Genf Sviss,
Flag of Switzerland

Alþjóðastofnanir

GENF
SVISS

.

.

Utanríkisrnt.

Genf, höfuðborg samnefndrar kantónu er í 377 m hæð yfir sjó.  Íbúafjöldinn er u.þ.b. 200.000 og í kantónunni allri búa 370.000 manns.

Háborg siðbótar Kalvíns er vestust borga landsins.  Hún er við suðvesturenda Genfarvatns á jökulöldum á báðum bökkum Rhône, þar sem áin fellur úr vatninu.  Í suðaustri eru kalkhryggir Saléve og Voiron, Júra í norðvestri, stærsta Alpavatnið í norðri og í fjarska í suðvestri er hæsta fjall Evrópu, Mont Blanc.  Genf er ein miðstöðva andlegs lífs í Evrópu.  Þar sameinast franskur lífsstíll og svissneskur traustleiki og þar eru flestar æðstu stofnana og samtaka heimsins.  Borgin hefur því á sér yfirbragð heimsborgar.  Þar blómstrar fjármála- og viðskiptalíf auk iðnaðar.  Borgin hefur þanist mikið út undanfarna áratugi, nýir útborgarkjarnar hafa myndast og smábæir í nágrenninu.

Gamli bæjarhlutinn er á vinstri Rhônebakka, þar sem þriggja turna dómkirkjan gnæfir yfir.  Á hægri bakkanum blómstra viðskiptin.

**Genfarvatn er í 371 m hæð yfir sjó.  Það er 581 km², 72 km langt, breiðast 14 km, og allt að 310 m djúpt.  60% vatnsins eru í Sviss en 40% í Frakklandi.

Um 2500 f.Kr. var staurahúsabyggð á núverandi hafnarsvæði borgarinnar.  Rómverjar hernámu þar víggirta, keltneska byggð árið 120 f.Kr.  Júlíus Sesar gat byggðarinnar fyrst í 'De Bello Gallico Commentarii'.  Hann lét eyðileggja brúna yfir Rhône árið 58 f.Kr. til að stöðva framrás helvetika til Gallíu.  Árið 443 varð Genf höfuðborg Búrgúnda, varð franknesk 534, aftur búrgúnsk seint á 9. öld og innlimuð í 'Hið heilaga rómverska ríki hinnar þýzku þjóðar' árið 1033.

Langvarandi deilum milli biskupanna og Savoyaðalsins lauk með innreið siðbótar Kalvíns í Genf.  Hann kom til baka úr útlegð í París 1536 og hóf samstarf við Guillaume Farel, sem hafði byrjað baráttuna gegn katólskunni.  Árið 1602 reyndu Savoyar að ná Genf undir sig á ný án árangurs.  Árin 1798-1813 réðu Frakkar á Genfarsvæðinu en árið 1814 varð Genf 22. kantóna Sviss.  Árið 1865 var Rauði krossinn stofnaður í Genf.  Árin 1920-1946 sat þing landsins í borginni.  Rithöfundurinn, sem hafði mest áhrif á stjórnarbyltinguna í Frakklandi 1879, Jean-Jacques Rousseau (1712-78) fæddist í Genf.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM