Svíþjóð menning,
Sweden: Flag


SVÍÞJÓÐ
MENNING

.

.

Utanríkisrnt.

Svíar hafa þróað með sér nútíma iðnmenningu, sem þeir byggja á náttúruauðlindum, tækniþekkingu og gæðatilfinningu.  Íbúarnir hafa verið trúir siðum sínum og hefðum, m.a. vegna þess, hve landið var afskekkt.  Sænskt samfélag einkenndist af einfaldleika og jafnvel hörku, sem skapaðist af legu landsins og efnahagsskilyrðum.  Sænskir kaupahéðnar fluttu með sér nýjar hugmyndir og vörur, sem urðu hluti menningarinnar.  Á 18. öld gætti mjög franskra áhrifa.

Allt frá 19. öld hafa Svíar haft áhrif á listir, hönnun, tónlist og kvikmyndir heimsins.  Nútímaframlag þeirra í leirlist, húsgagnagerð, gler-, silfur- og stálvöru og vefnaði hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir fegurð, einfaldleika og notagildi.  Kunnasta glerlistafyrirtæki landsins er Orrefors.Framlag efnafræðingsins og verkfræðingsins Alfred Nobels til lista og vísinda heimsins má líklega teljast eitt hið kunnasta í heiminum.  Svíar veita fjögur af fimm verðlaunum í hans nafni úr sjóði, sem hann stofnaði.  Konunglega sænska vísindaakademían veitir verðlaunin fyrir efna- og eðlisfræði, Karolinska stofnunin fyrir lífeðlisfræði og læknavísindi og Sænska akademían fyrir bókmenntir.  Friðarverðalun Nobels veitir Noregur.  Árið 1968 stofnaði Svíþjóðarbanki  til sjöttu verðalunanna fyrir hagfræði og Sænska vísindaakademían afhendir þau.


Bókasöfn og söfn Meðal aragrúa safna í Svíþjóð eru almennings-, héraðs- og rannsóknarbókasöfn tengd háskólum, stofnunum og ríkissöfnum.  Eftirtalin söfn eru meðal hinna stærstu:  Við háskólana í Uppsala, Gautaborg, Lundi og Stokkhólmi.  Konunglega bókasafnið og bókasafn Konunglegu sænsku akademíunnar (Stokkhólmur) og borgarbókasöfnin í Gautaborg og Stokkhólmi.

Flestar hinna stærri borga landsins státa af fjölda annarra safna.  Þekktasta safnið er Þjóðminjasafnið í Stokkhólmi.  Þar eru varðveittir aðaldýrgripir þjóðarinnar.  Meðal annarra merkilegra safna eru Skansen (útisafn), Samtímalistasafnið og Sænska náttúrugripasafnið.  Listasafnið í Gautaborg og Menningarsögusafnið í Lundi eru líka ofarlega á lista.


Listir Talið er að rekja megi sænska list alla leið aftur til bronzaldar (1500-500 f.Kr.).  Skrautmunir frá þessu tímaskeiði gefa til kynna sjálfstæða listmótun.  Steinstyttur voru fyrst gerðar á eyjunni Gautlandi í kringum 500 f.Kr.  Listirnar döfnuðu, þó einkum höggmyndalist, í tengslum við kirkjubyggingar á tímabilinu 1100-1350.  Eftir að miðöldum lauk varð listaþróun í landinu oft fyrir miklum evrópskum áhrifum.  Meðal þekktra, sænskra listamanna 18. aldar voru málararnir Carl Gustav Pilo og Alexander Roslin og myndhöggvarinn Johan Tobias von Sergel.  Mætir listamenn á 19. öld voru m.a. Carl Fredrik Hill og Ernst Josephson.  Heimsþekktir listamenn 20. aldar eru málarinn Anders Leonhard Zorn og myndhöggvarinn Carl Milles.

Svíar komust á lag með að byggja góð bjálkahús á miðöldum og þessi byggingaraðferð var mikið notuð í landnemabyggðum BNA.  Þróun byggingarlistarinnar hófst ekki í alvöru fyrr en síðla á 19. öld og síðan hefur hvert afrekið rekið annað.  Meðal nafntogaðra arkitekta voru Ragnar Östberg, Erik Gunnar Asplund og Sven Gottfrid Markelius.

Sænskar kvikmyndir hafa unnið sér sess á alþjóðavettvangi.  Margir góðir leikstjórar og kvikmyndagerðarmenn hafa lagt hönd á plóginn, m.a. Ingmar Bergman, Arne Edvard Sucksdorff og Arne Mattsson.

Tónlist.  Stærsta framleg Svía til tónlistar hefur verið á söngsviðinu.  Meðal frægra söngvara má nefna Jenny Lind, Christina Nilsson, Jussi Björling og Birgit Nilsson.  Þjóðlagatónlistin byggist á náttúrulegu umhverfi og fjarlægð landsins í aldanna rás.  Á 18. öld blómstaði menningarlífið í landinu.  Þá stofnaði Gustav III, konungur, Tónlistarakademíuna, Óperuna í Stokkhólmi og Konunglega ballettinn.  Franz Berwald ávann sér alþjóðaviðurkenningu sem tónskáld.  Meðal nútímatónskálda eru Hugo Alfvén, sem byggir verk sín á þjóðlögum, Hilding Rosenberg og Karl-Birger Blomdahl.  Söng- og hljómsveitin ABBA varð heimsfræg eftir sigur í Evrópusöngvakeppninni og opnaðir norrænum popptónlistarmönnum leiðina til frægðar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM