Tæmælandi þjóðflokkar frá Vestur-Kína fluttust
til Yunnan á 2. eða 1. öld f.Kr.
Í óreiðunni, sem skapaðist við fall Hanættarinnar árið
220, stofnuðu leiðtogar tæfólksins konungsríkið Nan Chao, sem
entist þar til mongólska keisaradæmið lagði það undir sig um miðja
13. öld. Löngu áður hóf
tæfólkið útrás til suðurs og í aldanna rás færði það sig
suður eftir Malakkaskaga og til Kambódíu.
Þar varð það fyrir áhrifum indverja og tók upp búddatrú.
Í lok 13. aldar var þetta fólk orðið að pólitískri
heild undir stjórn Ramkhamhaeng í konungsríkinu Sukothai.
Upp frá þessu nefndust íbúar þess Tælendingar.
Chiang Mai varð höfuðborg sjálfstæðs norðurhlutans,
Lanna Thai konungsríkisins.
Árið 1350 sameinaði Rama
Tibodi konungsdæmin. Hann
stofnaði konungsdæmið Ayutthaya og gerði Phra Nakhon Si Ayutthaya
að höfuborg sinni. Afkomendur
hans lögðu Angkor, höfuðborg konungsdæmis khmera (Kambódía), í
rúst 1431 og innlimuðu Sukothai 1438.
Khmerarnir kenndu Tælendingunum hindúatrú og hefðir algers
einræðis. Theravada-búddatrú
varð smám saman ríkjandi, þannig að munkahof og búdda-shanga
tengdust þjóðarsálinni sterkum böndum. Miðstýring varð næstum algjör og stéttaskiptingin var
vandlega skipulögð. Æðstu
embættismenn voru tilnefndir og valdir að verðleikum.
Auður og völd Ayutthaya laðaði að sér asíska kaupmenn og
allt frá 16. öld komu æ fleiri ævintýramenn frá Portúgal,
Hollandi, Englandi, Spáni og Frakklandi.
Þrátt fyrir búrmísku innrásina 1569 og tap borgarinnar
Chiang Mai, var ríkið öflugt og tók upp stjórnmálasaband við
Frakka á 17. öld. Vegna
ágangs kristinna trúboða ákváðu Tælendingar að rjúfa tengslin
við Evrópubúa eftir 1688. Helztu
og hættulegustu óvinir Ayutthaya voru Búrmabúar.
Sjálfstæðisbarátta. Árið
1767 lögðu Búrmar Ayutthaya í rust eftir fjögurra ára umsát.
Listræn arfleifð borgarinnar var eyðilögð og konungsfjölskyldan
send í útlegð. Tælendingar
bundu enda á yfirráð Búrma í uppreisn undir stjórn Pya Taksin,
hershöfðingja, sem lýsti sig konung og gerði Thon Buri að höfuðborg
sinni. Herir hans tóku
Chiang Mai og ruddust inn í Kambódíu og Laos.
Brátt varð hann valtur í sessi og var felldur.
Þá tók við Pya Chakri, hershöfðingi, og síðar
afkomendur af ætt hans, sem stofnaði m.a. Bangkok.
Hann var við völd á árunum 1782-1809 sem Rama I.
Hann varðist frekari árásum Búrma 1785 og blés nýju lífi
í tælenzka menningu með endurbyggingu Ayatthaya.
Bretar og Tælendingar gerðu með sér viðskiptasamning 1826.
Vegna einokunaraðstöðu sinnar tókst Bretum að auka áhrif
sín verulega í landinu alla 19. öldina. Önnur ríki sóttust eftir svipuðum samningum og drógu þar
með úr sjálfstæði Tælands.
Það er einkum
tveimur konungum landsins að þakka, að Tæland varð ekki að nýlendu
líkt og nágrannaríkin. Mongkut
konungur (1851-68), sem sýndi vestrænni menningu mikinn áhuga, bauð
mörgum fékk marga evrópska ráðgjafa til að nútímavæða landið.
Sonur hans, Chulalongkom konungur, sem ríkti, þegar Evrópumenn
létu sem dólglegast í þessum heimshluta, hélt áfram á sömu
braut og tókst að halda í sjálfstæði landsins, þótt hann yrði
að gera margar tilslakanir um yfirráð og afnotarétt nokkurra
landsvæða. Árið 1893
lentu Tælendingar í alvarlegum landamæradeilum við Frakka, sem réðu
öllu í Cochin-Kína, Annam, Tonkin og Kambódíu.
Frakkar sendu herskip til Bangkok og neyddu Tælendinga til að
gefa Kambódíu eftir auk Laos austan Mekong-árinnar.
Frakkar náðu viðbótarsvæði af Tælandi vestan Mekong á
árunum 1904 og 1907. Tælendingar
létu Bretum eftir fjögur ríki á Malakkaskaga árið 1909.
Í staðinn afsöluðu Bretar sér öllum yfirráðum í öðrum
hlutum Tælands. Stjórn
Tælands tók þátt í fyrri heimsstyrjöldinni við hlið bandamanna
í júlí 1917. Í framhaldi af því varð landið meðal stofnenda Þjóðabandalagsins.
Á fjórða áratugi 20. aldar gætti vaxandi óánægju, einkum meðal
fólks á viðskiptasviðinu og innan hersins, með konungsstjórnina
í heimskreppunni og hve mörgum opinberum embættismönnum var sagt
upp störfum. Í júní
1932, þegar Prajadhipok konungur var við völd, gerði lítill hópur
hermanna og stjórnmálaleiðtoga árangursríka uppreisn gegn stjórn
landsins, sem var fram að þeim tíma algert einveldi.
Uppreisnarmenn undir stjórn Pridi Mhanomyong og Phibun
Songgram, ofursta, lýstu yfir þingbundinni konungsstjórn 27. júní.
Konungssinnar voru endanlega yfirbugaðir í október 1933.
Þótt flestir Tælendingar féllust á nýju stjórnarskrána,
voru fæstir þeirra ánægðir með endurbótatillögur Pridis.
Í marz l935 sagði Prajadhipok konungur af sér til að frændi
hans, Ananda Mahidol, prins, gæti tekið við völdum.
Hann varð mikilvirkur konungur og laðaðist að bandalagi við
Japana, sem aðhylltust hernaðarvæðingu og voru gráir fyrir járnum.
Tælendingar sögðu upp öllum milliríkjasamningum í nóvember
1936. Nýir samingar voru
undirbúnir næsta ár með það fyrir augum að aðrar þjóðir hefðu
engin áhrif á stjórn landsins.
Árið 1938 breytti Phinbun, forsætisráðherra, nafni
landsins úr Síam í Tæland.
Síðari heimsstyrjöldin.
Japanar hvöttu stjórn Phibun til að krefjast landsvæðanna,
sem Frakkar tóku árið 1893 og síðar. Phinbun fór að þeirra ráðum og lagði fram kröfur á
hendur Frökkum 1940. Japanar
tóku að sér málamiðlun, sem var fallizt á í maí 1941.
Þá fengu Tælendingar u.þ.b. 54.000 ferkílómetra lands, þ.m.t.
hluta Vestur-Kambódíu og allt Laos vestan Mekong-árinnar.
Samband Japana og Tælendinga varð nánara að þessu loknu. Phibun vantreysti þeim, en honum tókst ekki að tryggja sér
aðstoð Breta og Frakka. Hinn
8. desember 1941, nokkrum klukkustundum eftir árás Japana á Pearl
Harbor, gáfu Tælendingar Japönum leyfi til liðsflutninga um Tæland
að víglínunum á Malakkaskaga.
Tælendingar lýstu yfir stríði á hendur BNA og Bretum 25.
janúar 1942. Stjórn
Phibuns var velt úr sessi í júlí 1944 eftir efnahagskreppu og árásir
liðssveita hliðhollum Pridi. Pridi
tók við völdum og á valdatíma hans óx fylgi meðal þjóðarinnar
við málstað bandamanna.
Tælendingar gerðu samning við Breta og Indverja í janúar 1946, þar
sem þeir afsöluðu sér kröfurétti til landsvæða á Malakkaskaga,
sem þeir höfðu náð undir sig í stríðinu.
Stjórnmálasamband var tekið upp á ný við BNA í sama mánuði.
Í nóvember 1946 náðist samomulag við Frakka um afsal
fransks lands, sem Tæland náði 1941.
Tæland varð aðili að Sameinuðu þjóðunum 15. desember
1946 (55. ríkið). Ananda Mahidol, konungur dó 9. júní 1946 á dularfullan hátt.
Pridi var ranglega sakaður um konungsdráp og rekinn í útlegð.
Ríkisráðinu var falin stjórn landsins á meðan bróðir
hins látna konungs var enn ólögráða.
Hann varð Rama IX.
Stöðugleiki innanlands.
Hinn 9. nóvember 1947 tók herforingjaklíka undir stjórn
Phibuns völdin og hélt þeim til 1957 með stuttu hléi snemma árs
1948. Stjórn hans, sem
var ekkert annað en einveldi, byggði utanríkisstefnu sína á nánu
sambandi við BNA og Bretland. Rama
IX, konungur, settist í hásætið 5. maí 1950.
Eftir að Kóreustríðið brauzt út
í júní 1950 sendi Tæland her Sameinuðu þjóðanna 4000
manna liðstyrk.
Hinn 29. nóvember 1951 hrifsaði hópur liðsforingja völdin í
hallarbyltingu og lýsti einveldisstjórnarskrána frá 1932 gilda með
nokkrum breytingum. Phibun
var falið embætti forsætisráðherra.
Bandarísk efnahagsaðstoð tryggði uppsveiflu.
Fjöldi frjálsra Tælendinga undir forystu Pridis hópaðist
saman í Kína með stuðningi kínverskra kommúnista.
Fulltrúar landsins tóku þátt í Genfarráðstefnunni í apríl
1954, sem markaði endalok stríðsins í Indókína.
Í September 1954 var Tæland meðal stofnlanda Bandalags ríkja
Suðaustur-Asíu (SEATO).
Samtímis féll stjórn Phibuns í hallarbyltingu, sem Sarit Thanarat,
marskálkur og æðsti maður herráðsins, stóð fyrir.
Samsteypustjórn var mynduð í janúar 1958 undir forystu
Thanom Kittikachorn, yfirhershöfðingja.
Sarit efndi til annarrar hallarbyltingar í október til að
steypa stjórn Thanoms. Stjórnarskráin
var afnumin og lýst var yfir herlögum.
Allir stjórnmálaflokkar voru bannaðir.
Snemma á sjöunda áratugnum varð stjórn landsins að taka
á vaxandi starfsemi skæruliða kommúnista í norðurhluta landsins.
Thanom varð aftur forsætisráðherra að Sarit látnum 1963
og hann erfði skæruliðavandamálið.
Nýja ríkisstjórnin hafði líka áhyggjur af styrjöldinni
í Víetnam og lakri stöðu ríkisstjórnar Laos, sem var hliðholl
vesturveldunum.
Baráttan fyrir lýðræði.
Ríkisstjórnin endurreisti smám saman pólitískt frjálsræði,
sem var afnumið 1958. Sveitarstjórnarkosningar
voru haldnar í fyrsta skipti í áratug í desember 1967.
Varanleg stjórnarskrá var lögð fram í júní 1968.
Þingkosningar voru haldnar í febrúar 1969 og Sameinaði Tæflokkurinn
náði meirihluta með 75 þingmönnum í fulltrúadeildinni. Stærsti andstöðuflokkurinn, Demókrataflokkurinn, náði
56 sætum. Bandarísk
efnahagsaðstoð og þróun efnahagsmála sköpuðu vaxandi auðsæld
en bilið milli ríkra og fátækra stækkaði og olli mikilli óánægju
meðal múslima og annarra minnihlutahópa.
Hlutverk BNA í Suðaustur-Asíu breyttist frá árinu 1969, þegar þau
hófu brottflutning hers síns smám saman frá Víetnam og reyndu að
vingast við Kína. Tælendingar, sem höfðu beitt u.þ.b. 11.000 hermönnum í
Víetnam, gerðust sveigjanlegri í utanríkismálum, einkum með
tilliti til Norður-Víetnams og Kína.
Samtímis barðist stjórnarherinn við skæruliða í norðurhlutanum
og við landamæri Malasíu. Brottflutningur
Bandaríkjamanna frá Suðaustur-Asíu breytti stöðu efnahagsmála
í Tælandi. Hrakandi efnahagur og baráttan við skæruliðana voru sagðar
ástæðurnar fyrir afnámi þingræðisins og stofnunar herstjórnar
í nóvember 1971. Thanom
hershöfðingi afnam stjórnarskrána og leysti þingið upp.
Í desember 1972 leit ný stjórnarskrá dagsins ljós.
Árið 1973 leiddu ítrekuð mótmæli stúdenta til afsagnar Tanoms
í október. Konungurinn
greip í taumana og borgaraleg stjórn tók við.
Síðla árs 1974 var ný stjórnarskrá samþykkt og eftir frjálsar
kosningar var mynduð stjórn snemma árs 1975.
Stöðugleikinn var samt hverfull og nýjar kosningar í apríl
reyndust ekki lausnin. Í september sama ár leiddi endurkoma Thanoms úr útlegð
í Singapúr til blóðugra átaka í Bangkok milli vinstri sinnaðra
stúdenta og hægri manna. Snemma
í október jókst stjórnleysið og herlið undir stjórn Sa-ngad
Chaloryu, aðmíráls, tók völdin og kom á fót íhaldssamri stjórn.
Ári síðar steyptu Sa-ngad og hermenn hans þeirri stjórn.
Hann gaf nýrri stjórn fyrirmæli um að reyna að brúa bilin
í þjóðfélaginu og bæta sambandið við kommúnistastjórnir nágrannaríkjanna.
Enn ein stjórnarskrá var samþykkt í desember 1978 og í apríl
1979 voru haldnar þingkosningar.
Stjórnin, sem herinn skipaði, hélt völdum fram í marz 1980,
þegar ný stjórn tók við. Í
fararbroddi hennar var Prem Tinsulanonda, hershöfðingi.
Hann sendi þingið heim 1986 og efndi til nýrra kosninga.
Flokkur hans sigraði án þess að fá meirihluta á þingi og
hann myndaði samsteypustjórn. Eftir
kosningarnar í júlí 1988 varð Chatichai Choonhavan
forsætisráðherra. Herforingjaklíka steypti honum af stalli
í febrúar 1991, sakaði hann um pólistíska spillingu og kom á
fót borgaralegri bráðabirgðastjórn undir forystu Anand
Panyarachun. Sigur
stjórnmálaflokka hlynntum hernum í kosningunum í marz 1992 ollu
mótmælaóeirðum í Bangkok í maí, sem voru bældar niður með
mikilli hörku og a.m.k. 100 manns lágu í valnum.
Í kjölfar fordæmalausrar íhlutunar konungsins, sættust
Srimaung Chamlong, formaður búddistaflokksins Palang Dharma, og
Suchinda Kraprayoon, hershöfðingi, opinberlega í beinni
sjónvarpsútsendingu. Suchinda
sagði af sér og þingið samþykkti breytingar á stjórnarskránni,
sem drógu verulega úr valdi hersins.
Lýðræðislegt Tæland. Nýjar
kosningar í september leiddu til myndunar enn einnar
samsteypustjórnar með reyndan stjórnmálamann, Chuan Leekpai, í
fararbroddi. Honum tókst að halda uppi lýðræðislegri
stjórn með því að skipta stöðugt um samstarfsflokka.
Stjórnarskránni var breytt aftur snemma á árinu 1995 til
að efla stöðugleika lýðræðisins.
Landamæraerjum við hermenn Búrma og Kambódíu, sem eltu
uppreisnarmenn inn í Tæland, fjölgaði.
Í maí 1995 lét Chuan af embætti eftir 2½ ár sem
forsætisráðherra, sem var mettími fyrir löglega kosna stjórn, og
boðaði til kosninga vegna yfirvofandi vantraustsályktunar vegna
spillingar. Úrslit
kosninganna 2. júlí leiddu til þess, að fyrrum
stjórnarandstöðuflokkurinn Chart Thai, varð áhrifamestur í
næstu samsteypustjórn.
Í
marz 1996 skipaði Banharn Silpa-Archa, forsætisráðherra og
leiðtogi Chart Thai-flokksins, fyrstu lýðræðislegu
öldungadeildina.
Í maí lifði ríkisstjórnin af fjölda vantrauststillagna
stjórnarandstöðunnar, sem byggðust aðallega á spillingu.
Eftir að nokkrir samstarfsflokkar, þ.m.t. Palang Dharma,
hættu stjórnarsamstarfi vegna spillingarhneyksla, neyddist Banharn
til að segja af sér í sept. 1996 og efnt var til nýrra kosninga.
Nóvemberkosningarnar 1996, sem fóru ekki með öllu löglega
fram, færðu Nýja vonarflokknum og demókrötum sigurinn (u.þ.b.
250 þingsæti) en Chart Thai og Palang Dharma-flokkarnir biðu
afhroð.
Fyrstnefndu flokkarnir tveir mynduðu kjarna samsteypustjórnar.
Snemma ár s 1997 stríddi stjórnin við efnahagsvanda, sem
dró verulega úr hagvexti í landinu, fjárfestingum innanlands og
kynti undir verðbólgu. |