Bremen Þýskaland,
Flag of Germany


BREMEN
ÞÝZKALAND
.

.

Utanríkisrnt.

Hansaborgin Bremen er í 5 m hæð yfir sjó.  Íbúafjöldinn er u.þ.b. 600 þúsund.  Hún er í 57 km fjarlægð frá hafnarborginni Bermerhafen og er höfðuborg fylkisins Bremen.  Höfnin er önnur stærst í landinu og þar fer fram mikil umskipun alls konar kornvöru, baðmullar og tóbaks svo eitthvað sé nefnt.  Milli dómkirkjunnar og árinnar Weser er Böttcherstraße með markaðstorginu og Schnoor, sem er elzti hluti borgarinnar.  Bremen hefur verið háskólaborg síðan 1970.  Þar eru einnig skipasmíðastöðvar, stálframleiðsla, olíuhreinsun, elektrónískur iðnaður, bílaverksmiðjur, vefnaður, kaffibrennsla og bjórverksmiðjur.

Borgin varð að biskupssetri árið 787 fyrir tilverknað Karls mikla keisara.  Frá 845 sat þar erkibiskup.  Biskupsdæmi Aðalberts erkibiskups (1043-1072) teygði sig alla leið til Grænlands.  Árið 1358 voru samtök Hansakaupmanna stofnuð.  Árið 1646 varð Bremen að frjálsri ríkisborg.  Árið 1827 stofnaði borgarstjórinn í Ruhr hafnarborgina Bremerhafen.  Á tímabilinu 1886-1895 voru skipaskurðirnir tengdir Weser gerðir færir stórum skipum til Bremen.  Eftir enduruppbyggingu borgarinnar í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar breyttist útlit borgarinnar mikið.


Skoðunarverðir staðir
Á fallegu markaðstorginu fyrir framan ráðhúsið stendur hið 5,4 m háa minnismerki um sjálfstæði borgarinnar, *Roland (1404).  *Ráðhúsið er fögur, gotnesk tíglusteinabygging frá 1405-10.  Það fékk forhlið í endurreisnarstíl á árunum 1609-12.  Stóri salurinn (40x13m) er meðal fegurstu hátíðarsala landsins.  Þar hanga falleg málverk, þ.á.m. Salómónsdómurinn frá 1537.  *Ráðskjallarinn er vestan gamla ráðhússins.  Þar eru boðin þýzk afbragðsvín (hið elzta er Rüdesheimer frá 1653).  Í Hauffsalnum eru freskur frá 1927 eftir Max Slevogt byggðar á „Draumsýnum í Ráðskjalla Bremen” frá 1827 eftir Wilhelm Hauff.  Við norðvesturturninn er bronzstytta tileinkuð tónlistarmönnum Bremen eftir Gerhard Marks (1953).

Dómkirkjan, helguð hl. Pétri, er frá 11., 13. og 16. öld.  Turnarnir eru 98 m háir.  Þeir voru endurnýjaðir 1888-89.  Predikunarstóllin er í barokstíl (1638).  Hann var gjöf til Kristínar drottningar í Svíþjóð.  Í blýkjallaranum eru órotnuð og þornuð lík.  Andspænis kirkjunni er Borgarahúsið frá 1966.  Aðeins vestar er „Schütting” (1537-38), elzta gildishús kaupmannastéttarinnar.  Þar hefur Verzlunarráðið haft aðsetur frá 1849).  Bak við það hefst hin þrönga *Böttcherstraße.  Kaffikaupmaðurinn Dr. L. Roselius kostaði breytingu hennar úr handiðnaðargötu í safnagötu á árunum 1926-30.  *Schnoorhverfið (listamannahverfi) er elzta og mest hrífandi borgarhverfið í Bremen.  Þar eru híbýli manna frá 15.-18. öld. og aðlaðandi, gamlar krár.

Suðaustan borgarmúranna og síkjanna í kringum gamla borgarhlutann er *Listasafnið við austurhliðið.  Vestan brautarstöðvartorgsins, norðan Schnoorhverfisins, er *Útlandssafnið með munum og minjum um þjóðir, náttúrufar og viðskipti og nýjasta viðbótin er Ólympíusafn.  Í kjallara safnsins er sæ- og landdýrasafn.  Í úthverfinu Schwachhausen er Fockesafnið, Byggðssafn borgarinnar (sögusafn um list og menningu o.fl.).

Worpswede
er listmálarabær 23 km norðaustan Bremen.  Bremerhafen er 57 km norðan Bremen.  Þar er stærsta fiskihöfn meginlandsins og gaman að fylgjast með fiskmörkuðunum virka daga kl. 07:00-08:30.  Gömul skip eru varðveitt í gömlu höfninni í tengslum við áhugavert Sjóminjasafn.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM