Hualien er höfuðborg
samnefnds héraðs á miðri eyjunni austanverðri.
Miðfjallgarðurinn er höfuðprýði þessa svæðis og þarna búa
u.þ.b. 80.000 frumbyggjar. Borgin
sjálf er miðstöð marmaraiðnaðarins á Taiwan og mikilvæg samgöngumiðstöð
með nútímahöfn.
Í
einni marmaraverksmiðjunni er hægt að fylgjast með vinnslu þessa
myndbreytta kalksteins.
Nokkrum
km sunnar er þjóðsöguþorpið Toulan, þar sem afkomendur
Amiættkvíslarinnar sýna fólki menningu sína (dansa, söng og búninga).
Það er líka gaman að skoða 'Suðursjávargarðinn'.
Skoðunarferð
frá Hualien meðfram Austurströndinni til fiskibæjarins Suao
á Norðurströndinni er mjög hrífandi.
Á leiðinni eru margir þverbrattir sjávarklettar og annað
fallegt í landslaginu.Einn
hápunkta heimsóknar til Taiwan er ferð frá Hualien til Tungshih
um þjóðveg nr. 8 (Cross Island Highway), sem er 193 km langur og var
lokið árið 1960. Lagning
þessarar mikilvægu samgönguæðar, sem liggur um stórkostlegt landsvæði
(Regnbogi fjársjóðseyjunnar), kostaði 450 verkamenn lífið.
Vegurinn
liggur um hið 19 km langa og stórkostlega *Tarokogljúfur, sem
vatnið hefur sorfið út úr myndbreyttum kalklögum (m.a. marmara).
Við vegagerðina í gljúfrinu varð að grafa 38 göng.
Á leiðinni í gegnum það ætti fólk að líta á Marmarabrúna,
Hof hins eilífa vors og stað, þar sem marmarahellur liggja í hrúgum
eins og upphrúgaður skriðjökull.
Við
efri enda gljúfursins er hinn friðsæli heilsubótarstaður Tienshiang
(450 m; hótel, farfuglaheimili). Þaðan
er hægt að komast að hofi og pagódu um háa hengibrú.
Vestar, í Tayuling, er hliðarvegur, sem liggur að
Hohuanshanfjöllum (fjallgöngur, skíðasvæði; hæst 3244 m) niður
til Wushe og áfram að Sóltunglvatni'.
Hverabaðsbærinn Lushan er 6 km frá Wushe.
Norðaustan Tayuling
er heilsubótarstaðurinn Lishan með stóru hóteli í klassískum,
kíverskum hallarstíl.
Vegurinn liggur niður
á við til vesturs, fram hjá uppistöðulónunum Techi og Kukuan, um
stórar bananaekrur til Tungshih.
Taichung er mikilvægasta borgin á Mið-Taiwan.
Þar er manngerð höfn, sem er meðal 10 mestu verkfræðiafreka
eyjarskeggja. Kínverjar frá
meginlandinu stofnuðu þessa borg árið 1721 og skírðu hana Tatun
(Stórhóll). Nú er hún þriðja stærsta borg landsins. Þegar Japanar komu til Taiwan árið 1895 var nafni hennar
breytt í Taichung og hún varð ein mikilvægasta borg eyjarinnar.
Þegar hafskipahöfnin 26 km vestar var tekin í notkun jókst
gildi hennar enn. Tíu
akreina hraðbraut tengir Taichung við höfnina.
Tákn
borgarinnar er hið 26,8 m háa Búddalíkneski, eitt hið stærsta í
Taiwan. Inni í líkneskinu
eru mörg herbergi, þ.á.m. lítið bókasafn.
Í
nágrenni Taichung er Pao-Chuehofið með klukkuturni og Búddalíkneski
og kristilegi Tunghaiháskólinn, byggður í austrænum stíl, og
Lucekapellan, sem arkitektinn Ieoh Ming Pei hannaði.
Tíu
km sunnan Taichung er héraðsráðhúsið í Wufeng og utan bæjarins
er risavaxið Búddalíkneski (21,8 m).
Stórir steindrekar varða veginn að því.
Þorpið
Chunghsingsintsun, 25 km sunnan Taichung, er setur héraðsstjórnar
Taiwan. Tíu km sunnar, við Yuanlin, er stærsti *rósagarður
Taiwan.
Hinn
2488 ha stóri heilsubótargarður í Chitou, sem er í umsjá þjóðarháskólans,
er 80 km sunnan Taichung. Þar
vex einkum bambus en inni í bambusskóginum er 2800 ára gamalt og 46 m
hátt kýprustré, sem margir innfæddir álíta heilagt.
Við Changhua, 19 km suðvestan Taichung, er 21,8 m hátt Búddalíkneski
á fjallstoppi, sem dregur til sín fjölda pílagríma.
Sökkull styttunnar (4,2 m) er þakinn lótusblómum.
*Sóltunglvatnið
(Jihyuetan), 70 km suðaustan Taichung, er í ægifögru landslagi með
fjölda heilsubótarstaða, frumbyggjaþorpi og nokkrum hofum. Skammt frá suðurströnd vatnsins er 'Hsuan-Chang-hofið',
þar sem helgidómar þessa fræga munks eru varðveittir.
Hsuan-Chang flutti með sér Búddahandrit til Kína frá
Indlandi á dögum Tanghöfðingjaættarinnar og stuðlaði þannig að
útbreiðslu Búddatrúar í Kína.
Skammt sunnar gnæfir hin háa T'zu-En-pagóda.
Fimmtán
km norðaustan Sóltunglvatni er skógi vaxið heilsubótarsvæði þar
sem er landfræðileg miðja Taiwaneyju.
Þar, í grennd við bæinn Puli, er stór fiðrildagarður.
Yfir hann er spennt risavaxið net til þess að þau sleppi
ekki.
Heilsubótarsvæðið
*Alishan,
í samnefndu fjalllendi, er eitthvert hið fegursta á Taiwan.
Það er sérstaklega fallegt að koma með fjallalestinni frá
Chiai, sem Japanar lögðu árið 1912.
Brautarsporið er 72 km langt og liggur um hitabeltissvæði,
alla leið upp í svalara loftslag fjallaþorpsins Alishan í 2190 m hæð
yfir sjó. Á leiðinni eru
80 brýr og 50 göng. Lestin
stanzar venjulega við Heilaga tréð, 3000 ára gamalt kýprustré, sem
varð fyrir eldingu árið 1947. Það
er rúmlega 18 m hátt og hefur 14,6 m ummál.
Uppi í Alishan ganga enn þá nokkrar gufueimreiðar, sem koma
hjörtum járnbrautaáhugamanna til að slá hraðar.
Í Alishan eru góðir
gistimöguleikar. Þar lítið
safn, grasagarður, hið rómantíska Tveggjasystravatn og Þriggjakynslóðatréð.
Margir leggja leið sína upp á útsýnispallinn á Chu-fjalli
til að fá sýn yfir skýjahafið í Yushanfjallgarðinum (Jaðefjöllum;
hæsti tindur: 3997 m) eða upplifa sólarupprásina þaðan.
Tainan
(600þ. íb.), borg hinna 100 hofa (209 núna), er elzta borg Taiwan.
Hún var höfuðborg eyjarinnar
frá 1684-1887. Saga
hennar er nátengd nafninu Cheng Cheng-kung (Koxinga), kínversku
hetjunni, sem hrakti hollenzku nýlenduherrana á brott.
Skoðunarverðir
staðir:
Cheng-Cheng-kung-hofið, kínverskar hofbyggingar með mynd af
hetjunni í aðalsalnum. Við hliðina á því er byggðasafn.
Skammt norðaustar er elzta Konfúsíusarhof landsins.
Hershöfðinginn Chen Yung-hua, fylgjandi Koxinga, lét byggja það
á 17. öld. Það var nýlega
endurbyggt af mikilli natni. Chihkan-turninn,
aðeins norðar, var byggður árið 1875 á rústum hollenzka virkisins
Providentia, sem hrundi í jarðskjálfta árið 1862.
Við virkismúr, gegnt innganginum, eru steinskjaldbökur og
minnismerki með kínverskum táknum og myndletri.
Providentiavirkið var upprunalega tengt Zeelandiavirkinu við
Anping með neðanjarðargöngum. Múrar þess voru byggðir úr hollenzkum múrsteini og þar
dó Koxinga árið 1662.
Í
Kai-Yuan-hofinu, sem er einn elzti Búddahelgidómur eyjarinnar, er
stytta af hinni þúsundarma gyðju miskunnar og skríni kvennanna fimm
(þær frömdu sjálfsmorð, þegar síðasta
Mingvirkið féll í hendur Qingættarinnar árið 1683).
Hverasvæðið
og heilsubótarstaðurinn Kuantzeling í næsta nágrenni Tainan er
heimsóknar virði. Þar
byggðu Frakkar virkin Yi Tsai og Lu Erh Men og þar lenti Koxinga árið
1661.
U.þ.b.
30 km norðaustan Tainan er Kórallavatn (Wushantou-lónið) með rúmlega
100 litlum eyjum og skerjum. Umhverfis
vatnið eru margir heilsubótarstaðir og boðið er upp á bátsferðir
um það.
Kaohsiung er á Suðvesturströnd Taiwan.
Þar er stærsta höfn landsins og hún er höfuðborg samnefnds
héraðs. Þar er stærsta niðurrifsstöð skipa, næststærsti
slippur landsins og fimmta stærsta gámastöðin.
Þarna er líka fjöldi iðnfyrirtækja, sem flytja út framleiðslu
sína og þar er líka annar alþjóðaflugvöllur landsins.
Skoðunarvert:
Búddahof konunga fjallgarðanna þriggja, taóhofið 'Wen-Wu og
Þriggjafönixahöllin, þar sem leikmenn spila tónlist.
Ofan af Shou-shan (Langlífisfjalli; Píslarvottahofið) er stórkostlegt
útsýni. Konfúsíushofið,
sem lokið var 1976 og er hið nútímalegasta á Taiwan, Vor- og
haustgarðskálarnir við flotastöðina Tsoying, Tígris- og drekapagódurnar
og fallegar lótustjörnin eru athyglisverð.
Tíu km utan
Kaohsiung er vatnasvæðið Cheng-Ching.
Þar er fjöldi áhugaverðra staða, s.s. hlykkjótt brú fyrir
elskendur, þrír garðskálar, *Chung-Hsingpagódan (eitt þekktasta
tákn Taiwan), tunglskálinn og orkideustígur.
Hjá pagódunni er golfklúbbur.
Syðsti
hluti Taiwan, sem er girtur kóralrifjum, liggur að mestu undir *Kentingþjóðgarðinn,
sem nær líka alllangt í sjó fram.
Syðst er heilsubótarbærinn Oluanpi, þar sem forsögulegar
minjar um búsetu fundust fyrir skömmu.
Frá vita bæjarins, sem reistur var 1882, sést í góðu
skyggni alla leið yfir Bashisund til Filipseyja.
Baðstrendurnar í nágrenninu eru upplagðar til baða, köfunar
og skeljasöfnunar en fólk þarf að gæta sín á sæslöngum, sem
fela sig í klettum og kóralrifjum fyrir ströndinni.
Hinn
18 m hái og 35 m breiði *kórallaklettur Chuan Fan Hsih fyrir
ströndinni á miðri leið milli Oluanpi og Kenting er sérkennileg náttúrusmíð.
Kentingskógargarðurinn er þar í grennd.
Upphaf hans var grasagarður, sem gerður árið 1906.
Þarna eru rúmlega 1200 plöntutegundir til sýnis auk
kórallasúlna
af hafsbotni.
Fáum
km sunnan bæjarins Hengchun er Lugluan-vatnið, 175 ha að flatarmáli
og 3,5 m djúpt. Það er
urmull af fiski í því og hundruð þúsunda farfugla hafa þar
vetursetu.
Alls
staðar meðfram Suðurströnd Taiwan er alls konar hitabeltisgróður,
sem hefur vaxið upp af fræjum frá suðlægari eyjum og löndum.
Japanar
byggðu upp hverabaðstaðinn Chihpen á Suðausturströndinni, 15 km suðvestan
hafnarborgarinnar Taitung. |