Suður Kórea menningin,
Flag of Korea, South


SUÐUR KÓREA
MENNINGIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kenningar Konfúsíusar, búddatrú og shamantrú eru grundvöllur nútímamenningar Kóreumanna.  Allt frá síðari heimsstyrjöldinni og einkum eftir Kóreustríðið hefur þjóðin verið opin fyrir þróun nútímans, þótt gamalgrónar hefðir og siðir kraumi undir niðri.  Sögulega séð er Kórea á áhrifasvæði kínverskrar menningar, þótt Kóreumenn hafi lagað hana að eigin þörfum.  Þjóðminjasafnið í Seoul geymir minjar um kóreska menningu, þ.á.m. fjölda þjóðargersema.  Safnið rekur útibú í átta öðrum borgum landsins.  Meðal staða, þar sem fornleifauppgröftur fer fram, er Kyongju, hin forna höfuðborg Silla með grafhaugunum og Kongju og Puyo, tvær fyrrum höfuðborgir Paekche.

Byggingarlistin

er greinilega undir kínverskum áhrifum en hefur verið löguð að aðstæðum og aðgengilegustur byggingarefnin, granít og timbur, hafa verið notuð.  Fegurstu dæmin um þessa listgrein eru gamlar hallir, búddahof, steingrafir og búddastrýtur (pagódur).  Vestræn byggingarlist hélt innreið sína á áttunda áratugi 20. aldar og breytti útliti borga á afgerandi hátt.

Málara- og leirlist.
Meðal fyrstu málverka kóreskrar menningar eru á veggjum konunglegu grafhýsanna í Koguryo.  Hinar kunnustu eru í Ssangyong gröfunum við Yonggang í Norður-Kóreu.  Leirlistin varð háþróuð og dafnaði á Koryo-tímabilinu, breiddist út til Japans og hvert einstakt hérað landsins státaði af sínu sérstaka yfirbragði þessarar listar.  Stærsta nútímalistasafn landsins er í Þjóðminjasafninu í Kwach’on í grennd við Seoul.

Dans og tónlist.
Þjóðdansar og þjóðlög, leikin á innlend hljóðfæri, dafna enn þá, einkum við sérstakar athafnir og hátíðarhöld.  Ríkið hefur lagt áherzlu á varðveizlu þjóðlegra lista.  Þjóðmenningarstofnunin fyrir klassíska, þjóðlega tónlist (fyrrum tónlistarhöll Yi prins) er meðal stofnana, sem stuðlar að henni.  Þar hefur verið sérstök deild helguð henni frá 1954.  Þjóðarsymfónían og synfóníuhljómsveit Seoul eru tvær hinna beztu í landinu, sem flytja vestræna tónlist.

Afþreying.
Suðurkóreumenn eru áhugasamir útiveru- og íþróttaiðkendur.  Sjálfsvarnaríþróttin „tae kwon do” og hefðbundin glíma, „ssinum”, eru iðkaðar víðast um landið.  Knattspyrna og hornabolti eiga sér mikinn fjölda aðdáenda.  Sumarólympíuleikarnir í Seoul efldu þjóðarstoltið, leiddu til byggingar fjölda íþrótta- og menningamiðstöðva og jók fjölbreytni kóreskrar menningar.  Þjóðgarðar landsins laða til sín fjölda náttúruunnenda, göngu- og skíðafólks og tjaldstæði þeirra eru vinsæl.

Fjölmiðlar.  Stjórnarskráin tryggir fjölmiðlum athafna- og ritfrelsi en á það skorti verulega fram að árinu 1987.  Allmörg dagblöð eru gefin út, sum með útbreiðslu um allt landið en önnur staðbundnari.  Þau fjalla m.a. um efnahagsmál, íþróttir og fréttir og enskar útgáfur eru í boði.  Yonhap fréttastofan er hin stærsta.  Auk ljósvakafjölmiðla ríkisins dafna æ fleiri einkareknar stöðvar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM