Damascus
eða Dimashq í suðvestur
Sýrlandi við Baradaána í grennd við Líbanonfjöll er höfuðborg
landsins. Lungi
borgarinnar, þ.m.t. gamla, ferhyrnda borgin, er sunnan árinnar.
Nútímahverfin teygjast til norðurs frá norðurbakkanum.
Borgin hefur löngum verið mikilvæg miðstöð viðskipta.
Fyrrum var verzlað með þurrkaða ávexti, vín, ull, líndúk
og silki. Damask er munstaður
silkidúkur, sem er ofinn í Damascus.
Bærinn var líka kunnur fyrir framleiðslu sverðblaða, sem
voru sérstaklega vel hert og endingargóð.
Nú er borgin miðstöð viðskipta
með fígkjur, möndlur og aðra ávexti, sem eru ræktaðir umhverfis hana.
Iðnaðurinn byggist á framleiðslu silkidúks, leiðurvöru, gullvíravirki,
silfurmunum og greyptra viðar-, kopar- og
látúnsmuna.
Einnig er talsvert framleitt af fatnaði, matvælum og prentuðu
máli.
Götur
borgarinnar eru allar bugðóttar og þröngar nema „Beina gatan”,
þar sem talið er að hl. Páll hafi búið.
Húsin eru venjulega íburðarmikil að innan en venjuleg og
jafnvel þunglamaleg að utan. Veggir,
sem snúa að götunum eru oftast gluggalausir.
Í
borginni eru rúmlega 200 moskur en aðeins 70 þeirra eru í notkun.
Umayyad-mosan er þeirra mikilvægust.
Hún var líklega heiðið hof áður en hún var gerð að
kirkju í lok 4. aldar. Þá
mun höfuð Jóhannesar skírara hafa verið varðveitt í henni og hún
fékk nafnið Kirkja hl. Jóhannesar.
Sinani-yah-moskan státar af grænni, flísalagðri mínarettu.
Tekkeyah-moskan, sem var opnuð 1516 á árbakkanum í
vesturhluta borgarinnar sem griðastaður fátækra pílagríma.
Þjóðarbókhlaðan, Þjóðminjasafnið og Damascus-háskóli
(1923) eru líka í borginni.
Damascus
er ein hinna elztu borgar heims, sem hafa verið í stöðugri ábúð
frá upphafi þeirra. Samkvæmt
rituðum, egypzkum heimildum frá 15. öld f.Kr. var hún höfuðborg
borgríkis. Á biblíutímanum
braut Davíð, konungur Júdeu og Ísraels, hana undir.
Síðar átti borgin í stríði við Ísrael.
Áruð 732 f.Kr. lögðu Assiríumenn Damascus undir sig
(Tiglath-pileser III; 745-727 f.Kr.) og á árunum 333-32 f.Kr. náði
Alexander mikli henni. Eftir
dauða hans (323 f.Kr.) varð borgin hluti konungsríkis Seleusída.
Pompey mikli vann hana árið 64 f.Kr.
Kristnin
kom til borgarinnar á fyrstu öld e.Kr. og hún varð biskupssetur.
Árið 635 náðu múslimar henni og hún var aðsetur kalífanna,
sem létu víggirða hana rækilega, áður en Baghdad var stofnuð árið
762. Árið 1076 náðu
Tyrkir (seljukar) henni og árið 1154 var hún í höndum Egypta.
Þar voru höfuðstöðvar Saladíns, soldáns Egypta og Sýrlendinga,
þegar þriðja krossferðin stóð yfir.
Árið 1401 rændi og brenndi mongólski sigurvegarinn Tamerlane
borgina. Hún var byggð
upp á ný og árið 1516 tóku Ottómanar hana af Egyptum.
Ibrahim Pasha lét Egyptum borgina eftir árið 1832.
Árið 1841 fengu Ottómanar hana aftur sem hluta af Sýrlandi.
Uppreisn múslima í borginni 1860 olli eyðileggingu kristna
hlutans og mikill fjöldi kristinna var myrtur.
Í
fyrri heimsstyrjöldinni stefndu tyrknesk-þýzkar hersveitir að Súesskurði
frá Damascus. Árið 1918
náðu sveitir Allenbys hershöfðingja og arabaleitogans, sem varð síðar
Faisal I, konungur Íraks, Damascus úr höndum Tyrkja og Þjóðverja.
Síðar reyndi Faisal að gera Damascus að höfuðborg sjálfstæðs
arabaríkis og í marz 1920 samþykkti þing Sýrlands að gera hann að
konungi. Bandamenn fólu Frökkum
stjórn landsins og þeir komu sér fyrir í Damascus í júlí.
Á árunum 1925-27 hröktu drúsar Frakka tvisvar frá Damascus
en þeir náðu aftur fótfestu með miklum sprengiárásum, sem ollu
dauða margra borgarbúa. Eftir
að Þjóðverjar lögðu Frakkland undir sig 1940 stofnaði Vichy-stjórnin
nýlendustjórn í Damascus. Árið
1941 réðust bandamenn á Sýrland og náðu Damascus, sem varð höfuðborg
sjálfstæðs Sýrlands 1946. Áætlaður
íbúafjöldi árið 1994 var tæplega 1,5 milljónir. |