Taichung Taiwan,
Flag of Taiwan


TAICHUNG
TAIWAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Taichung  er mikilvægasta borgin á Mið-Taiwan.  Þar er manngerð höfn, sem er meðal 10 mestu verkfræðiafreka eyjarskeggja.  Kínverjar frá meginlandinu stofnuðu þessa borg árið 1721 og skírðu hana Tatun (Stórhóll).  Nú er hún þriðja stærsta borg landsins.  Þegar Japanar komu til Taiwan árið 1895 var nafni hennar breytt í Taichung og hún varð ein mikilvægasta borg eyjarinnar.  Þegar hafskipahöfnin 26 km vestar var tekin í notkun jókst gildi hennar enn.  Tíu akreina hraðbraut tengir Taichung við höfnina.

Tákn borgarinnar er hið 26,8 m háa Búddalíkneski, eitt hið stærsta í Taiwan.  Inni í líkneskinu eru mörg herbergi, þ.á.m. lítið bókasafn.

Í nágrenni Taichung er Pao-Chuehofið með klukkuturni og Búddalíkneski og kristilegi Tunghaiháskólinn, byggður í austrænum stíl, og Lucekapellan, sem arkitektinn Ieoh Ming Pei hannaði.

Tíu km sunnan Taichung er héraðsráðhúsið í Wufeng og utan bæjarins er risavaxið Búddalíkneski (21,8 m).  Stórir steindrekar varða veginn að því.

Þorpið Chunghsingsintsun, 25 km sunnan Taichung, er setur héraðsstjórnar Taiwan.  Tíu km sunnar, við Yuanlin, er stærsti *rósagarður Taiwan.

Hinn 2488 ha stóri heilsubótargarður í Chitou, sem er í umsjá þjóðarháskólans, er 80 km sunnan Taichung.  Þar vex einkum bambus en inni í bambusskóginum er 2800 ára gamalt og 46 m hátt kýprustré, sem margir innfæddir álíta heilagt.

Við Changhua, 19 km suðvestan Taichung, er 21,8 m hátt Búddalíkneski á fjallstoppi, sem dregur til sín fjölda pílagríma.  Sökkull styttunnar (4,2 m) er þakinn lótusblómum.

*Sóltunglvatnið (Jihyuetan), 70 km suðaustan Taichung, er í ægifögru landslagi með fjölda heilsubótarstaða, frumbyggjaþorpi og nokkrum hofum.  Skammt frá suðurströnd vatnsins er 'Hsuan-Chang-hofið', þar sem helgidómar þessa fræga munks eru varðveittir.  Hsuan-Chang flutti með sér Búddahandrit til Kína frá Indlandi á dögum Tanghöfðingjaættarinnar og stuðlaði þannig að útbreiðslu Búddatrúar í Kína.  Skammt sunnar gnæfir hin háa T'zu-En-pagóda.

Fimmtán km norðaustan Sóltunglvatni er skógi vaxið heilsubótarsvæði þar sem er landfræðileg miðja Taiwaneyju.  Þar, í grennd við bæinn Puli, er stór fiðrildagarður.  Yfir hann er spennt risavaxið net til þess að þau sleppi ekki.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM