Kehlsteinhaus Þýskaland,
Flag of Germany

Meira . . Kehlsteinhaus

KEHLSTEINHAUS - ARNARHREIÐRIÐ
ÞÝZKALAND

.

.

Utanríkisrnt.

Berchtesgaden.  Martin Bohrmann lét reisa húsið sem afmælisgjöf frá ríkinu til Hitlers á 50 ára afmæli hans.  Um tíma hélt fólk, að húsið ætti að verða grafhýsi Hitlers.  Líklega vað það reist til að þjóna persónulegur duttlungum Bohrmanns.  Hann var stöðugt að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Hitler og sá sér leik á borði að hafa foringjann tiltölulega einangraðan uppi á fjallsegg, þannig að hann kæmist oftar ótruflaður að honum.  Húsið stendur beint andspænis Untersberg í Austurríki.  Þjóðsagan segir, að þar hafi Karl mikli keisari gengið í björg með 5000 hermönnum eftir dauðann og sofi þar unz þeir verði kallaðir til að eindurreisa orðstír og glæsileika hins þýzka ríkis.

Haustið 1936 valdi Bohrmann tind Kehlsteins (1834 m) sem byggingarstað.  Hitler fannst líka mikið til útsýnisins af tindinum koma.  Hinn 3. nóvember fundaði Bohrmann með sérfræðingi í vegagerð, Dr. Fritz Todt, sem var hervæðingarráðherra ríkisins, og ræddi við hann um lagningu vegar upp fjallið.  Vorið 1937 gengu þeir ásamt arkitektinum Roderick Fick frá München á fjallið.  Hinn 23. ágúst sá Bohrmann sjálfur um að koma fyrir staurum, þar sem vegurinn átti að liggja.  Franski sendiherrann í Þýzkalandi, François Poncet, gaf húsinu nafnið Un nid d'Aigle í skýrslu til utanríkisráðherra Frakka.  Mussolini sendi 3000 verkamenn.  Þeir unnu dag og nótt í 13 mánuði við vegagerðina undir stjórn hæfustu verkfræðinga.  Kostnaður var u.þ.b. 30 milljónir marka (núvirði 200 milljónir DM eða 90 milljónir US$).  Vegurinn er 6,5 km langur, meistaralega gerður, með 5 göngum og kröppum, hættulegum beygjum.  Auk aðalvegarins varð að byggja veg fyrir farartæki, sem fluttu byggingarefni upp og grjót niður.  Svifbraut var komið fyrir frá Obersalzberg til að flýta fyrir flutningi byggingarefnis.  Hún var svo tekin niður í lokin.

Frá endastöð rútnanna á fjallinu liggja 124 m löng göng inn í fjallið að lyftu (upprunalegri), sem flytur fólk síðustu 124 m upp í húsið.  Lyftan er klædd messing og er 45 sekúndur á leiðinni upp.  Hún var upphituð áður fyrr.  Feneyskir speglar í lyftunni áttu að koma í veg fyrir, að foringinn fengi innilokunarkennd, sem hann leið af.

Mikil áherzla var lögð á að ljúka öllu verkinu á sem skemmstum tíma og ekkert tillit var tekið til heilsu verkamannanna.  Gangagerðin tók 3 mánuði.  Efnið í húsinu er sandsteinn og granít (frá Passau) og marmari úr Untersberg prýðir flestar dyragættir.  Hið eina, sem stendur eftir af upprunalegum húsbúnaði, er skápur í fyrstu stofu til hægri, þegar komið er úr lyftunni.  Hann var of stór til að koma honum í burtu.  Rafmagn var leitt frá Berchtesgaden.  Varaaflstöð var og er enn þá 8 strokka kafbátamótor.  Varðmenn stóðu á fjallveginum við gangamunnann, í göngunum og við húsið sjálft.

Í göngunum og lyftunni voru gashylki, sem hægt var að hleypa af, ef þörf var á.  Sagt er, að Hitler hafi aðeins notað húsið fimm sinnum en samkvæmt bókum Bohrmanns var hann þar 13 sinnum, fyrst 16. september 1938, sjö mánuðum áður en Bohrmann afhenti honum það að gjöf frá flokknum og ríkinu.  Hitler átti við öndunarerfiðleika að etja og aukinn hjartslátt í þessari hæð, auk þess sem hann var hræddur við loftárás á meðan hann var í lyftunni.  Eva Braun og Bohrmann kunnu aftur á móti vel við sig í húsinu og eyddu  miklum tíma þar.  Bohrmann var þar oft með einkaritara sínum og hjákonu.

Öllu verkinu við veginn og húsið var lokið á tæplega þremur árum.

Hinn 25. apríl 1944 vörpuðu 318 lancaster sprengiflugvélar 1232 tonnum af sprengiefni á Obersalzberg.  Loftárásin kom svo snöggt og óvænt, að ekki var kleift að beita nema broti af varnarkerfinu.  Hitler var í Berlín.  Flestar byggingar í Obersalzberg skemmdust en Kehlsteinhaus slapp.  Að morgni 4. maí 1944 kveiktu SS-menn í Berghof áður en þeir yfirgáfu Obersalzberg.  Síðdegis sama dag komu bandarískar herdeildir til Berchtesgaden og Frakkar fylgdu á eftir.

Árið 1951 var almenningi leyfður aðgangur að Obersalzberg á ný.  Bandaríkjamenn ætluðu að sprengja Kehlsteinhaus í loft upp en þýzkir stjórnmálamenn gátu talið þeim hughvarf, enda hefði það ekki þjónað neinum tilgangi.

Varnir Berchtesgaden byggðust helzt á loftvarnarbyssum en auk þeirra voru þar tæki til að framleiða þoku í dalnum

Sérstakar, aflmiklar og traustar rútur hafa annast mannflutninga upp fjallið síðan 1952 án óhappa eða truflana.  Húsið er opið frá 15. maí ár hvert.  Stundum snjóar uppi á sumrin, þannig að bezt er að hafa með sér hlýjan fatnað, ef upp er farið.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM