Thun, í kantónunni Bern er í 565
m hæð yfir sjó. Íbúafjöldinn
er u.þ.b. 33.000. Þessi
forna borg hefur tilheyrt Bern frá 1384.
Hún er við útfall Aare úr Thunervatni á báðum bökkum í
mjög fögru umhverfi. Schloßberg (30 m hærra) gnæfir yfir bæinn, sem má kalla
hliðið að Berner-Oberland (hálendinu).
Gönguleiðir meðfram aðalgötunni eru blómum skreyttar, bæði
uppi yfir verzlununum og í súlnagöngum meðfram þeim.
Thunervatnið er 48 km² í 560 m hæð, 18 km
langt, 2-2,8 km breitt og mest 217 m djúpt. Það er í Aaredal ásamt Brienzervatni, sem er 29 km² í 576 m
hæð, 14 km langt, 2-2,5 km breitt og mest 259 m djúpt.
Vegir eru meðfram Thunervatni að norðan og sunnan.
Vatnið í þeim báðum er ljósgrænt að lit.
Upprunalega var aðeins eitt vatn, sem hefur fyllzt upp í miðju
af árframburði, þar sem Interlaken stendur.
Bæði vötnin saman eru nefnd Oberländervötn. |