Lübeck er stór hafnarborg í Schleswig-Holstein í
Norður-Þýzkalandi við árnar Trave og Wakenitz, u.þ.b. 14 km frá
Eystrasalti. Á miðöldum var hún ein mesta verzlunarborg
Norður-Evrópu undir yfirráðum Hansakaupmanna. Forn byggð á þessum
slóðum við ármót Schwartau og Trave, 6 km norðan núverandi miðborgar,
var kölluð Liubice. Þar var miðstöð slavnesks furstadæmis með
kastala og höfn. Adolf II af Holstein, greifi, stofnaði þýzku
borgina árið 1143 en hún eyðilagðist í eldi 13 árum síðar. Henry
III, hertogi af Saxlandi, byggði þarna nýja borg 1159. Hún
þróaðist hratt sem verzlunarmiðstöð útflutningslanda hráefnis í Norður- og Austur-Evrópu og framleiðslulanda í
Vestur-Evrópu.
Á árunum
1201-26 réðu Danir borginni en þá gerði Friðrik II hana að sjálfstæðri
ríkisborg. Hún laut eigin lögum og stjórn. Rúmlega 100 borgum við
Eystrasalt var veitt sams konar staða síðar og Lübeck varð að fyrirmynd
þeirra í efnahagsmálum og útliti. Árið 1358 gerðu Hansakaupmenn hana að
aðalstöðvum sínum, aðeins 8 árum eftir að svarti dauði hafði höggvið
stórt skarð í íbúafjöldann. Næstu áratugina færðist mikill auður til
borgarinnar en samtímis var óeirðasamt í borginni (1380-84 og 1408-16),
þegar handverksmenn mótmæltu aðgerðum borgarráðsins, sem var leiksoppur
Hansakaupmanna. Opnun Stecknitz-skurðarins árið 1398 greiddi mjög fyrir
flutningi salts frá Lüneburg. Snemma á 15. öld var Lübeck næststærsta
borg Norður-Þýzkalands (á eftir Köln) með u.þ.b. 22 þúsund íbúa.
Á árunum 1529-30 urðu miklar breytingar samfara siðbótinni.
Borgarráðið var sett af og byltingarmaðurinn Jürgen Wullenwever varð
borgarstjóri. Hann háði árangurslaust stríð gegn Dönum, Svíum og
Hollendingum, sem leiddi til efnahags- og stjórnmálalegrar hnignunar
borgarinnar. Lübeck hélt stöðu sinni sem mikilvægasta hafnarborgin við
Eystrasalt eftir að Hansabandalagið var leyst upp árið 1630. Borgin var
hlutlaus í Þrjátíuárastríðinu (1618-48) en á árum Frönsku
stjórnarbyltingarinnar og Napóleonsstyrjaldanna (1792-1815) hrundi
viðskiptalíf hennar vegna efnahagsþvingana samkeppnisaðila. Lübeck var
undir franskri stjórn á árunum 1811-13 og eftir 1815 var hún eitt
sambandsríkja Þýzkalands.
Lübeck var hluti Norðurþýzka bandalagsins eftir 1866 og eftir
1871 hluti þýzka keisaradæmisins. Efnahagur borgarinnar var
endurreistur með opnun Elbe-Lübeck-skipaskurðarins árið 1900.
Sjálfstjórnarskeiði borgarinnar frá 1226 lauk árið 1937, þegar
nasistastjórnin innlimaði hana í prússneska héraðið Schleswig-Holstein.
Í síðari heimsstyrjöldinni var mestur hluti hinnar sögulegu miðborgar
lagður í rústir í sprengjuárásum breta 28. marz 1942 en var endurbyggður
eftir stríðið. Íbúum borgarinnar fjölgaði gífurlega (um rúmlega 100
þúsund) vegna þýzkra flóttamanna, sem herir Sovétríkjanna hröktu á undan
sér í lok stríðsins.
Heinrich Mann (1871-1950) og bróðir hans, rithöfundurinn
Thomas Mann (1875-1955) voru afkomendur aðalsfjölskyldu í Lübeck, sem er
bakland skáldsögu hans „Buddenbrooks”.
Miðborgin komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987 vegna
velvarðveitts miðaldayfirbragðs mjórra, steinlagðra gatna og frábærlega
endurbyggðra húsa og verzlana auk kirkna, klaustra og opinberra bygginga.
Meðal sögulegra minnismerkja eru Maríukirkjan (13.-14. aldar, gotnesk
bygging), rómanska dómkirknar (bygging hófst 1173 í stjórnartíð Henriks
III) og stórkostlegt ráðhús borgarinnar (blanda gotnesks- og
endurreisnarstíls). Vatnaleiðir og græn svæði (almenningsgarðar) afmarka
útlínur miðborgarinnar, þar sem síki og borgarmúrar voru áður fyrr til
varnar árásum. Tvö borgarhlið milli tveggja turna standa sem minjar
varnarmannvirkja miðalda. Turnar borgarhliðsins (Burgtor; 1444) fengu
ný þök árið 1685 og hinir frægu Holstenturnar (1478), sem hafa hýst
Borgarsafnið frá 1950. Við súlnagöng
Holsteinhliðsins er blessaður
staður (CONCORDIA DOMI ET FORIS PAX
SANE RES EST OMNIUM PULCHERRIMA),
þar sem 850 ára afmæli borgarinnar
var haldið hátíðlegt árið 1993.
Lübeck er stærsta hafnarborg Þýzkalands við Eystrasalt og
mörg störf eru tengd höfninni. Ýmsar pappírs- og timburvörur, ávextir,
kornvara, farartæki, salt og áburður eru undirstaða flutninga um hana og
ferjusamgöngur eru mikilvægur liður í starfseminni. Annar mikilvægur
iðnaður borgarinnar byggist á skipasmíði, málm- og matvælavinnslu.
Fjármálastarfsemi, samgöngumál og ferðaþjónusta eru einnig mikilvægar
atvinnugreinar. Áætlaður íbúafjöldi árið 1996 var í kringum 217 þúsund.
Meðal skoðunarverðra staða borgarinnar eru **Holstenhliðið, *Maríukirkjan,
Mengenstraße 4, sem var tilefni skáldsögunnar Buddenbrookhússins eftir
Thomas Mann (1758; endurbyggt; var í eigu fjölskyldu rithöfundarins á
árunum 1841-91), Jakobskirkjan (14. öld; Brömbse-altari frá 16. öld og
síðgotneskt orgel), fyrrum Katrínarkirkjan (14. öld; hágotnesk við
samsíða götu) og *Heilagsanda spítalinn (13. öld; var að hluta
elliheimili í lok 20. aldar; beztvarðveitta sjúkrahús Þýzkalands frá
miðöldum; anddyri með síðgotnesku útskurðsaltari og veggmyndum frá
upphafi 14. aldar). Við enda Burgstraße, sem er framhald Königstraße,
er borgarhlið frá 1444 og leifar gamalla borgarmúra. Suðvestan
markaðarins er kirkja heilags Péturs (13.-14. öld; endurbyggð; gott
úrsýni úr turni. Við suðurmörk gamla borgarhlutans er tvíturnuð
dómkirkja (evangelísk), sem Ljón-Hinrik lét vígja 1173 (gotneskar
breytingar á 13.-14. öld; endurbyggð eftir síðari heimsstyrjöld). Í
kirkjuskipi hennar er skírnarsár frá 1455 og sigurkrossverk Bernts Notke
(1477). Náttúrugripasafnið er í viðbyggingu. Norðaustan dómkirkjunnar
er Safn heilagrar Önnu (í samnefndum, fyrrum klausturbyggingum. Það
gefur góða yfirsýn yfir listasögu Hansatímans frá snemmmiðölum til 19.
aldar. Í borgarhlutanum Travemünde er sóknarkirkja heilags Lorens (16.
öld) í miðjum gamla borgarhlutanum. Þar er hinn 158 m hái útsýnisturn
hótels Maritim, heilsubótarstaðir, spilavíti, öldusundlaug, sem er fyllt
sjó, heilsubótargarður og breið sjávargata.
Hinir 4 km löngu og 18 m háu *Brodtener-sjávarhamrar eru 1½
km norðan miðborgarinnar milli Travemünde og Niendorf. Einnig má nefna
golvöll, gistihúsið Hermannshöhe og útivistargarðinn Hansaland vi
Sierksdorf (19 km norðvestan Lübeck). |