Uppsala Svíþjóð,
Sweden: Flag


UPPSALA
SVÍÞJÓÐ

.

.

Utanríkisrnt.

 

Expedia.com 

Uppsala er höfuðborg Uppsalaléns í miðausturhlutanum, 64 km norðvestan Stokkhólms.  Hún var stofnuð sem verzlunarstaðurinn Östra Aros við Fyrisána nokkrum kílómetrum frá Gömlu-Uppsala, sem var pólitísk- og trúarlega miðstöð hins forna konungsdæmis Svea.  Á þrettándu öld var nýja Uppsala orðin að konungssetri og mikil viðskiptamiðstöð.  Þrátt fyrir tilfærslu stjórnsýslunnar til Stokkhólms, var borgin áfram setur erkibiskups landsins.  Gotneska dómkirkjan, sem er stærst slíkra kirkna í landinu, gnæfir yfir borginni.  Bygging hennar hófst síðla á 13. öld og gekk hægt, þannig að hún var ekki vígð fyrr en 1435.  Hún eyddist í nokkrum eldsvoðum en endurbyggingu var lokið seint á 19. öld.  Andspænis dómkirkjunni er Gustafianum, miðaldahöll biskupa með forngripa- og menningarsögusafni.

Uppsala er rómuð mennta- og menningarborg.  Þar er mikill fjöldi skóla.  Háskólinn er hinn elzti í landinu, stofnaður 1477 og bókasafn hans (1841), Karolina Rediviva, er eitt hið stærsta í Svíþjóð.  Meðal annarra skoðunarverðra staða er miðaldakastali Gústafs Vasa.  Bygging hans hófst um miðja 16. öld og endurbygging hans að hluta fór fram á 18. öld.  Árið 1654 sagði Kristína drottning af sér þar og nú býr lénstjórinn þar.  Einnig má nefna grasagarð og hús grasafræðingsins og landkönnuðarins Karolus Linnaeus og Viktoríusafnið, sem hýsir egypzkar fornminjar.

Eftir að borgin komst í járnbrautasamband árið 1860 varð iðnvæðing hröð.  Prentverk og útgáfustarfsemi er mikil auk framleiðslu lyfja og vélbúnaðar.  Borgin er mikilvæg miðstöð járnbrautasamgangna og hersins.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1993 var 175 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM