*Königsallee er glæsileg
verzlunar- og rápgata með fjölda góðra verzlana, veitinga- og
kaffihúsum. Hún liggur báðum
megin gamla borgarsíkisins frá Graf Adolfstorgi norður að hallargarðinum.
Vestar, samhliða Königsallee, liggur Breiðgata með bönkum og
skrifstofubyggingum stórra iðnfyrirtækja og Heinrich Heine Alle, þar
sem stendur fyrsta háhýsið, sem var byggt í Þýzkalandi.
Það er kallað Wilhelm-Marx-húsið og var byggt á árunum 1924-26. Óperan er lengra til hægri og til vinstri er listahöllin
með skiptisýningum. Á
bak við listahöllina er Andreaskirkjan í barokstíl.
Austan
Königsallee er breiðgatan Berliner Allee.
Þar standa byggingar verzlunarráðs, Iðnráðs og kauphöllin.
Við Jan-Wellemtorg er 26 hæða Thyssenháhýsið og litlu
austar er nýja leikhúsið.
Í
hallargarðinum, sem var gerður 1767 stendur Veiðihöllin
(Jagdhof; 1752-63). Hún hýsir
listasafn Nordrhein-Westfalen, m.a. Paul-Klee postulínssafnið, sem
geymir gamla Meissengripi. Málarakassinn,
hús Félags listamanna, er þarna í grenndinni.
Goethesafnið er í húsi nr. 1 við Jägerhofstrasse.
Norðan hallarinnar er Rochuskirkjan, 28 m há kúpulbygging, sem
var endurbyggð árið 1955.
Vestarlega
í gamla borgarhlutanum er markaðurinn.
Þar er Ráðhúsið, sem H. Tussmann byggði á árunum 1567-73,
og riddarastytta kjörfurstans Johann Wilhelm II, sem G. Grupello
steypti árið 1711. Hetjenssafnið
(keramíkgripir) er í Nesselrodehöll, sem er sunnan markaðarins og í
Speehöllinni er Borgarsögusafnið.
Menningar- og fræðslumiðstöðin er austar, við Bilkergötu.
Þar er m.a. Heinesafnið og Brúðuleikhús, sem kennt er
við Rín. Enn þá sunnar
við Rín er Mannesmannháhýsið (26 hæðir). Norðan markaðarins er endurbyggð Lambertuskirkjan,
upprunalega frá 13.-14. öld.
Vestan
gamla borgarhlutans rennur Rín til norðurs undir Oberkasselerbrú.
Sunnan brekkunnar upp í hallargarðinn er Listaakademían.
Þar norður af er Ehrenhof með fjölda bygginga, sem W. Kreis
byggði á árunum 1924-26. Því næst kemur reiðhöllin og *Ríkissafnið (Landesmuseum),
sem er kallað Fólk og viðskipti.
Það gefur yfirlit yfir félagslíf og viðskipti um allan heim.
*Listasafnið með listiðnaði, málverkum og höggmyndum
frá miðöldum, einkum eftir listmálara borgarinnar á 19. og 20. öld.
Vörusýningasvæðið er 2½ km norðar.
Þar er ráðstefnumiðstöð og Rínarleikvangurinn fyrir 68.000
áhorfendur. *Japanski garðurinn
er í svokölluðum Norður-skemmtigarði.
NÁGRENNI
DÜSSELDORF
Benrathhöllin er í
Benrathhverfinu, 10 km suðaustan borgarmiðjunnar.
Hún var byggð á árunum 1756-73 í rokokkostíl (N. de Pigage)
með fögrum skreytingum innanhúss og garði.
Kaiserswerth er 10
km norðvestan borgarmiðjunnar. Þar
eru rústir Barbarossahallar og klausturkirkjunnar St. Suitbertus (13.
öld).
Neanderdalur
er 10 km austan borgarinnar. Þar
er forsögulegt safn og dýragarður.
Minidomm
er 16 km norðaustan borgarmiðjunnar.
Þar eru líkön sögulegra og
nýrra bygginga Þýzkalands |