Mainz Þýskaland,
Flag of Germany


MAINZ
ÞÝZKALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Mainz er höfuðborg Rheinland - Pfalz.  Borgin stendur í 88 m hæð yfir sjó og þar búa u.þ.b. 190.000 manns.

Almennar upplýsingar.  Ríkishöfuðborgin og háskólaborgin Mainz er gamalt setur kjörfursta og erkibiskupa.   á vinstri bakka Rínarfljóts á móti mynni árinnar Main, sem rennur þar til Rínar.  Þessi merka söguborg í Mainzlægðinni, sem er nyrzti hluti Rínarsléttunnar, er þungamiðja viðskiptalífs á Rínar- og Mainzsvæðinu.  Hún er líka nefnd Gutenberg-borgin og er líka miðstöð vínviðskipta (freyðivínskjallarar), iðnaðar, verzlunar og samgangna við Rínarfljótið.  Þar eru aðalstöðvar ZDF og SWF sjónvarps- og útvarpsstöðvanna, útgáfufyrirtækja og hún er alkunn fyrir hina árlegu Fassenacht vínhátíð.

Sagan.   
Árið 38 fyrir Krist reistu Rómverjar herbúðir sínar, Moguntiacum, við gamalt aðsetur kelta.  Frá árinu 20 f.Kr. var þar aðalaðsetur yfirstjórnenda herja Rómar í Norður-Germaníu.  Árið 742 stofnaði Bonifatius erkibiskupsdæmið og Mainz varð háborg kristninnar í Þýzkalandi.  Bygging dómkirkjunnar hófst í stjórnartíð Willigis erkibiskups árið 975.  Árið 1184 hélt Barbarossa keisari ríkishátíð á Maaraue.  Á 13. öld var blómaskeið borgarinnar (Aurea Moguntia) sem miðstöð borga við Rín, sem var stofnað árið 1254.  Í kringum árið 1450 stofnaði Gutenberg, upphafsmaður prentlistarinnar með raðanlegum stöfum, prentsmiðju sína.  Hann byrjaði að þreifa sig áfram með þessa prentaðferð í kringum 1440.

Í stiftsdeilunum árið 1462 glataði borgin öllum réttindum sínum.  Dieter von Isenburg stofnaði háskólann á árunum 1476-1477.  Svíar lögðu borgina undir sig í þjátíu ára stríðinu (1618-1648).  Á 17. og 18. öldum, þegar kjörfurstarnir réðu ríkjum, rann upp annað blómaskeið og þá fékk borgin barokyfirbragð sitt.  Árið 1879 var hún lýðveldi og Goethe, sem var sjónarvottur að fallbyssuárásum á borgina sama ár, lýsti þeim skriflega.  Árið 1801 var Mainz höfuðborg frönsku sýslunnar Donnersberg og árið 1816 höfuðborg héraðsins Rheinhessen.  Í síðari heimsstyrjöldinni eyðulögðust u.þ.b. 80% gömlu miðborgarinnar.  Mainz hefur verið höfuðborg sambandsríkisins Rhein-land-Pfalz síðan 1950.

SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR.  Í miðborginni rís hæst hin sexturnaða dómkirkja hl. Marteins og Stefáns (bygging hennar hófst árið 975; mestar framkvæmdir á 13. og 14. öldum).  Hinn rómanski byggingarstíll rís hæst í henni og dómkirkjunum í Speyer og Worms.  Í kirkjunni eru mjög athyglisverðir grafsteinar biskupa og í krossgangi hennar er dómkirkju- og biskupsdæmissafnið.

Norðan kirkjunnar er nýlagfært (1975) kirkjutorgið með markaðsbrunni frá 1526.  Við norðausturhorn þess er Gutenbergsafnið (Heimssafn prentlistarinnar).  Þar er meðal annars að finna hina 42 línu Gutenbergbiblíu (1452-1455) og eftirmynd af setjarasal og prentáhöldum.

Í næsta húsi er stórverzlunin „Am Brand” (1974).

Ráðhúsið stendur á bakka Rínar (1970-1973).  Þar er einnig „Rínargullhöllin” (1968) og skammt þaðan „Járnturninn” (Eisenturm) og „Tréturninn” (Holzturm; frá 14. öld).  Báðir turnarnir eru leifar borgarmúra miðalda.

Sunnan dómkirkjunnar er gamli miðbær, sem skipt er í marga ferhyrninga.  Þar eru tvær skoðunarverðar kirkjur, Seminarkirkjan og kirkja hl. Ignaz.

Beint á móti minnismerkinu um Gutenberg (1398-1468), við samnefnt torg, er leikhúsið.

Vestar, við Schillertorg, eru fallegar hallir aðalsmanna og hinn upprunalegi Fastnachtbrunnur frá 1966.

Sunnar, ofan við Rínarbrúna, er kirkja hl. Stefáns (gotnesk; frá 14. öld) með afbragðsfallegum *steindum rúðum (1973-84) eftir Marc Chagall.

Skammt fyrir neðan Rínarbrúna er kjörfurstahöllin (17. og 18. öld) með hátíðarsölum og rómversk-germanska safninu, sem var stofnað árið 1852, og rannsóknarstofnun, sem annast athuganir á forsögulegum tímaskeiðum jarðar.  Þar eru söfn frá forsögulegum tímum, skeiði Rómverja og snemmmiðöldum auk rannsóknarstofa og verkstæða, sem annast viðgerðir gamalla muna.

Tvíturnuð Péturskirkjan (upphaflega frá 1752-1756) er við Grosse Bleiche og í fyrrum hesthúsi aðalsins er ríkissafnið (fornminjar og málverk).  Skammt austar er náttúruminjasafnið.

Sé haldið yfir Theodor-Heussbrúna (frá 1950) til Kastel í Wiesbadensýslu.  Kastel hét Castellum Mattiacorum á rómverskum tímum og var við sporð þáverandi brúar.

Háskólinn er á hæðum vestan borgarinnar.  Hann er kenndur við Johannes Gutenberg.  Suðaustan hans eru *Rómverjasteinarnir, rústir gamallar vatnsleiðslu.

Á milli úthverfanna Mombach og Gonsenheim er náttúruverndarsvæðið Mainzer Sand, þar sem hægt er að skoða athyglisverðan steppugróður.

Lerchenberg er u.þ.b. 7 km suðvestan borgarmiðjunnar á 205 m háu Lerkifjalli.  Þar eru nýjustu og beztu sendar ZDF-sjónvarpsstöðvarinnar og 70 m há bygging með aðalstöðvum hennar.  Fyrir framan hana eru nokkrar nútímahöggmyndir.

Umhverfi Mainz:
Rúmlega 15 km vestan borgarinnar á vinstri bakka Rínar er gamla vínþorpið Ingelheim með kastalakirkju og rústum keisarahallar frá tímum Karolingættarinnar.

Í Oppenheim, 20 km sunnan Mainz, er Katrínarkirkja (frá 13. - 15. öld), sem er heimsóknar virði.  Hún er eitt merkilegasta mannvirki frá gotneskum tíma við Rín.  Einnig er áhugavert að skoða þar Þýzka víngerðarsafnið.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM