Gautaborg Svíþjóð,
Sweden: Flag


GAUTABORG
SVÍÞJÓÐ
.

.

Utanríkisrnt.

Expedia.com 

Gautaborg er næststærst og suðvestust borga Svíþjóðar á báðum bökkum Gautelfar við Kattegat.  Borgin er mikilvægasta hafnar- og verzlunarborg landsins.  Þar er háskóli og tækniskóli og þar situr biskup mótmælenda.  Þetta stjórnsetur héraðanna Gautaborg og Bohus byggist einkum á  stóriðnaði, skipasmíðum, bílaverksmiðjum (Volvo), kúluleguframleiðslu og efnaiðnaði.  Farþegaskip sinna áætlunum milli Gautaborgar, Kaupmannahafnar, Ósló, Kiel, Lübeck-Travermünde o.fl. staða.

Borgin er tiltölulega ung.  Gustav II Adolf, konungur, veitti henni forréttindi með bréfi dags. 4. apríl 1621.  Hollenzkir innflytjendur höfðu veruleg áhrif á uppbyggingu og útlit borgarinnar og í fyrstu stjórn hennar sátu 10 þeirra auk 7 Svía og eins Skota.  Höfnin varð brátt hin mikilvægasta í landinu vegna umskipunar timburs og járns.  Á tímum Napóleonsstyrjaldanna og hafnbanns Englendinga á Frakka, var Gautaborg aðalviðskiptahöfn Norður-Evrópu og kaupmannastéttin auðgaðist verulega.  Atlantshafssiglingarnar frá upphafi 20. aldar juku enn mikilvægi Gautaborgar og u.þ.b. fjórðungur kaupskipaflota Svía á heimahöfn þar.  Höfnin er að mestu leyti íslaus og skurðakerfi hennar, sem er 20 km langt, gerir hana að stærstu höfn Norður-Evrópu.  Allt að 225.000 brúttótonna skip komast þar um og geta lagzt að bryggju.  Íbúar borgarinnar eru opnir og frjálslyndir.  Þeir hafa alltaf verið vestrænir í hugsun og fundizt Stokkhólmur svo fjarri, að hann gæti allt eins verið í Síberíu.  Sagt er, að Gautaborgarbúar spenni regnhlífarnar sínar alltaf, þegar rignir í London.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM