 14. og 15. öld í gotneskan stíl.
Matthías Korvinus, konungur, lét reisa suðvesturturninn.
Á miðöldum þjónaði hún þýzkumælandi íbúum
borgarinnar. Margir
ungverskir konungar voru krýndir í kirkjunni.
Árið 1536 brenndu Tyrkir hana.
Á tímabilinu 1541-1686 var þar aðalmoska Tyrkja.
Árin 1873-96 var kirkjan færð í upprunalegan gotneskan búning.
**Fiskimannavirkið
var reist 190, þar sem áður stóð múrvígi fiskimannagildisins.
Einnar hæðar útskotsskreytt hornbygging er fyrrum ráðhús
Buda (1692-1744).
**Margrétareyja
er vinsælasta útivistar- og íþróttamiðstöð Budapest.
Þar eru sund- og heilsubótarlaugar, tennisvellir, íþróttaleikvangar,
skemmtigarðar og útisýningar á sumrin.
Veitingahús Grand hótelsins er fyrsta flokks.
Eyjan var þegar byggð á dögum Rómverja.
Snemma á miðöldum settust þar að munkar.
Þar var reist klaustur árið 1251 og þar bjó Margrét, dóttir
Béla IV. Hún var tekin í
dýrlingatölu. |