Tyrkland landslag lega,
Flag of Turkey

  Ferðir Jóhönnu Kristjónsd. um islamska heiminn.  

TYRKLAND
LANDSLAG og LEGA

.

.

Utanríkisrnt.

Tyrkland er fjöllótt land og láglendissvæðin eru með ströndum fram.  Fjórðungur lands liggur ofan 1200 m yfir sjó og tæplega 40% eru neðan 500 m.  Víða eru fjallahryggir hærri en 2300 m, einkum í austurhlutanum, þar sem Tyrkland rís hæst í Araratfjalli (5137m) rétt við landamæri Armeníu og Írans.  Yfirleitt eru fjöllin hlíðabrött, aðeins 17% lands hefur aflíðani hlíðar.  Þessi landslagseinkenni framkalla miklu óblíðara loftslag og veðurfar en búast má við á þessari breiddargráðu og draga úr möguleikum í landbúnaði.  Landið er hlekkur í fellingafjallakeðju Evrasíu og jarðfræðin því talsvert flókin.  Þar er að finna setlög frá krítartímanum fram á kvarter, fjölda innskota og víðáttumikil tefrasvæði. Jarðfræðilega hefur landinu verið skipt í fjögur aðalsvæði, norðurfellingasvæðið, suðurfellingasvæðið, miðhálendið og Arabísku sléttuna.

Norðurfellingasvæðið nær yfir fjölda fjallahryggja, sem hækka til austurs á 150-670 km breiðu svæði sunnan Svartahafsins.  Þetta svæði er kallað Ponticfjöll, þar sem ekkert tyrkneskt nafn nær yfir það allt.  Vestantil er svæðið mikið sprungið, þar sem stærstu misgengin urðu að Tyrknesku sundunum.  Ergeneláglendið í Þrakíu er meðal stærstu slíkra í Tyrklandi og fjalllendið Yildiz (Istranca) nær aðeins 1000 m hæð.  Sunnan Marmarahafs og meðfram Sakaryaánni, austan Bosporus, eru líka láglend svæði.  Háir fjallahryggir hækka strax upp af Svartahafsströndinni, sem er víðast mjó ræma, nema þar sem eru árósar Kizil- og Yesilánna.  Þessar ár hafa fundið sér farvegi gegnum Ponticfjöll, þar sem jarðskorpan er laus fyrir og fjöllin rísa ekki hærra en 650 m yfir sjó og skipta fjalllendinu í austur- og vestursvæði.  Á vestursvæðinu, milli Sakarya- og Kizilánna, eru fjórir meginhryggir, Küre-, Bolu-, Ilgaz- og Köroglufjöll, sem rísa hæst 3942 m, 5.093 m og 4.717 m í sömu röð.  Austan Yesilárinnar eru fjöllin hærri, mjórri og brattari.  Innan 85 km frá ströndinni rísa Dogukaradenizfjöll í rúmlega 3000 m hæð og hæst í 3914 m í Kaçkarfjöllum.  Dogukaradenizfjöll klofna um Kelkit- og Çoruhdalina frá öðru fjallendi, sem nær rúmlega 2400 m hæð.

Suðurfellingasvæðið yfir suðurþriðjung landsins frá Eyjahafi að Iskenderunflóa, þaðan sem það teygist til norðaustur og austurs meðfram Arabísku sléttunni.  Miðjarðarhafsströndin er víðast mjó ræma nema Antalyasléttan, sem teygist u.þ.b. 33 km inn í landið frá Antalyaflóa og Adana sléttan, sem er u.þ.b. 90x125 km, óshólmaland Seyhan- og Ceyhanánna.  Fjallakerfunum er skipt í tvo aðalhluta.  Vestan Antalya eru flókin hryggjakerfi með norður-suðurstefnu (1970-2485m hátt) en mest áberandi er fjallakefri Nautafjalla (Taurus), sem liggur meðfram strönd Miðjarðarhafsins og suðurlandamærum landsins.  Þar er hæð fjallatinda á milli 2425 og 3335 m.  Í austurhluta landsins mætast norður- og suðurfellingasvæðin og mynda víðáttumikið fjalllendi með flatlendum og lokuðum dölum og trogum, líkt og í Malatya, Elazig og Mus.

Miðhálendið er vestantil í landinu milli Pontic- og Tauruskerfanna.  Þetta hálendi er oft kallað Anatólíusléttan, þrátt fyrir að lanslagið gefi ekki tilefni til þess.  Það er hægt að skipta þessu svæði í fjórar land- og jarðfræðilegar einingar í grófum dráttum.

Á svæðinu frá Eyjahafi að línu milli Bursa og Denizli er mikið um misgengi með norður-suðurstefnu og hásléttur, sem rísa milli 1500 og 2000 m yfir sjó og djúpum dölum á milli.  Áreyrar, sem eru meðal hinna stærstu í landinu vegna mikils vatnsrofs, eru góð landbúnaðarsvæði. 

Austan þessa svæðis, að línu milli Eskisehir til Burdur, er flókið landslag í 475-950 m hæð yfir sjó.  Þar eru margir misgengisdalir milli fjalla, sem rísa allt að 1970 m yfir sjó. 

Svæðin norðan Taurusfjalla og til norðausturs að línu frá Ankara um Tuzvatn til Nigdevatns eru auðkennilegust.  Þar á nafnið háslétta betur við í lághæðóttu landslaginu, sem nær u.þ.b. 950 m hæð milli lágra fellshryggja.  Þessar sléttur ná yfir svæði, sem er u.þ.b. 250x330 km að stærð en hafa takmarkað gildi fyrir landbúnað vegna hæðar yfir sjó og áhrifa hennar á loftslagið. 

Það sem eftir er af miðhálendinu er nokkurn veginn þríhyrningslaga svæði með austurhornið nærri Sivas.  Víðast er þetta svæði hærra en 1550 m.  Áberandi eru merki um nýlega eldvirkni í Nigde, Nevsehir og Kayseri héruðunum og eldfjöllin Ercives (3.892m) og Hasan (3238m).

Arabíska sléttan er í suðausturhluta landsins milli Gaziantep og Tígrisárinnar.  Þar eru landslagsdrættir mýkri og aflíðandi hlíðum sléttunnar úr u.þ.b. 750 í 300 m hæð til suðurs að landamærum Sýrlands.  Á miðju þessu svæði er hið 1907 m há eldfjall Karaca.

Jarðfræðileg uppbygging og breytingar í landslagi (sprungur, misgengi) er að miklu leyti af völdum jarðskjálfta, sem hafa verið tíðir á síðustu áratugum.  Engir landshlutar eru öruggir fyrir þeim en alvarlegustu afleiðingarnar hafa verið í austurhlutanum nærri Erzurum 1959, Bingöl 1971 og Erzincan 1939 og 1992.


Árnar.  Í megindráttum má skipta Tyrklandi í 8 vatnasvið.  Tvö þeirra ná út fyrir landamæri landsins.  Hið minnsta er austast og tilheyrir Arasánni, sem kemur upp sunnan Erzurum og rennur rúmlega 400 km til landamæra Aserbaijan og loks í Kaspíahaf.  Meginvatnsmagnið í Austur-Tyrklandi flæðir um Efrat og Tígris, allt að 1282 og 539 km áður en þær ná til Sýrlands og Íraks, þar sem þær hverfa í Persaflóa.  Tvö vatnasvæði í austurhlutanum eiga sér ekkert frárennsli.  Annað tæmist í Vanvatn.  Í vestur-mið Anatólíu eru líka tvö slík svæði, sem tæmast í vötnin Tuz og Konya.  Nokkur önnur vatnasvið á þessu svæði enda í vötnum eins og Egridir og Beysehir.  Önnur vatnasvið landsins enda í Svartahafi, Marmarahafi, Eyjahafi og Miðjarðarhafi.

Flestar árnar, sem streyma til Svartahafs frá Ponticfjöllum, eru stuttar og straumharðar en sumar eru lengri og bæta við sig þverám, sem renna í austur-vesturstefnu eins og fjalllendið liggur.  Þessar ár eru helztar:  Yenice, Çoruh, Kelkit, Yesil og Kizil.  Sakaryaáin rennur um einn lengstu dalanna (826 km) frá upptökum suðvestan Ankara að ósum norðan Adapazari. 

Margar litlar ár hverfa til Marmarahafs.  Stærst er Mustafakemalpasa.

Stærstur hluti Evrópu-Tyrklands er í Ergene-Marítsalægðinni, sem tæmist í Norður-Eyjahafið.  

Mest árvatn, sem fellur til Eyjahafs, kemur af Anatólíusvæðinu, s.s. Gediz, Küçükmenderes og Büyükmenderes.  Þar sem Taurusfjöllin rísa upp úr Miðjarðarhafinu eru margar straumharðar ár, s.s. Aksu, Köprü, Manavgat og Göksu, sem er lengst.  Tvær miklu lengri ár, Ceyhan og Seyhan, falla til Iskenderunflóa og breiðir óshólmar þeirra mynda stærstan hluta frjósamrar Adanasléttunnar.


Stöðuvötn.  Í Tyrklandi eru u.þ.b. 50 stöðuvötn, sem eru stærri en 10 km², og rúmlega 200 minni.  Stærst eru Vanvatn, 3714 km², og Tuzvatn, 1554 km².  Hið síðarnefnda er mjög grunnt og er misstórt eftir árstíðum.  Bæði eru ísölt.  Stærstu fersku vötnin eru í vatnahéraðinu norðan Taurusfjalla, s.s. Aksehir, Egridir og Beysehir.  Norðaustan Bursa er Iznikvatn.  Uppistöðulón hafa orðið til vegna fleiri orkuvera.  Hið stærsta þeirra er eru tengd Atatürk- og Kebanstíflunum í Efrat, Hirfanli í Kizil, Sariyar í Sakarya, Demirköprü í Gediz og Seyhan í Seyhanánni. 

Loftslagið er mismunandi eftir landshlutum og hæð yfir sjó.  Yfirleitt er það blandað meginlands- og Miðjarðarhafsloftslag, sem hafsvæðin í kringum landið hafa mikil áhrif á.  Hafið og fjöllin skapa andstæður milli strandhéraðanna og innlandsins.  Mörg svæði eru úrkomusöm á veturna eins og er algengt við Miðjarðarhafið og á sumrin er þurrkur algengur.  Uppi á hálendinu er aftur á móti mun kaldara en algengt er á þessu svæði og mikill hitamunur sumars og vetrar.

Flóran.  Gróðurfar fer að mestu eftir landslagi, loftslagi og jarðvegi.  Því er hægt að skipta í tvo höfuðþætti:  Steppur í Mið-Anatólíu og suðausturhlutanum auk þess á lægri svæðum í Þrakíu og í dölum og lægðum Austur-Anatólíu og skóga, sem vaxa annars staðar í landinu.  Verk mannanna hafa engu að síður sett sitt mark á gróðurfarið, bæði beint og óbeint, með skógarhöggi og búfjárbeit.

Mestu skóglendin eru Pontic- eða Colchianskógarnir í austurhlutanum við Svartahafið, þar sem úrkoma er mikil, engir sumarþurrkar og vetur eru milder.  Algengustu trjátegundirnar eru birki (carpinus), kastaníutré, greni og elri.  Mikið er um runnagróður, s.s. ródondendron, lárviði, (ilex), mytrusviður, hesliviður og valhnetutré.  Annars staðar við Svartahafið eru laufskógar, sem þurfa mikinn raka.  Helztu tegundirnar við Svartahafið eru annars greni, beyki, birki (carpinus), elri, eik, fura og ýr (ýviður).  Ofan 1000 m hæðarlínunnar eru barrtré allsráðandi og skógarmörkin eru í u.þ.b. 2000 m hæð.

Beggja vegna steppnanna á miðhálendinu, í austur- og vesturhlutunum, þar sem þurrkur er mun meiri, ber mest á laufskógum með eik, eini og furu með auðum graslendum.  Í Mið- og Vestur-Taurusfjöllum ber mest á furu og eik en víða finnast sedrustré, beyki, einir og hlynur.  Meðfram Eyja- og Miðjarðarhafinu eru einkennistegundir þessa heimshluta, mytrusviður, villt ólífutré, lárviður og (ceratonia siliqua) algengastar.  Þarna finnast líka eik, fura og sýprustré.


Fánan.  Allmargar tegundir villtra dýra og fugla er að finna í landinu.  Í afskekktum skógum má búast við að finna úlfa, refi, villisvín, villiketti, bjór, merði, sjakala, hýenur, birni, dádýr, gasellur og fjallageitur.  Meðal húsdýra er vatnabuffalinn, angórugeitin, drómedarar og kameldýr auk hesta, asna, sauðfjár og nautgripa.  Helztu veiðifuglarnir eru akurhænur, gæsir, lynghænur og (tetrax tetrax).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM