Bedúínar
(Badawi = eyðimerkurbúar) eru hirðingjar í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
Þeir eru næstum allir múslimar.
Í fornöld náði umsvifasvæði þeirra aðeins til eyðimarka
Egyptalands og Sýrlands. Síðar
fóru þeir inn í Mesópótamíu og Kaldeu.
Sigurför múslima í Norður-Afríku á 7. öld opnaði bedúínum
enn stærri lendur. Hirðingjalífið
leiðir þá um gríðarstór landsvæði, þótt þeir séu aðeins smáhluti
íbúa hvers um sig.
Frá
því í kringum 1045 hafa bedúínar frá Mið-Arabíu lagt leiðir sínar
til Norður-Afríku, þótt talsvert hafi dregið úr ferðum þeirra í
aldanna rás. Þeir nýttu
öll beitilönd og sköpuðu ójafnvægi á slóðum berba, sem höfðu
hætt hirðingjalífi og sezt að í bæjum og á landbúnaðarsvæðum.
Búsmali bedúínanna eyddi náttúrulegum gróðri vegna
ofbeitar og mörg beitilönd urðu að hálfeyðimörkum.
Víða hefur tekizt að snúa þessari þróun við og mörg lönd
í Miðausturlöndum og Norður-Afríku hafa reynt að draga úr ferðum
bedúína landa á milli.
Menning
og siðir. Sumir bedúínar
hafa hætt flakkinu og lifa að mestu á kjöti, mjólk og mjólkurafurðum.
Yfirleitt láta þeir innfædda Norðurafríkubúa um ræktun
nytjajurta og verzlun. Þegar
olíuframleiðslan jókst á sjöunda og áttunda áratugnum, fóru
margir bedúínar að starfa við olíuiðnaðinn.
Ríkisstjórnir Miðausturlanda hafa hvatt þá til að draga úr
hirðingjalífinu og setjast fremur að á einum stað.
Talið er, að nú lifi í kringum 7% þeirra fullkomnu hirðingjalífi
(2002) en mun fleiri árstíðabundnu.
Hið
dæmigerða bedúínatjald er gert úr dúkræmum úr geitaull eða úlfaldahári
auk jurtatrefja. Þessar ræmur
eru saumaðar saman og litaðar svartar.
Þar sem bedúínar hafa sezt að til lengri eða skemmri tíma
á einum stað, hafa þeir byggt sér nokkurra hæða, ferköntuð hús
úr steini eða sólþurrkuðum múrsteinum.
Líf
bedúína byggist á ættfeðrastjórn og sterkum fjölskylduböndum.
Fjölskyldueiningarnar eru síðan undir yfirstjórn ættarhöfðingja
(sheikh). Þessi valda- og virðingarstaða gengur í erfðir frá föður
til elzta sonar. Völd
hvers ættarhöfðingja byggjast á ríkidæmi hans og persónuleika en
ekki á fjölda undirsáta. Félagskerfi
bedúína er fjórskipt og byggist að nokkru leyti á uppruna og auðæfum.
Úlfaldaræktendur, sem eru æðsta stéttin, mæðgast innbyrðis
og líta aðra sér lægra setta. |