Freiburg
í Baden-Württemberg er í 278 m hæð yfir sjó.
Íbúafjöldinn er u.þ.b. 176.000.
Freiburg er miðstöð verzlunar, stjórnarsetur, biskupssetur og
háskólaborg milli Svartaskógar og Keisarastóls á Rínarsléttunni.
Schauinslandfjall (1.284 m) er innan borgarmarkanna og beint
austur af borginni opnast Höllental (Hirschsprung).
Freiburg er borg skógarins, gotneska stílsins og vínsins.
Dómkirkjan gnæfir hátt yfir borgina.
Vínrækt er mikið stunduð umhverfis Freiburg og þar er vínræktarstofnun ríkisins.
Freiburg
er menningar- og menntamiðstöð með hljómlistar-, kennara- og
meistaraskólum fyrir myndhöggvara og steinsmiði auk margra safna og
fjörugs leikhúss- og tónlistarlífs.
Við
Oberlindengötu stendur elzta veitingahús landsins: Zum Roten Bären
(1311).
Í
lok 11. aldar stofnuðu hertogarnir í Zähringen markaðs- og
verzlunarstað við múra hallar sinnar.
Verzlunarleiðir milli Svabalands og Elsass lágu þar um hlað.
Berthold III, hertogi, og bróðir hans veittu bænum kaupstaðaréttindi
árið 1120. Verzlunin og
silfurnámum í Svartaskógi tryggðu viðgang bæjarins og hann óx til
þess að verða voldugasta borgin í Breisgau.
Zähringerættin dó út með Berthold V hertoga.
Þá tóku við greifarnir frá Urach, sem kenndu sig síðan við
Freiburg. Árið 1368
keypti borgin sig lausa frá greifunum og tengdist Habsborgurum.
Árið 1457 stofnaði Albrecht erkihertogi háskólann.
Síðar varð
Freiburg virkisborg.
Að skipun Napóleons 1805 varð Freiburg hluti nýstofnaðs stórhertogadæmis,
Baden, og sleit tengslin við Austurríki.
Árið 1827 varð Freiburg setur erkibiskups.
Árin 1947-52 varð borgin setur ríkisstjórnar Suður-Baden en
síðan voru Baden og Württemberg sameinuð. |