Efrat Sýrland,
Flag of Syria


EFRAT
TYRKLAND - SÝRLAND - ÍRAK

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efratáin kemur upp í Tyrklandi og streymir um Sýrland og Írak áður en hún fellur í Persaflóa um Shatt Al-Arab.  Hún og Tígris sáu hinni fornu Mesópótamíu fyrir vatni og stuðluðu að þróuðu menningarsamfélagi þar.  Efrat er enn þá mikilvæg lífsuppspretta og nýting hennar veldur pólitískri spennu.  Áin er u.þ.b. 2735 km löng og meðalrennsli hennar er 887 rúmmetrar á sekúndu.  Rennsli hennar er talsvert árstíðabundið og landið, sem hún hefur áhrif á er 444 þúsund ferkílómetrar.  Tæplega 30% þessa landsvæðis er í Tyrklandi en þaðan spretta upp 94% vatnsmagns árinnar, þ.m.t. árnar Karasu, Murat o.fl., sem sameinast í grennd við Elazig, þar sem Efri-Efrat myndast.  Áin rennur inn í Sýrland 120 km norðaustan borgarinnar Halab (Aleppo).  Khabur-áin í Sýrlandi er stór þverá, sem kemur upp í Suðaustur-Tyrklandi og Norðaustur-Sýrlandi.  Farvegur Efrat er nokkurn veginn samhliða Tígrisárinnar og vegalengdin milli þeirra er hvergi meiri en 160 km þar sem þær renna um Írak.  Þarna streyma árnar áfram að ármótum sínum nærri Al Basrah, þar sem Efrat myndar vesturmörk svæðisins al-Jazirah (Eyjan).  Sameinaðar falla árnar undir nafninu Shatt Al-Arab til Persaflóa.

Efrat er getið í fyrstu Mósesbók (15:18), fimmtu Mósesbók (1:7 og 11:24) og Jesaía (1:4).  Sögulega séð er áin hin mikilvægasta í heimi.  Tígris-Efrat-dalurinn var upprunastaður menningar assýríumanna, babýlona og súmera og borgirnar Babýlon og Úr voru byggðar við ána.  Öldum saman myndaði áin eystri mörk Rómarveldis og á dögum Austur-Rómarveldisins blómstraði fjöldi borga og menningarstaða á bökkum hennar.  Forleifauppgröftur á árbökkum Tígris og Efrats hefur verið mjög árangursríkur.

Efrat var mikilvæg til áveitna í hinni fornu Mesópótamíu.  Tyrkland, Sýrland og Írak deila stöðugt um nýtingu árinnar til áveitna og rafmagnsframleiðslu.  Tyrkland er að skipuleggja nýtingu Anatólíuhérðs í suðausturhluta landsins, þar sem talsverðu hlutin árvatnsins verður nýttur í framtíðinni.  Í þessum tilgangi létu Tyrkir reisa Ataturk-stífluna, sem er hin fjórða stærsta í heimi.  Hún er aðeins ein margra slíkra, sem nýta fallhæð árinnar niður úr fjöllum Anatólíu.  


Lónið handan Ataturk-stíflunnar nær yfir 815 km² svæði.  Það tók heilan mánuð að fylla það og rennsli árinnar raskaðist verulega.  Minna árvatn er mikið áhyggjuefni í Sýrlandi, þar sem gífurlegu fjármagni var varið í orkuver og áveitubúnað frá al-Thawrah-stíflunni (Byltingarstíflan), sem lokið var við árið 1973.  Þessi stífla myndaði 640 km² lón, sem fékk nafnið Assadvatn.  Orkuframleiðsla versins þar truflaðist verulega vegna framkvæmdanna í Tyrklandi.  Írak hefur mótmælt nýtingu Sýrlendinga og stríð milli þjóðanna var naumlega umflúið 1975.  

Landbúnaðurinn í Írak er stundaður á svæði, þar sem hörgull er á vatni og bændur styðjast að mestu við vatnið úr ánni.  Mesta flæði í ánni í Írak, þar sem árvatnið nemur 40% vatnsbirgða, er í apríl og maí.  Sveiflur í vatnsmagninu milli mánaða og ára valda oft þurrkum.  Al-Haditha-stíflan var byggð til að safna vatnsbirgðum til jöfnunar í Írak en gagnsemi hennar hefur verið mjög takmörkuð.  Allt frá sjötta áratugnum hafa flóðavarnir við Tígrisána gert kleift að miðla vatni frá henni um Tharthar-lægðina til Efrat en þessar ráðstafanir hafa einnig komið að takmörkuðu gagni.  Í Írak er saltmagn árvatnsins verulegt vegna jarðsalts og notkunar tilbúins áburðar við efri hluta árinnar.  Öll þrjú ríkin við ána reyna að beztu getu að nýta hana til fulls.  Því má búast við að spenna aukist milli þeirra í framtíðinni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM