Istanbul almennar upplýsingar Tyrkland,
Flag of Turkey

  Ferðir Jóhönnu Kristjónsd. um islamska heiminn.  

ISTANBUL
ALMENNAR UPPLÝSINGAR


.

.

Utanríkisrnt.

Landslag og lega.  Gamla borgin nær yfir 23 km² svæði.  Núverandi borg er 254 km² beggja vegna Bosporussunds og Marmarahafs.  Upprunalega borgin á nesinu stendur á sjö hæðum, sem skýrir nafnið, sem Konstantín mikli gaf henni, Nýja-Róm.  Sex þeirra eru hlutar af löngum hryggjum ofan Gullna hornsins og hin sjöunda stendur stök á suðvesturhorni nessins.  Margar moskur eru við rætur þeirra auk annarra sögulegra bygginga, sem UNESCO bætti á verndunarlista sinn 1985.

Samkvæmt gamalli hefð er sjórinn, sem liggur að borginni, kallaður „höfin þrjú”, Gullna hornið, Bosporus og Marmarahaf.  Gullna hornið er djúpur neðansjávardalur, u.þ.b. 7 km langur.  Fornum íbúum borgarinnar fannst það líta út eins og dádýrahorn en nútímatyrkir kalla það Halic (Skurðinn).  Bosporus (Bogazici) er sundið, sem tengir Svartahaf (Kara Deniz) og Miðjarðarhaf (Ak Deniz) um Marmarahaf (Marmana Deniz) og Dardanellasundin.  Hið mjóa Gullna horn skilur gömlu borgina Stamboul í suðri frá nýju borginni Beyoglu í norðri.  Breiðara Bosporussundið skilur Evrópuhluta Istanbul frá hverfunum Asíumegin, Üsküdar og Kadiköy.  Stórárnar í Rússlandi og Mið-Evrópu renna til Svartahafs og gera það að verkum, að saltmagn er minna en í Miðjarðarhafi.  Sjór úr Svartahafi streymir á yfirborði til Miðjarðarhafs en saltari og hlýrri sjór úr Miðjarðarhafi streymir með botni inn í Svartahaf.

Loftslag.  Poyraz heitir ríkjandi norðausturvindur frá Svartahafi.  Stundum lætur hann undan á veturna og hleypir karayel (svörtu slæðunni), íslköldum vindi frá Balkanlöndunum að.  Þá geta Gullna hornið og jafnvel Bosporus lagzt í klakabönd.  Suðvestanvindurinn Iodos getur ýft Marmarahafið talsvert, þegar hann nær sér upp.

Borgarmyndin.  Borgin hefur orðið fyrir alls konar hremmingum í gegnum tíðina.  Eldar hafa geisað, jarðskjálftar hafa skekið hana, uppreisnir og innrásir hafa skilið eftir sig spor.  Heimildir geta um rúmlega 60 stórbruna og enn þá sjást merki slíkra atburða í gömlu borginni.  Frá tímum Konstantíns mikla hafa a.m.k. 50 stórskjálftar og margir minni riðið yfir.  Hægfara uppbygging brunninna hverfa og umbætur í gatnagerð sjást þar sem eru komnar breiðar götur í stað þröngra og skuggalegra gatna.  Engu að síður stendur fjöldi niðurníddra, gamalla húsa við þrönga moldarstíga.

Stamboul er enn þá umgirt borgarmúrum.  Jarðvegsgarðarnir milli nessins og meginlandsins stóðust allar árásir nema fallbyssur Mehmeds II Osmanasoldáns árið 1453.  Staðurinn, þar sem hann brauzt í gegn hefur verið kallaður Fallbyssuhliðið (Top Kapisi) síðan.  Garðarnir eru tæplega 7½ km að lengd með tveimur röðum varnargarða.  Hin innri var byggð árið 413 og hin ytri 447 og utan hennar er síkisgröf.  Innri varnirnar eru u.þ.b. 9 m háar og 5 m breiðar með turnum með 60 m millibili.  Tala þessara turna var upphaflega 92 og eftir standa 56.  Múrarnir meðfram sjónum voru byggðir árið 439 en nú standa aðeins stubbar eftir af þeim við Gullna hornið.  Þeir voru búnir 110 turnum og 14 hliðum, þegar byggingu var lokið.  Múrarnir við Marmarahafið milli Seragliohöfða og jarðvegsgarðanna (8,3 km) voru búnir 188 turnum, sem voru ekki nema u.þ.b. 6 m háir, því að straumarinir í Marmarahafinu veittu líka vörn gegn landgöngu óvina.  Mestur hluti þessara múra stendur enn þá.

Hæðirnar sjö innan varnarmannvirkjanna standa enn þá með bröttum hlíðum en ofantil hafa þær flatzt út í tímans rás.  Landfræðingar hafa gefið þeim númer frá enda nessins meðfram Gullna horninu í átt til enda jarðvegsgarðsins, þar sem hann endar við Marmarahafið og síðasta staka hæðin stendur

Galata- og Atatürkbrýrnar yfir Gullna hornið til Beyoglu.  Miðhluti þeirra er reistur á hverri nóttu skömmu fyrir dagrenningu til að hleypa skipaumferð í gegn.  Strandlengja Gullna hornsins er þakin bryggum, vöruhúsum, verksmiðjum og inn á milli eru sögulegar rústir.  Ferjur eru stöðugt á ferðinni yfir sundið.  Evrópumegin leggja þær af stað frá bryggjum undir Galatabrúnni.  Fyrsta Bosporusbrúin, sem var opnuð árið 1973 (rúmlega 1 km) og brú númer tvö árið 1988 (svipuð lengd), eru meðal lengstu hengibrúa heims.

Beyogluhverfið, sem er kallað „nútíma Istanbul”, en enn þá erlendi hlutinn í hugum íbúanna eins og hefur verið allt frá 10. öld.  Styrjaldir og eldsvoðar hafa aðeins skilið eftir nokkur mannvirki, sem voru byggð fyrir 19. öld.

Aðkoman frá Gullna horninu er brött og nota verður togbrautir milli Galatastrarndar og Pera.  Uppi á hæðunum eru stóru hótelin og veitingastaðirnir, ferðaskrifstofur, leikhús, óperan, skrifstofur konsúla og opinberar stofnanir svo eitthvað sé nefnt. 

Allt frá 10. öld réðu erlendir kaupmenn, einkum frá Genúa, lögum og lofum í Galata.  Þeir nutu sérstakra réttinda innan varnargarða sinna.  Eftir að Ottomanar tóku völdin árið 1453 var öllum útlendingum, sem voru ekki ríkisborgarar, komið fyrir í þessu hverfi.  Umhverfis glæsileg sendiráð voru múrar og innan þeirra kirkjur, skólar og sjúkrahús fyrir hvert fyrir sig.  Galata varð brátt fullbyggt og byggðin færðist smám saman upp hlíðarnar og upp á Peraflötina.  Öldum saman urðu útlendingar, sem vildu heimsækja Stamboul, að vera í fylgd hermanns soldánsins.

Býzönsk byggingarlist.  Ekkert stendur eftir af Býzantíum, sem Konstantín mikli valdi sem byggingarstað Nýju-Rómar, sem lítið er eftir af.  Konstantínsúlan (Brennda súlan; Cemberlitas) úr porfýrflekum stendur enn þá við Nûruosmanmoskuna.  Að öðru leyti er ekki hægt að færa sönnur á, að aðrar byggingar standi frá sama tíma.  Hann lauk byggingu leiksviðs, sem Septimus Severus hafði látið gera upp, og eftirmenn hans létu endurnýja og stækka allt fram á 5. öld.  Hið eina, sem stendur eftir af því eru bogadregnir endar þess með þremur súlum í miðjunni, einsteinungi frá Egyptalandi, sem Teodosius I, Rómarkeisari, lét reisa, steinsúla frá tíma Konstantíns VII Porphyrogentius (905-59) og Delfísúlan, steinsnákar, sem liðast upp á við og enduðu í hausum þeirra.  Síðastnefnda súlan er nú hausalaus en hana byggðu Grikkir eftir að hafa unnið sigur á Persum árið 479 f.Kr. í orrustunni við Plataea.

Fátt stendur eftir af fjölda súlna, sem prýddu Konstantínópel fyrrum.  Í Cerrahpasahverfinu stendur pallur súlu Arcadius keisara, sem ríkti á árunum 383-408, súla Marcians keisara, sem ríkti 450-57, Meyjarsúlan í Fatihhverfinu og í garði Topkapihallarinnar stendur alheil korinsk súla, sem talin er vera frá tíma Kládíus II Gothicus (268-70).

Tveggja hæða vatnsstokkur úr kalksteini frá tíma Valens keisara (366) stendur milli þriðju og fjórðu hæðar.  Nokkrir hinna geysistóru, opnu vatnsgeyma Býzantíumtímans eru notaðir fyrir útimarkaði.  Rúmlega 80 lokaðir vatnsgeymar standa enn þá.  Einn þeirra hýsir einhverja leyndardómsfyllstu og fegurstu byggingu Istanbul, Neðanjarðarhöllina (Yerebatan Sarayi) í grennd við Hagia Sophia.  Þar standa 336 súlur í kyrru vatni og teygjast upp í þakhvelfinguna.

Gullna hliðið er sigurbogi frá því um 390.  Hann var byggður inni í varnarmannvirkjum Teodosius II nærri mótum jarðvegsgarðanna og strandmúranna.  Marmaraklæddir sökklar tveggja turna hans standa heilir og á milli þeirra standa þrír bogar prýddir súlum.

Einu velvarðveittu minjar byzanskrar byggingarlistar eru útveggir þriggja hæða, hornréttrar kalk- og múrsteinsbyggingar, sem er prýdd munstrum og línum.  Þessi bygging er frá því um 1300 og er kölluð Konstantínshöllin (Tekfur Sarayi).  Hún er tengd jarðvegsgarðinum skammt frá Gullna horninu.

Stærsti arfurinn frá keisaratímanum eru 25 byzantískar kirkjur, sem eru margar hverjar enn þá í notkun sem moskur.  *Haiga Sophia er stærst þeirra og talin meðal merkustu bygginga heims.  Nafn hennar þýðir „guðleg vizka”.  Í næsta nágrenni er St. Irene, sem var helguð guðlegum friði og er jafngömul.  Margir sagnfræðingar telja hvelfingu Haiga Sophia, 31,8 m í þvermál, hina fegurstu í heimi.  Sagnir herma, að hún hafi deilt klerkum með St. Irene og Konstantín mikli hafi látið reisa hana árið 325 á rústum heiðins hofs.  Konstans keisari lét stækka hana og Teodosius keisari lét endurbyggja hana eftir bruna árið 415.  Kirkjan eyðilagðist í öðrum bruna í Nikauppreisninni 532 og Justinian lét endurbyggja hana.  Kirkjan, sem nú stendur, er að mestu leyti frá þessum tíma en árið 559 hrundi hvelfing hennar í jarðskjálfta og var endurbyggð í minni mynd en áður auk þess, að kirkjan var styrkt verulega að utan.  Um miðja 14. öld var hún endurnýjuð og árið 1453 var henni breytt í mosku með minarettum og stór ljósahjálmur var settur í hana.  Árið 1935 var henni breytt í safn.  Á veggjum hennar hanga enn þá skildir með múslamskri skrautskrift.

*Kirkja SS Sergius og Bacchus var byggð í tíð Justinians keisara 527-36 vegna áheits.  Þessir tveir hermannadýrlingar birtust Anastasiusi I keisara til að tala máli Justinians, sem hafði verið dæmdur til dauða fyrir samsæri.  Kirkjan var byggð með átthyrndri hvelfingu inni í ferningi með súlum og setpöllum í býzönskum stíl.  Hún er líka kölluð Küçük Ayasofya (Litla-Sophia) og er líklega fyrirmynd Justinians að endurbyggingu Haiga Sophia.  Kirkja hl. Bjargvætts í Chora (nú Karimoskan) er nærri Adrianoplehliðinu.  Hún var endurbyggð á 11. öld og endursköpuð á hinni 14. Nú er hún safn, sem er rómað fyrir 14. aldar mósaík, marmara og freskur.  Yfir aðaldyrunum er höfuð Krists með áletruninni „Land hinna lifandi”.  Þegar henni var breytt í mosku var settur upp lokaður gangur frá innganginum að miðkirkjunni, súlnagöng og minarettur.

Kaupmenn frá Genúa létu reisa stóra turninn, sem gnæfir yfir Galatahverfinu, árið 1349 sem varðturn og styrkingu varnarmúra sinna.

Tyrkneskar minjar.  Þegar Konstantínópel varð tyrknesk, reistu Tyrkir hvelfingar og minarettur á hæðahryggjunum og breyttu þannig einkennum borgarinnar.  Þeim var líkt farið og Grikkjum, Rómverjum og Býsönum, því að þeir eyddu geysilegum fjármunum og orku í fegrun hennar.  Ottomanarnir, sem ríktu frá 1300 til 1922, stóðu í stöðugri uppbyggingu frá upphafi til enda.  Tilkomumestu moskurnar létu þeir reisa á tímabilinu frá miðri 15. til miðrar 16. aldar og beztu arkitektarnir, sem önnuðust verkin, hétu Sinan.  Þeir voru Atik Sinan eldri, Sinan frá Balikesir og Mimar Koca Sinan.  Byggingarstíllinn bar vott um mikil persnesk áhrif frá Selsugum, sem voru fyrrum húsbændur Ottomana, en einnig blöndu af hellenskum og býsönskum hefðum borgarinnar.  Meistaraverk Mimar Koca Sinans og grafstæði hans er Süleymanmoskan (1550-57), sem sýnir ljóslega, að Haiga Sophia hafði mikil áhrif á hann.  Þessi bygging er einnig talin meðal merkustu bygginga heims. Bláa moskan er frægasta moskan í Istanbul.  Hún er frá tímum Ahmed I, Ottomanasoldáns 1603-17.  Hana prýða 6 minarettur í stað hinna hefðbundnu 4.

Moskur, sem voru byggðar á 18. öld og síðar bera vott um skaðleg áhrif evrópskra arkitekta og húsameistara, sem blönduðu barok og íslamskri byggingarlist, s.s. í Trúarmoskunni, sem var endurbyggð á árunum 1767-71.  Nýklassískrar byggingarlistar gætir í Dolmabachçemoskunni frá 1853, þar sem nú er safn sjóhersins.

Stóru moskurnar voru byggðar með stoðbyggingum, s.s. kóranskólum (medrese), baðhúsum (hamam) til þvotta, gistihúsum og eldhúsum fyrir fátæklinga (imaret) eða grafhýsum fyrir konungborið fólk og aðra mektarmenn.

Það eru rúmlega 400 gosbrunnar í borginni.  Í sumum seitlar vatnið út úr veggskotum og aðrir eru prýddir súlnaskálum.  Ahmed II soldán lét byggja hinn fegursta árið 1728 bak við Haiga Sophia.  Hann er ferhyrndur með marmaraveggjum og bronzgrindur, blanda tyrkneskrar og rokoko byggingarlistar.

Topkapihöllin, umlukt varnarmúrum, er á höfðanum norðan Haiga Sofia.  Bygging hennar hófst árið 1462 á dögum Mehmeds II og var bústaður soldánanna fram á 19. öld.  Þar fóru erlendir sendiherrar um keisarahliðið (Bab-i-Hümayun) til að afhenda trúnaðarbréf sín.  Höllin er að mestu samsett úr litlum byggingum umhverfis þrjá garða.  Aðalbyggingarnar eru Cinili laufskálinn (1472), áheyrnarsalurinn (Arzodasi), Hirkaserif (helgiskrín Múhameðs spámanns) og hinn fagri Bagdad laufskáli, sem reistur var til minningar um hernám Bagdad 1638. Höllin hýsir alla dýrgripi soldánanna, handrit, postulínsvörur, vopn og fatnað.  Eftir að soldánarnir hættu að búa í höllinni byggðu þeir hallir við Bosporus, Beylerbeyhöllina (1865), skrautlega Dolmabahçehöllina (1853), Ceraganhöllina (1874; brann 1910) og Yildizhöllina, sem var bústaður Abdülhamids II, Ottomanasoldáns frá 1876-1909.

Basarinn mikli (Kapli Carsi) var stofnaður snemma á yfirráðskeiði Tyrkja með 4000 búðum umhverfis vöruhús og dreifingarmiðstöðvar í miðjunni.  Þar hlutust oft skaðar af eldsvoðum og jarðskjálftum.  Þarna iðar allt af lífi og kaupmenn reyna sitt ítrasta til að öngla sér í peninga.

Fólkið.  Líkt og aðrar stórborgir heimsins, dregur Istanbul til sín fjölda manns úr dreifbýlinu ár hvert.  Flestir þessara nýbúar hola sér niður í fátækrahverfunum (gecekondu = byggt á einni nóttu), þar sem þeir hrófla upp kofum án allra þæginda.  Sumir vinna sem burðarmenn, sem rogast með þungar byrðar á bakinu allan daginn fyrir lítinn afrakstur.  Fjöldi tyrkneskra múslima eykst stöðugt samtímis því, að kristnum og gyðingum fækkar.

Iðnaður.  Istanbul er stærsta hafnarborg landsins og miðstöð iðnaðar.  Aðalframleiðslan er vefnaðarvörur, hveiti, tóbak, sement og gler.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM