Suður Kórea stjórnsýsla,
Flag of Korea, South


SUÐUR KÓREA
STJÓRNSÝSLAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Eftir stjórnarskrárbreytingar 1987 er talað um sjötta lýðveldið í Suður-Kóreu.  Samkvæmt nýju stjórnarskránni er stjórnsýslan með svipuðu skipulagi og hin bandaríska og aðskilnaði löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds.  Mikil miðstýring réði ríkjum fram að gildistöku hennar.  Forsetinn hefur verið kosinn í beinum kosningum síðan 1987 til fimm ára í senn.  Hann er æðsti maður ríkisins, framkvæmdavaldsins og hers landsins.  Ríkisráðið sitja forsetinn, forsætisráðherra og ráðuneyti hans og ráðherrar án sérstaks embættis.  Forsetinn skipar forsætisráðherra og þingið verður síðan að samþykkja skipunina.  Löggjafarvaldið er í höndum þingsins (Kuk Hoe), sem starfar í einni deild.  Þingið var endurreist 1980 eftir að það hafði verið óvirkt um nokkurra ára skeið og völd þess jukust verulega árið 1987.  Þingmennirnir 299 er kosnir í beinum og óbeinum kosningum til fjögurra ára.

Landinu er skipt í níu stjórnsýslueiningar (do eða to), Cheju, Norður-Cholla, Suður-Cholla, Norður-Ch’ungch’ong, Suður-Ch’ungch’ong, Kangwon, kyonggi, Norður-Kyongsang og Suður Kyongsang og Seoul (t’ukpyolsi) og fimm aðrar stórborgir (kwqngyoksi), Pusan, Taegu, Inch’on, Kwangju og Taejon.  Hvert þessara stjórnsýslusvæða er undir stjórn löggjafaráða, sem eru kosin í beinum kosningum.  Héruðunum er síðan skipt niður í sýslur (gun) og borgir (si) sem er skipt í svæði (ku) og hverfi (tong).  Héraðsstjórar og borgarstjórar stórborganna eru kosnir í beinum kosningum.

Til ársins 1972 ríkti tveggja flokka kerfi í landinu.  Þá jukust völd stjórnarflokksins verulega og áhrif stjórnarandstöðunnar minnkuðu vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.  Á níunda áratugnum voru takmarkanir stjórnarinnar á starfsemi annarra flokka afnumdar.  Stjórnarandstöðunni var leyft að taka fullan þátt í stjórnmálalífinu en hún klofnaði og fleiri flokkar spruttu upp.  Lýðveldisflokkurinn (DJP), sen hefur verið við stjórn síðan hann var stofnaður árið 1963, varð að Frjálslynda lýðveldisflokknum árið 1990, þegar tveir stjórnarandstöðuflokkar sameinuðust honum.  Lýðræðisflokkurinn og Sameinaði þjóðarflokkurinn eru orðnir aðalstjórnarandstöðuflokkarnir.

Dómskerfið.  Æðstu dómstig landsins eru Hæstiréttur og þrír áfrýjunardómstólar, 12 héraðsdómar og fjölskyldudómstóll.  Hæstirétti er ætlað að túlka stjórnarskrána og lög héraðanna og hafa eftirlit með reglugerðum og aðgerðum ríkisstjórna landsins.  Forsetinn skipar yfirdómara með samþykki þingsins eftir tillögum dómararáðsins.

Herinn og öryggismál.  Suður-Kórea hefur stóran og velbúinn her (landher, sjóher og flugher), sem er þó talsvert minni en hinn norðurkóreski.  Landherinn er langstærstur og getur gripið til fjölmenns varaliðs.  Allir karlmenn eru herskyldir og aðalmarkmið hersins er að koma í veg fyrir eða verjast innrás frá Norður-Kóreu.  Eftir Kóreustríðið 1953 sömdu Suðurkóreumenn um hernaðarbandalag við BNA og síðan hafa verið stórar herdeildir Bandaríkjamanna í landinu.

Þjóðaröryggisstofnunin sér um söfnun upplýsinga, sem varða þjóðaröryggi.  Öryggisstofnun hersins er á höndum stjórnar varnarmála.  Ríkislögreglan annast almenn lögreglustörf, eftirlit með starfsemi kommúnista og berst við óeirðaseggi.

Menntunarmál.  Skólaskyldan er 6 ár og nánast öll börn ganga í skóla.  Langflest börn halda áfram í gagnfræðaskóla (3 ár) og langflestir gagnfræðingar halda áfram námi í mennta- eða tækniskólum.  Þriðjungur (u.þ.b.) menntaskólanema halda áfram á háskólastigi.  Háskólum og skólum á háskólastigi fjölgaði mjög eftir síðari heimsstyrjöldina.  Flestir beztu skólanna eru í Seoul.  Aðgangi að æðri menntastofnunum er stýrt með mjög erfiðum inngönguprófum, sem nemendur verða að undirbúa sig vel fyrir.

Heilbrigðiskerfið.  Eftir Kóreustríðið batnaði aðgangur að heilsugæzlu gífurlega en enn þá er pottur víða brotinn vegna ófullnægjandi aðstöðu og fæðar starfsfólks, einkum í sveitum landsins.  Flestir landsmenn njóta nú tryggingarkerfis.  Heilsu landsmanna og hreinlæti hefur farið mjög fram og dregið hefur úr faröldrum.  Lífslíkur frá fæðingu jukust verulega eftir miðja síðustu öld, þegar dánartíðnin minnkaði um rúmlega helming.

Almenna tryggingarkerfið er tiltölulega nýtt og hefur sínar takmarkanir.  Það tryggir umönnun fatlaðra hermanna, heimili fyrir ýmsa hópa (eldri borgara, heimilislausa, fatlaðar stríðsekkjur og munaðarlausa), atvinnumenntun kvenna og vörzlu ungra afbrotamanna.  Í kjölfar eyðileggingar Kóreustríðsins komu ýmsir aðilar til skjalanna við uppbygginguna (Sameinuðu þjóðirnar, ýmsar stofnanir Bandaríkjahers og félög sjálfboðaliða).  Tekjur heimilanna jukust verulega, einkum meðal iðnverkafólks.  Þrátt fyrir allar þessar almennu framfarir og bætt lífskjör, virðist erfitt að bæta kjör þeirra, sem búa í sveitum landsins. 

Húsnæðismál.  Borgir landsins hafa þanizt út, einkum Seoul og Pusan, og landslag þeirra hefur breytzt verulega.  Fyrir 1960 voru háhýsi fá og flest hús lægri en tíu hæða.  Nú eru háhýsablokkir algengar í stórborgunum.  Vegna þessarar hröðu þróunar hefur verið erfitt að auka ýmsa þjónustu samtímis (vatnsveitur, samgöngur og fráveitur).  Þróunin er hægari en fjölgun íbúanna, þannig að húsnæðiseklu gætir enn þá.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM