Verg
þjóðarframleiðsla Svía árið 1994 var í kringum 206 milljarðar
US$ ($23.630- á mann). Iðnvæðing borgarsamfélagsins í landinu byggist aðallega
á miklum skógum, auðugum járnnámum og gnótt vatnsfalla til
orkuframleiðslu. Ríkisstjórnir
landsins geta beitt ýmsum aðgerðum til að halda efnahagslífinu stöðugu,
þótt rúmlega 90% iðnfyrirtækjanna séu einkarekin.
Fjárlög
ársins 1996 voru 109,4 milljarðar US$ tekjumegin og 146 milljarðar
gjaldamegin. Svíar eru meðal
þjóða, sem njóta beztu lífskjara í heimi en á fyrri hluta tíunda
áratugar 20. aldar skall á alvarleg efnahagskreppa.
Ríkisstjórnin brást hart við og tók velferðarkerfið til
endurskoðunar. Einnig var gripið til einkavæðingar ýmissa ríkisfyrirtækja,
s.s. á sviðum fjarskipta og orkuveitu.
Einkafyrirtæki annast rúmlega 90% framleiðslunnar.
Snemma árs 1991 var skattalögum breytt og tekjuskattar voru lækkaðir
hjá hinum tekjuhæstu og hækkaðir á vöru og þjónustu.
Landbúnaður.
Svíar eru allt að því sjálfum sér nægir með landbúnaðarafurðir,
þótt einungis 9% landsins séu ræktuð.
Mikil notkun tilbúins áburðar og vélvæðing auka
afraksturinn, þrátt fyrir að víða sé jarðvegur ófrjósamur,
landslag erfitt og ræktunartími stuttur. Mesta landbúnaðarhérað landsins er Skánn.
Sænsk býli eru mjög misstór og mörg smábýli hafa sameinast
hinum stærri. Framleiðendur
leggja áherzlu á að þjóna innanlandsmarkaðnum og u.þ.b. 3%
vinnuaflsins eru bundin í landbúnaði, skógarhöggi og fiskveiðum.
Eftir síðari heimsstyrjöldina dró smám saman úr fullvinnslu
mjólkur og meiri áherzla var lögð á ræktun korns og grænmetis.
Uppskeran 1994 í rúmmetrum:
Hveiti (1,36 millj.), bygg (1,712m), sykurrófur (2,136m), rúgur
(1,024m) og rapsfræ (210þ). Kvikfé
1992: Nautgripir 1,8 millj., svín 2,1 millj., sauðfé 483 þ. og
13 millj. hænsna.
Skógarhögg.
Svíar eiga mestu timburbirgðir í Vestur-Evrópu og eru meðal
mestu framleiðenda viðarvara í heimi.
Trjáviðurinn stendur undir miklum iðnaði og útflutningi.
Timburframleiðslan árið 1993 var 25,8 millj. rúmmetra í trjábolum
til borðaframleiðslu og 32,2 millj. rúmmetra til pappírsframleiðslu.
Beztu skógasvæðin eru í undirhlíðum norðurhálendisins og
í Smálöndum. Timburverksmiðjur
eru í röðum meðfram Botníuflóa og sumar stærstu árnar, sem renna
til hans, eru notaðar til að fleyta viðnum til verksmiðjanna og
framleiða rafmagn fyrir þær.
Fiskveiðar.
Árlegur afli sænskra fiskiskipa er rétt innan við 400 þúsund
tonn, þar af 25% síld og aðrar tegundir eru m.a. þorskur og blaðsíld.
Gautaborg er mikill fiskibær.
Námugröftur
er mikilvægur fyrir iðnað Svía.
Hágæða járngrýti finnst í Mið- og Norður-Svíþjóð,
einkum í kringum Kiruna og Malmberet.
Grjótið, sem er grafið úr jörðu árlega inniheldur u.þ.b.
19,3 millj. rúmmetra af járni, 123.000 rúmmetra af blýi og silfri og
332.100 rúmmetra af kopar (tölur frá 1991). Sínk, gull, hráolía, úran og brennisteinskís eru líka nýtt.
Úranbirgðir Svíþjóðar eru nálægt 15% af heimsbirgðunum.
Framleiðsla.
Allt frá 1880 hefur iðnaður og framleiðsla iðnvara verið
vaxandi. Frá miðjum sjöunda
áratugi 20. aldar jókst verðmæti framleiðslunnar um 2% að meðaltali
á ári og nú er landið í röð mest iðnvæddu landa heims.
Iðnaður landsins nýtur hágæðahráefna og mjög velmenntaðs
vinnuafls.
Árið
1994 var 21% vinnuaflsins (vinnuafl alls þá 4,8 millj.) bundið í
framleiðslugreinum og skapaði rúmlega fimmtung þjóðarframleiðslunnar. Flestar verksmiðjur eru í einkaeign og flestar fremur
litlar. Nálægt 90%
framleiðslunnar kemur frá einkareknum fyrirtækjum.
Svíar eru kunnir fyrir framleiðslu hágæðastáls.
Árið 1991 framleiddu þeir 4,2 millj. rúmmetra af stáli.
Aðalframleiðslan auk stáls er ál, blý, kopar, farartæki, vélbúnaður,
rafmagns- og rafeindatæki, timbur, pappír, sement, húsgögn, gler og
glervörur, efnavörur, olíuvörur, textílvörur og fatnaður,
skrautmunir, flugvélar, skip og matvæli. Helztu framleiðslusvæðin eru í eða við borgirnar Stokkhólm,
Gautaborg Linköping, Malmö og Trollhättan.
Orkugeirinn.
Svíar hafa næstum fullnýtt vatnsorkuna í landinu til
rafmagnsframleiðslu. Árið
1993 framleiddu vatnsorkuver u.þ.b. 53% raforkunnar og önnur 30% voru
framleidd í kjarnorkuverum. Árið
1994 var heildarframleiðslan 137 milljarðar kílóvattstunda.
Vegna strangrar löggjafar um umhverfismál hefur ríkið lagt
mikla áherzlu á að finna lausnir á framtíðarþörfum landsins á
þessu sviði, því að möguleikar til virkjunar vatnsorku eru
takmarkaðir og Svíar hafa sett sér það markmið að hætta að nota
kjarnorkuver árið 2010.
Fjármál.
Gjaldmiðill landsins er krona = 100 aurar.
Sænski ríkisbankinn (1668) sér um seðlaútgáfu og mótar
stefnu í peningamálum í samráði við ríkisstjórnina.
Alls starfa 16 verzlunarbankar með fjölda útibúa og 90
sparisjóðir og nokkur fjármálafyrirtæki í landinu.
Kauphöllin er í Stokkhólmi.
Árið 1992 aftengdust Svíar ECU og gengislækkun jók útflutning.
Síðan tóku Svíar evruna upp árið 2001.
Útflutningur. Erlend viðskipti eru lífæð þjóðarinnar og Svíar eru
í Fríverzlunarsambandi Evrópu og ESB.
Helztu viðskiptalönd Svía eru Þýzkaland, Bretland, Noregur,
Danmörk, BNA, Finnland, Frakkland, Holland, Ítalía, Belgía og
Luxemburg.
Árið
1994 nam verðmæti útflutnings 61 milljarði US$ og innflutnings 52
milljöðrum. Talsverður
viðskiptahalli hefur verið síðan 1990.
Aðalútflutningsvörurnar eru timbur, vélbúnaður, farartæki,
járn og stál, efnavara og skip. Helztu
innflutningsvörur eru vélbúnaður, eldsneyti, flutningatæki,
efnavara, vefnaðarvörur, matvæli, járn og stál.
Samgöngur.
Samgöngumiðstöðvar landsins eru flestar í suðurhlutanum.
Vegakerfið er u.þ.b. 135.900 km langt (>70% með slitlagi).
Farartæki eru rúmlega 4 milljónir (3,6 m. fólksbílar).
Brúin yfir Eyrarsund milli Malmö og Kaupmannahafnar er 16 km löng
(bygging hófst 1995). Járnbrautir
eru u.þ.b. 12.400 km langar og eru að langmestu í eigu ríkisins og
60% þeirra eru rafvæddar. Mikil
umferð er á skurðum og vatnakerfi landsins.
Göta-skurðurinn er núorðið að mestu notaður fyrir ferðamannaumferð
en einnig fyrir vöruflutninga. Kaupskipafloti
Svía er allstór (2,2 millj. tonn).
Stokkhólmur og Gautaborg eru aðalhafnarborgir landsins.
SAS-flugfélagið
er rekið í samvinnu Dani og Norðmenn.
Það annast millilandaflug fyrir öll löndin. Tilraunir til að gera það samkeppnishæfara við brezk, frönsk
og þýzk flugfélög hafa verið gerðar með samruna við KLM,
Konunglega hollenzka flugfélagið, Swissair og Austrian Airlines fóru
út um þúfur í nóvember 1993. Flugfélagið
Linjeflyg annast innanlandsflug. Aðal
millilandaflugvellirnir eru Arlanda (við Stokkhólm), Landvetter (við
Gautaborg) og Sturup (við Malmö).
Fjölmiðlar.
Árið 1994 komu út 175 dagblöð með 4,6 milljón eintaka útbreiðslu.
Expressen, Aftonbladet, Dagens Nyheter og Svenska Dagbladet, öll
gefin út í Stokkhólmi og Göteborgs-Posten eru stærstu dagblöðin.
Símkerfi landsins er háþróað.
Sænska talsímafélagið annast
rekstur þess ásamt útvarpi og sjónvarpi.
Árið 1993 voru u.þ.b. 6 milljónir símtækja í landinu auk 1
milljónar farsíma, 7,2 milljónir viðtækja og 3.5 milljónir sjónvarpstækja.
Sama ár var ríkisútvarpinu skipt í þrjú sjálfstæð fyrirtæki. Árið 1994 náðu 65% heimila sendingum um gervitungl.
Níu sjónvarpsútsendingar fara um gervitungl og kapla.
Vinnuafl.
Árið 1994 taldi vinnuaflið 4,2 milljónir manna:
21% í iðnaði, 38% í þjónustustörfum og 9% í viðskiptum
og fjármálastarfsemi. Í
landbúnaði, skógarhöggi og fiskveiðum unnu aðeins 3%.
Árið 1992 voru 84% verkafólks í verkalýðsfélögum, sem er
hæsta hlutfall meðal iðnríkja.
Vinnuskilyrði og samstarf launþega og vinnuveitenda er gott og
verkföll fátíð. |