Þessi
sögufræga og fyrrum mikilvæga verzlunar- og háskólaborg er í 243 m
hæð yfir sjó í víðum dalboga Geraárinnar í Erfurthéraði í Thüringenlægðinni.
Þar voru haldin kirkju- og veraldleg þing, furstar Napóleons
funduðu þar og fyrsta garðyrkjusýningin var haldin þar 1838.
Nú er borgin aðalmiðstöð menntunar og menningar, iðnaðar
og stjórnsýslu í Thüringen. Auk
málm- og léttari iðnaðar hefur viðskiptalífið tekið kipp í míkróelektróník.
Garðyrkjusýningin (iga) laðar til sín hundruð þúsunda
gesta ár hvert.
SAGAN. Bonifatius
stofnaði biskupsdæmið Erfurt árið 742, en það var sameinað
Mainzbiskupsdæmi skömmu síðar.
Árið 805 varð Erfurt að verzlunarstað við landamæri
Frankenríkisins og farið var að höndla við slava.
Vaðið á ánni Gera var fyrrum á aðalleiðinni (Konungsvegi;
Via Regia) til Rússlands og staðurinn fékk nafnið Erphesfurt.
Þessi lega olli þróuninni í átt að velmegandi verzlunarborg
og á 14. og 15. öld blómstraði hún.
Viðskipti með litarefnið Wald (blátt) og landbúnaðarafurðir
skipuðu henni í flokk með ríkustu verzlunarborgum landsins.
Þessi auður gerði borgurum kleift að stofna háskóla árið
1392. Hann er næststærstur
háskóla í Mið-Evrópu (á eftir Prag) og hinn elzti í fyrrum
Austur-Þýzkalandi. Prússar
lokuðu honum árið 1816. Þar
nam Martin Luther á árunum 1501-05 áður en hann gekk í Ágústínaklaustrið
(prestur 1507). Smám saman
óx mikilvægi Leipzigborgar sem verzlunarborg á kostnað Erfurt. Einkum kom sér illa, að kaupmenn í Leipzig fluttu inn ódýrt
litarefni (indigo; dökkblátt). Árið
1664 lögðu ráðamenn í Mainz borgina undir sig með valdi. Á 18. öld blómstraði landbúnaður og garðyrkja á ný
og Christian Reichert (1685-1775; minnismerki við flóðaskurðinn) auðgaðist
af nýjum uppgötvunum í fræræktun, sem opnaði nýjar leiðir í
landbúnaði alls landsins. Í
upphafi 19. aldar var garðyrkjan leiðandi atvinnuvegur í Erfurt.
Á
síðasta þriðjungi 18. aldar varð Erfurt að fundarstað margra
andans manna, s.s. Goethe, Schiller, Herder og W. von Humbolt, fyrir
milligöngu Karl Theodor barons af Dalberg, sem var þá aðstoðarmaður
biskups í Mainz. Samtímis
óx íbúum Erfurt fiskur um hrygg í viðskiptalífinu.
Árið 1802 varð borgin prússnesk og 1806 frönsk um tíma.
Á furstadeginum 1808 sýndi Napóleon Alexander I, keisara,
veldi sitt. Árið 1815 náðu
Prússar borginni endanlega undir sig.
Í uppreisninni 1848 var barizt í skjóli götuvígja í
borginni og árið 1850 kom þar saman þing ríkjasambandsins.
Árið 1891 var haldinn hátíðlegur flokksdagur sósíaldemókrata
í Erfurt og ákvörðun var tekin um stefnuna, sem var kölluð
Erfurtprógrammið.
Í
framhaldi af ríkisstofnuninni 1871 voru borgarmúrarnir jafnaðir við
jörðu 1873 og iðnbyltingin hófst fyrir alvöru.
Árið 1871 var íbúafjöldinn 48.000 en árið 1906 100.000.
SKOÐUNARVERÐIR
STAÐIR. Gamli
bærinn í Erfurt varð fyrir nokkrum sköðum í síðari heimsstyrjöldinni
en lítur að mestu leyti eins út og fyrrum.
Í gegnum tíðina hafa húsin verið endurnýjuð eða endurbyggð
í sömu mynd. Aðalkennimerkin
eru kirkjurnar tvær, dómkirkjan og Severikirkjan, á Dómkirkjuhæðinni
í hjarta borgarinnar.
*Dómkirkjan
var stofnuð 742. Hún var
endurbyggð í rómönskum stíl 1154.
Hágotneskum kór var bætt við hana á árunum 1349-70.
Hann hvílir á uppfyllingu á hæðinni.
Á árunum 1455-65 var ráðist í byggja á ný og risastóru
valmaþaki var komið fyrir á kirkjuskipunum þremur.
Þessi bygging var endurnýjuð í upprunalegri mynd á árunum
1967-69. Kirkjuturnarnir þrír voru með háa kúpla, líkt og
Severikirkjan á miðöldum en turnspírunum var bætt við á 19. öld. Í miðturninum er einhver stærsta kirkjuklukka veraldar,
Mater Gloriosa, sem er þekkt fyrir ljúfan hljóm.
Glugginn í kórnum er 15 m hár og skreyttur steindu gleri frá
miðöldum, sem er meðal mestu dýrgripa Þýzkalands.
Gripir kirkjunnar eru margir ótrúlega fagrir, s.s. barokháaltari,
kórstólarnir (14.öld), gipsmadonnan, Wolframtáknið (bæði frá
1160) og grafsteinn greifans af Gleichen með báðum konum sínum (frá
miðri 13. öld)
*Severinkirkjan
er snemmgotnesk og ríkulega búin hallarkirkja með fimm skip.
Hennar er fyrst getið árið 1121.
Helztu dýrgripir hennar eru líkkista heilags Severus og 15 m hár
skírnarfontur, sem er eitt meistaraverka höggmyndarlistar í Erfurt.
Milli kirknanna er 70 þrepa trappa, sem liggur til þeirra
beggja.
Péturskirkjan.
Petersberg er andspænis Dómkirkjuhæðinni.
Þar var fyrrum Pétursklaustrið, sem var byggt1060 og
endurbyggt 1103-1147. Árið
1813 brann það, þegar virkið varð fyrir skothríð. Péturskirkjan er rómönsk súlnakirkja með þremur skipum.
Hún er meðal fyrstu stórbyggingum Hirsauskólans á landi Thüringen.
Enn þá standa rústir fyrrnefnds virkis (1664-1707).
Útsýni er gott yfir Erfurt ofan af hæðinni.
Mörg
hinna fallegu húsa við Dómkirkjutorgið stóðu óskemmd eftir skothríðina
1813, s.s. Græna apótekið (18.öld) og endurreisnarhúsið „Zur
Hohen Lilie”, sem var endurnýjað 1964-69.
Markaðsgatan liggur inn á torgið austanvert.
Hún var fyrrum hluti Konungsvegarins og setur kaupmanna og krambúða.
Miðborgin
Fiskmarkaðurinn.
Markaðsgatan liggur að Fiskmarkaðnum, þar sem verzlunargöturnar
mætast. Þar er Roland frá
1591 og húsið Rauði uxinn (1562), sem er ríkulega skreytt
endurreisnarbygging, eins og húsið Breiða eldstóin norðan torgsins.
*Ráðhúsið
er mikilfenglegasta húsið við Fiskmarkaðstorgið (nýgotneskt;
1869-71). Það hýsir mörg
málverk byggð á sögu og ævintýrum Thüringen í hátíðarsalnum.
*Mangarabrú
(Krämerbrücke) er steinsnar frá ráðhúsinu.
Hún var byggð í tenglsum við verzlunarleiðina við Geravaðið
og var fyrst getið árið 1117. Báðum
megin brúarinnar eru falleg hús.
Þau voru alls 62 fyrrum en hefur fækkað.
Við þessar götur eru einkum listmunaverzlanir og fornsölur.
Mikaelsgata
(Michaelisstraße) liggur til beggja átta áður en komið er að brúnni.
Endi hennar er gjarnan kallaður „Steinsaga Erfurt”.
Þar eru gömul borgarahús og hús nr. 39 hýsti gamla háskólann
(1392-1816), sem naut þjónustu frægra kennara.
Þar er nú vísindabókasafn, sem innifelur m.a. hið heimsfræga
safn „Amploniana” (545 bindi með 4000 einstökum handritum frá 15.
öld og eldri tímum).
Englaborg
(Engelsburg) er fornmenntahús við Allraheilagagötu.
Þar var félag stofnað um fornmenntir 1511 til heiðurs Crotus
Rubeanus og Ulrich von Hutten.
Ágústínaklaustrið
(1277) og kirkja (1290-1350) þess eru við Ágústínagötu.
Þarna dvaldi hinn ungi Martin Luther á mest afgerandi æviskeiði
sínu. Stjórnsetur
klaustursins (1570-1593) er enn þá varðveitt.
Sögusafn
borgarinnar
er við Leningötu meðal annarra fallegra húsa.
Húsið, sem hýsir það heitir „Zum Stockfisch” (1607; síðendurreisnarstíll).
Flest húsanna frá svipuðum tíma voru gerð upp á árunum
1969-73.
Minningarhús
verkalýðsins
er í húsi við Fóðurgötu. Í
fundarsölum hússins var fundað árið 1891, þegar Erfurtáætlun sósíaldemókrata
var samþykkt. Núverandi
útlit hússins er frá 1831-32. Þegar
furstarnir funduðu þar 1808, hittust þar Napóleon og Alexander I
keisari Rússlands.
Kaupmannakirkjan
er nálægt hinum enda Leningötu.
Hún er ríkulega skreytt að innan í endurreisnarstíl.
Foreldrar tónskáldsins Johanns Sebastian Bach vor gefin saman
í þessari kirkju.
*Anger.
Leningatan
endar í Anger, sem er ein elzta gata borgainnar.
Öll hús hennar hafa verið gerð upp og þar er fjöldi
verzlana og veitingahúsa. Á horni hennar og Trommsdorfgötu er Ursulinenklaustrið.
Þar er fjöldi listmuna í einangrunarhlutanum, sem er ekki aðgengilegur
almenningi. Alexander I, Rússakeisari
dvaldi í húsi nr. 6 árið 1808.
Húsið nr. 11 heitir „Zum Schwarzen Löwen”.
Í þrjátíuárastríðinu bjó fjölskylda og hirð Svíakonungs
þar og þar fékk María-Elenóra fréttirnar af falli manns sins, Gústafs
II Adolfs, í orrustunni við Lützen 1632.
Packhof
er á horni Anger og Brautarstöðvargötu.
Þetta er ríkulega skeytt barokbygging kjörfurstanna í Mainz.
Hún hýsir nú mikilvægt listasafn.
Bartólomeusarturninn
eða leifar hans eru frá 12. öld.
Hann var hluti fjölskyldukirkju Thüringergreifanna af Gleichen,
sem bjuggu í borginni. Síðan
1979 hefur verið það klukkuspil með 60 klukkum frá Apoldaer
klukkusteypunni.
Landstjórahúsið
og tilheyrandi byggingar eru mikilfenglegustu veraldlegu byggingar gamla
borgarhlutans. Húsið sjálft
var unnið upp úr tveimur eldri byggingum aðalsmanna á árunum
1711-20. Það er skreytt
í endurreisnarstíl og forhliðin er í barokstíl.
Hátíðarsalurinn er 200 m².
Þar hitti Goethe Napóleon 1808.
Skáldið bjó gjarnan í húsnæði hirðar hertoganna af
Sachsen-Weimar í grenndinni, við Regierungsstraße 72.
Staðir tengdir Schiller.
Á horni Regierungsstraße og Lange Brücke var fyrrum gistihúsið
„Zum Schlehendorn”, þar sem Friedrich Schiller gisti, þegar hann
kom til Erfurt. Hann fékk
síðar íbúð í húsi nr. 36 við Löngubrú.
Þar vann hann að bók sinni „Þrjátíuárastríðið” árið
1791.
Kirkjur.
Fyrrum voru allt að 36 kirkjur og kapellur auk 15 klaustra
í borginni Þær
voru endurnýjaðar með mikilli natni..
Eftirfarandi kirkjur eru þess virði að nefna þær:
Berfætlingakirkjan er prýdd elztu steindu rúðum
borgarinnar (13. öld) auk meistaralega vel gerðum grafskreytingum.
Predíkarakirkjan verður eiginlega að teljast með dómkirkjunni
og söfnum borgarinnar vegna þess, hve mikið er af listmunum í henni.
Nærri þessari kirkju við sömu götu nr. 7 er eitt af fáum
rokokkohúsum borgarinnar. Brunnkapellan
þjónar tveimur hlutverkum fyrir heimspeki- og guðspekideild prestaskólans,
sem guðshús og til mælskuþjálfunar.
Neuwerkkirkjan er þekkt fyrir ríkulegar barokskreytingar
innandyra. Lórenskirkjan. Þar
var þýzka tungan notuð fyrst í tengslum við grafahöggmyndir.
Reglerkirkjan státar af stærsta útskorna altari, sem
var unnið í Erfurt á árunum 1450-60.
Schottenkirkjan er elzta kirkja borgarinnar (fyrir 1150)
og eitt fárra mannvirkja í rómönskum stíl, sem stendur enn þá.
Þjóðminjasafnið
er í fyrrum höfðingjahúsi við Juri-Gagarin-Ring.
Þar er að finna margt athyglisvert úr sögu Erfurt.
Alþjóðlega
garðyrkjusýningin
(iga) fer fram ár hvert á svæði fyrrum Cyriakshallar, þar sem enn
standa miðaldamúrar í borginni sunnanverðri.
Sýningarsvæðið er u.þ.b. 100 ha.
Garðyrkjusafnið er á svæðinu meðal húsa garðyrkjuskólans.
Það minnir á fyrstu garðyrkjusýninguna 1838.
Stjörnuathugunarstöðin og útsýnisturninn eru í sitt hvorum
turnum fyrrum virkis. Milli
turnanna er gömul litvinnslumylla, sem minnir á blómaskeið Erfurt á
miðöldum.
Steigerskógur
er vinsælt útivistarsvæði með 20 km löngum göngustígum.
Dýragarður
Thüringen
er í norðurhluta borgarinnar á Rauðabergi.
Þar eru u.þ.b. 1100 dýr.
*Molsdorfhöllin
er meðal fegurstu rokokkobygginga í Thüringen.
Ríkisgreifinn Gotter lét byggja hana sem lystihöll á árunum
1736-45 skammt suðvestan Erfurt. Þar
er nú safn og veitingahús. Fallegur
garður frá 1826. |