Kiel Þýskaland,
Flag of Germany


KIEL
ÞÝZKALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Kiel er höfuðborg Slésvík-Holstein í 5 m hæð yfir sjó.  Þar er haldin þjóðhátíð í febrúar hvert ár og í júlí er vikulöng siglingarkeppni með menningardagskrá.  Þessi gamla hafnar- og háskólaborg er við hinn 17 km langa Kielfjörð.  Þar eru skipasmíðar mikilvæg atvinnugrein og áætlunarferjur sigla þaðan til Norðurlanda.  Véla- og tækjaframleiðsla auk elektrónískra nákvæmnistækja og fiskvinnslu veitir mörgum atvinnu.  Kiel er líka herskipahöfn, stjórnstöð og menntasetur sjóhersins.  Vegna þessara þátta varð borgin illa úti í síðari heimsstyrjöldinni, sem skýrir nútímalegt útlit hennar.

Adolf IV, greifi af Schauenburg í Holstein, stofnaði borgina á 13. öld.  Í valdatíð sonar hans, Jóhanns I, fékk borgin réttindi frá Lübeck og árið 1283 komu Hansakaupmenn sér þar fyrir. Christian Albrecht, hertogi í Holstein-Gottorf, stofnaði háskólann árið 1665.  Landsstjórnin kom saman í Kiel árið 1848 gæta réttar landsins gegn Danmörku.  Árið 1865 varð borgin aðsetur prússneska sjóhersins og hún tók að vaxa hratt.  Fyrsta siglingakeppnin í Kielfirði var haldin árið 1882.  Árið 1895 var Wilhelmsskurðurinn opnaður.  Núna heitir hann Norðursjávar-Eystrasaltsskurðurinn en við nefnum hann oftast Kielskurðinn.  Siglingakeppnir sumarólympíuleikanna 1936 og 1972 fóru fram á Kielfirði.

Nikolaikirkjan (síðgotnesk).  Henni var breytt á 19. öld og endurbyggð eftir síðari heimsstyrjöldina.

Óperuhúsið frá 1952-53 og viðbygging frá 1973.

Nýja ráðhúsið með 106 m háum turni var byggt á árunum 1907-11.  Þaðan er gott útsýni.  Skammt þaðan er Eystrasaltshöllin, sem var byggð fyrir stórathafnir og hátíðir.

Óslóbryggjan, sem þjónar ferjum milli Kiel og Skandínavíu.

Listahöllin, sem aðallega sýnir verk listamanna frá fylkinu.

Dýrafræðisafnið, hafrannsóknarstofnunin með sædýrasafni og grasagarðurinn eru skoðunarverð.

Þinghúsið (Landeshaus) er niðri við Kielfjörð.

Holtenauer flóðgáttirnar við Kielskurðinn.  Þar er hægt að fylgjast með skipaumferð og hækkun og lækkun í flóðgáttunum við Eystrasaltsenda þessa 99 km langa skipaskurðar.

Ólympíumiðstöðin
og Ólympíuhöfnin er í hverfinu Schilksee.  Hvort tveggja var byggt fyrir leikana árið 1972

*Útisafnið er í sunnanverðu Rammseehverfinu.  Þar eru gamlir, endurbyggðir bóndabæir og handverkssýningar frá öllum landshlutum.

*Minnismerki sjóhersins Laboe er 20 km norðan við Kiel.  Það var byggt í líki skipsstefnis 1927-36 en þjónar til minningar um fallna sjóliða beggja heimsstyrjaldanna.  Minnismerkið er 72 m hátt með útsýnispalli og lyftu.  Rétt hjá því er kafbátasafn, U 995.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM