Köln Þýskaland,
Flag of Germany


KÖLN
ÞÝZKALAND

.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

South PortalKöln í Nordrhein-Westfalen er í 36 m hæð yfir sjó.  Íbúafjöldinn er u.þ.b. 974.000.  Þessi gamla dómkirkjuborg við Rín er ein mikilvægasta samgöngu- og verzlunarmiðstöð Þýzkalands með heimsþekktum sýningahöllum og iðandi umferð á Rín.  Köln er erkibiskupssetur, háskólaborg með íþróttaháskóla, miðstöð sjónvarps og útvarps (WDR), háborg íþrótta (knattspyrna, veðreiðar o.fl.) og þar fara fram Rínarföstuinngangshátíðir.

Köln er einn brennidepla vestrænnar menningar með gömlum kirkjum og minjum frá rómverskum tímum.  Vöxtur borgarinnar frá örófi alda kemur vel í ljós.  Hringlaga götur sýna, hvar borgarmúrar Staufertímans voru og lengra frá hinni fornu miðborg er 10 km langur 'Grüngürtel', sem sýnir hin yngri prússnesku virki.

Köln óx upp úr rómversku nýlendunni Colonia Claudia Ara Agrippineses og tilheyrði Frankaríki frá lokum 5. aldar.  Karl mikili gerði hana að erkibiskupssetri og hún varð ein aðalborga Þýzkalands á miðöldum auk þess sem hún varð ásamt Lübeck aðalhansaborgin.  Árið 1248 var hornsteinn Kölnardómkirkju lagður og borgin varð ein heilagasta borg miðalda.  Árið 1388 var hinn gamli Kölnarháskóli stofnaður (endurstofnaður 1919).  Köln varð prússnesk með Rínarhéraðinu.  Í síðari heimsstyrjöldinni varð miðborgin illa úti og var endurbyggð eins og sést við Hohe Straße (verzlunarhverfið).

**Dómkirkjan.  Hágotneskt listaverk.  Ein af stærstu dómkirkjum Evrópu.  mesta og stærsta mannvirki, sem byrjað var að byggja á miðöldum (1248 og 1842-80).  Kirkjan stóð ófullgerð frá byrjun 16. aldar þar til framkvæmdir héldu áfram 1842.  Gólfflöturinn er 6155 m² með 56 súlum.  Þriggjakonungaskrínið yfir altarinu er meistaraverk gullsmíðinnar (eftir uppdráttum Nikulásar frá Verdun til varðveizlu helgra dóma, sem sóttir voru til Mílanó).

Í ganginum bak við kórinn er hin fræga kirkjubynd Stephans Lochners, Dýrkun konunganna, frá 1440 og við kórsúlurnar eru styttur úr góðmálmi frá 14. öld.
Í krosskapellunni er Gerokrossinn.  Í fjárhirzlunni eru margir fágætir dýrgripir, skríni, oblátubuðkur, hirzkur fyrir helga dóma o.fl.  Frá suðurturni (rúmlega 500 þrep og klukkur) er gott útsýni.

Við suðurhlið kirkjunnar er 'Rómversk-germanska safnið' með Dyonisos mósaíkmyndum frá 2. öld, 15 m háu minnismerki Pobliciusar frá 1. öld, rómverskum glösum, ílátum, tígulmyndum, olíulömpum og heilli götu úr hafnarhverfi.  Í fjárhirzlum eru germanskir gullskartgripir.

Preatorium walls

*Museum Ludwig með mjög góðu safni evrópskra málverka (Rembrandt, Manet, Renois, Leibl, Liebermann, Slevogt o.fl.) en aðaluppistaða safnsins eru myndir gerðar í gamla málaraskólanum í Köln.  Einnig er þar stórt safn koparstunguverka og nútímalistar.

**Kölnarvatnið fræga:  Eau de Cologne var nýr ilmur á tímum Jósefínu, konu Napóleons.  Í byrjun 18. aldar var Ítalinn Paul Feminis í Köln og kynnti nýtt ilmvatn, l'Eau Admirable.  Það var byggt á sítrusolíum, neroli, lemon, bergamott og lavender.  Um það bil öld síðar breytti einn afkomandi hans, Jean Farina, formúlunni, bætti í hana rosmarin og setti á markað nýja vöru, Eau de Cologne.  Þetta varð strax vinsælt og margir aðrir ilmvatnsframleiðendur hermdu eftir og gerðu þessa tvo menn að fyrirrennurum þessarar tegundar ilmvatns, sem selst vel enn þá.

Númerið á Kölnarvatninu, 4711, var númerið á vagninum, sem tæmdi kamra í Köln, nokkurs konar haugsuga þess tíma (heimild: markaðsdeild Flugleiða 1982),
Önnur skýring á númerinu er sögð vera frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar, þegar Frakkar hersátu borgina.  Þá gaf hershöfðinginn skipun um, að hús Kölnar skyldu númeruð og sendi hermenn á stúfana til að framfylgja henni.  Þetta númer, 4711, var málað yfir dyr Mühlens búðar-innar við Bjöllustræti (heimild: póstkort frá Köln, sem er í spjaldskrá).

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðum Farina ilmsafnsins eru upplýsingarnar um Kölnarvatnið hér að ofan rangar og hér á eftir fylgir endursögn úr þýzka  textanum á vefsetri safnsins:
Saga Kölnarvatnsins er víða þokukennd og villandi, þótt hún liggi í raun og veru í augum uppi, sé aðgengileg, skiljanleg og byggð á traustum heimildum.  Á vefsetri skjalasafns Rín-Vestfalen (
"Rheinisch-Westfälischen Wirtschafts-Archiv")  eru til upprunalegar, skjalfestar upplýsingar um öll viðskipti, bréfaskriftir, deilur og fasteignir síðan 1709.

Árið 2006 bárust fréttir um, að framleiðslu körnarvatnsins hefði verið hætt.

Farinaskjalasafnið
, sem hleypur á
300 hillumetrum í skjalasafninu, er án alls efa fullkomnasta safn verzlunarsögu nokkurs fyrirtækis norðan Alpafjalla.  Þar er að finna einstaka sögu ilmefnis þrjár aldir aftur í tímann.  Auk þess er að finna 80 hillumetra af upplýsingum í skjalasafni Farinaskjalasafninu í Köln, þar sem saga Farinafjölskyldunnar er rakin frá Ítalíu aftur til 13 aldar.  Í skáldsögunni „Ilmvatnið” eftir Süskind er lýsing á ilmi Kölnarvatnsins rakin.

Cölln var stærsta borgarsamfélag í Evrópu á miðöldum, stundum kölluð „Róm norðursins”.  Árið 1709 var hún mjög óþrifaleg og árið 1667 geisaði síðasta pestin, sem gekk yfir Evrópu fyrir þann tíma.  Himinn og haf skildu milli ríkra og fátækra.  Ruslahaugar hlóðust upp á götum borgarinnar.  Torgin voru þakin hrossataði.  Sútarar stunduðu sútuðu gærur í opnum keröldum og helltu baneitruðum sútunarvökva í ár og læki, sem bera sumir nöfn með tilvísun til þessarar iðju (Rothgerberbach, Blaubach o.s.frv.).  Af og til flæddi Rín yfir bakka sína og fleytti öllum úrgangnum brott úr borginni.  Göturnar Obermarspforten og Große Budengasse, sem nefndar verða síðar í þessum texta, voru aðalsamgönguæðar að mörkuðum borgarinnar og höfninni.  Kirkjur og klaustur í kirkjugörðum og garðar með vínviði og öðrum jurtum voru í miðborginni.  Það tók borgarbúa langan tíma að byggja upp viðskipti og handverk að loknu Þrjátíuárastríðinu (1618-48).

Gyðingar og mótmælendur máttu ekki setjast að í borginni, iðngildin voru enn þá miðaldarleg og katólskum var einum leyfð búseta.  Öldum saman áttu borgarbúar mikil viðskipti við íbúa Apennínaskagans (Ítalíu) og tengslin eru enn þá áberandi.  Hin gamalgrónu iðngildi borgarinnar vörðust innflutningi iðnvarnings og leyfðu aðeins verzlun með vörur, sem voru ekki framleiddar þar.

Talsverður hópur Ítala bjó í borginni.  Johann Baptist Farina stofnaði verzlun með franskar lúxusvörur á horni Großer Budengasse og Unter Goldschmied.  Meðal söluvöru hans var silki, kniplingar, svipur og ilmhanzkar en þó einkum dýr kryddvara og ilmvötn, sem voru kölluð furðuvatn og ungverskt vatn (aqua mirabilis; eau de la reine de Hongrie), englavatn og keisaravatn.

Sambönd Ítala á Rínarbökkum voru bundin sterkum fjöskyldutengslum eins og kemur greinilega fram í bréfum frá því um 1700.  Styrkur þessara viðskiptatengsla kom fram á mörgum sviðum, s.s. þegar talsverðu magni af tóbaki var stolið frá fyrirtækinu Renouard í Frankfurt og þjófurinn reyndi að bjóða Farina það til kaups.  Hann hafði þegar frétt af stuldinum og lét handtaka þjófinn.

Á þessum tíma var franska aðalviðskiptamálið.  Kaupmennirnir og starfsfólk þeirra talaði og skrifaði frönsku en hugsuðu eftir ítölskum línum.  Á þessum tíma var farið að gefa út bækur á þýzku (Grimmelshausen).  Árið 1709, þegar Farina stofnaði fyrirtæki sitt í Köln, uppgötvaðist borgin Pompei, sem huldist ösku árið 79, fyrir tilviljun.  Árið 1714 tók bróðir hans, Johann Maria Farina, ilmgerðarmaður, til starfa við fyrirtækið með ilmskyn sitt.

Lyktarskyn okkar er meðfætt en kornabörn gera ekki greinarmun á „góðri eða vondri” lykt.  Slíkt skyn þróast eftir aðstæðum hvers og eins, er sem sagt áskapað eða áunnið.  Mismunandi mat á lykt er bundið félagslegum aðstæðum og tízkustraumum og við lok miðalda og síðar var mikið notað af ilmefnum til að bæla niður fnyk óþrifnaðar í höllum aðalsmanna og konunga, þar sem menn gerðu stykki sín á bak við gardínur og svo var spúlað út einu sinni á dag.

Saga Kölnarvatnsins byggist á þessum staðreyndum.  Hér verður reynt að lýsa notkun ilmefna, krydds og ilmvatna á átjándu öld.  Nú á dögum getum við upplifað svipaðar aðstæður hjá egypzkum og marokkóskum ilmefnakaupmönnum á útimörkuðum og ríktu í Köln, þótt loftslagið sé öðru vísi.  Hver framleiðandi skipaði sér sinn sess með sérstökum blöndum ilm- og kryddefna og áfengis.  Þannig varð Kölnarvatnið til úr Farina furðuvatninu og Johann Maria Farina merkti sér það með nafni og innsigli.  Hann lýsti ilminum af Kölnarvatninu sem ítölskum vormorgni og anganinni af fjallanarissum og blómum appelsínutrjáa eftir rigningu.  Ilmurinn er hressandi fyrir mig og styrkir huga minn og ímyndunarafl.

Köln heiðraði Johann Maria Farina með styttu, sem var afhjúpuð í ráðhúsi borgarinnar, þar sem hún stendur enn þá.  Hann dó árið 1736.  Fæðingarár er ókunnugt.

Hér verður ekki kafað dýpra í sögu Kölnarvatnsins en forvitnir geta aflað sér nánari upplýsinga á vefsetri fyrir tækisins Farina ilmsafnsins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM