Svartfjallaland sagan,
Flag of Serbia and Montenegro


SVARTFJALLALAND
SAGAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Á rómverskum tíma var Svartfjallaland hluti af héraðinu Illýríu.  Slavar settust þar að á 7. öld og stofnuðu sjálfstæða ríkið Zeta, sem Serbneska heimsveldið innlimaði seint á 12. öld.  Það hélt sjálfstæði sínu eftir sigur Tyrkja á Serbum við Kosovo Polje árið 1389.  Eftir 1516 stjórnuðu furstabiskupar (vladike) rétttrúnaðarkirkjunnar.  Svartfellingar áttu oft í útistöðum við Tyrki og Albana og tóku upp samband við Rússa eftir 1711.

Við samningana á ráðstefnunni í Berlín 1878 tvöfaldaðist stærð Svartfjallalands og sjálfstæði þess var viðurkennt.  Vegna andstöðu Albana náðist ekki samkomulag um suðurlandamærin fyrr en 1880.  Svartfellingar náðu yfirráðum yfir allri Podgorica-sléttunni og 40 km langri strandlengju með hafnarbæjunum Bar (Antivan) og Ulcini (Dulcigno).  Nikulás I, sem var við völd á árunum 1860-1914, lýsti sig konung Svartfjallaland 1910.  Í Balkanstríðunum 1912-13 bundust Serbía og Svarfjallaland samtökum gegn Tyrkjum og Nikulás I lét skjóta fyrsta skotinu.  Eftir lok þeirra jókst land Svartfellinga að landamærum Serbíu.

Í fyrri heimsstyrjöldinni studdu Svartfellingar Serba.  Þegar Austurrísk-ungverska keisaradæmið flutti heri sína brott snemma í nóvember 1918, komu serbneskar herdeildir og sjálfstæðir herflokkar í staðinn.  Undir stjórn þessara afla kom þingið saman og ákvað að svipta Nikulás I konungsdæmi og sameina landið Serbíu.  Þá varð það hluti serbneska, króatíska og slavneska konungsríkisins, sem fékk nafnið Júgóslavía árið 1929.

Ítalskar hersveitir lögðu hluta Svartfjallalands undir sig í apríl 1941.  Í sama mánuðu hófst uppreisn í landinu og þar var barizt næstum sleitulaust til 1944, þegar skæruliðar kommúnista, vopnaðir brezkum vopnum, réðu mestum hluta landsins.  Kommúnistar í Svartfjallalandi voru meðal harðsvíruðustu bardagamanna Josip Broz Títós og voru fjölmennir í foringjastöðum hers hans.  Í nýrri stjórnarskrá landsins (1946) varð landið meðal sex sjálfstæðra sambandsríkja Júgóslavíu.  Þegar landið limaðist í sundur 1991, voru Svartfellingar hinir einu, sem kusu áframhaldandi samband við Serba í nýju ríkjasambandi.  Heildarflatarmál landsins  er 13.812 km2 og áætlaður íbúafjöldi árið 1993 var 626 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM