Suður Kórea íbúarnir,
Flag of Korea, South


SUÐUR KÓREA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Árdalir og láglendissvæði með ströndum fram eru þéttsetin misstórum þorpum.  Algengt er að sjá slíkar byggðir kúrandi við suðurrætur fjalla og hæða, sem skýla þeim fyrir kaldri norðvestanáttinni á veturna.  Víða með ströndinni er skammt milli fiskiþorpa.  Uppi til fjalla eru byggðirnar mun drefiðari og allt frá sjöunda áratugi 20. aldar hefur straumurinn legið úr dreifbýlinu til borganna.  Seoul og útborgir hennar, s.s. Avang, Songnam, Suwon og Puch’on, hafa vaxið gríðarlega og nú er erfitt fyrir ókunnuga að þekkja mörkin milli þeirra.  Aðrar borgir, sem svipaða sögu má segja um og hafa fleiri en 1 milljón íbúa eru Pusan, Taegu, Inch’on, Kwangju og Taejon.  Litlar og meðalstórar borgir, þjónustumiðstöðvar í dreifbýlinu, hafa ekki þróazt á svipaðan hátt, heldur staðið í stað.

Þjóðerni og tungumál.
Kóreska þjóðin tengdist líklega öðrum þjóðflokkum í Mið-Asíu, s.s. við Bækalvatn, í Mongólíu og við strendur Gulahafs.  Steinaldarminjar og aðrar Fornminjar, sem fundust í Sokch’ang nærri Kongju, eru mjög lík.  Útlendingum fer nú fjölgandi, aðallega í stórborgum landsins.  Auk bandarískra hermanna, borgarkínverja og erlendra viðskiptamanna og diplómata hafa tugþúsundir verkamanna streymt inn í landið frá Kína og Suðaustur-Asíu.  Kóreumenn tala kóresku, sem er oft talin meðal altæsku tungumálanna.  Hún er skyld japönsku og býr yfir fjölda kínverskra tökuorða.  Kóreska ritmálið, hangul í Suður-Kóreu og choson muntcha í Norður-Kóreu, er samansett úr hljóðtáknum fyrir hina 10 sérhljóða og 14 samhljóða.  Suðurkóreumenn rita málið oft með kínverskum táknum og hangul í bland, þótt tilhneiging sé til að nota kínversku táknin í minna mæli.  Fjöldi enskra orða og orðatiltækja hafa læðzt inn í málið frá því að bandaríkjamenn komu til landsins í kringum 1950.

Trúarbrögð.
Íbúar landsins búa við trúfrelsi samkvæmt stjórnarskránni og þeir búa ekki við nein opinber trúarbrögð.  Það er heldur ekkert algilt samræmi í trúarbrögðum þeirra, sem veldur gestum landsins talsverðum heilabrotum.  Þannig getur einstaklingur aðhyllzt búddisma og fylgt kenningum Konfúsíusar og Taós samtímis.  Búddismi, sem barst fyrst til landsins á 4. öld og var opinber trú Koryo-ættarinnar (918-1392), á sér flesta fylgjendur.  Kristnin er tiltölulega ný af nálinni, þar sem katólskir trúboðar komu fyrst til landsins á 18. öld.  Mótmælendatrúboðar komu einni öld síðar.  Núna mynda kristnir annan stærsta trúarhópinn í landinu og mótmælendur eru miklu fleiri en katólskir.  Kristnin hefur haft afgerandi áhrif á nútímavæðingu þjóðfélagsins.  Kenningar Konfúsíusar voru grundvöllur siðfræði landsmanna á dögum Choson- (Yi-) ættarinnar (1392-1910).  Þótt fylgjendur þeirra séu nú tiltölulega fáir, fylgja flestar kóreskar fjölskyldur meginreglum þeirra, þar með talið forfeðradýrkun.  Meðal hinna „nýrri” trúarbragða eru wonbulgyo (Won búddismi), Taejongyo og Ch’ondogyo.  Ch’ondogyo (himneska leiðin), sem gekk áður undir nafninu Tonghak (austræn speki), er blanda búddisma, konfúsíusisma, kristni og jafnvel taóisma.  Þessi trú breiddist út á síðari hluta 19. aldar.  Shamanismi, sem innifelur trú á guði, djöfla og anda forfeðranna og presta (shaman), sem hafa samband við þá, og hefðbundin andatrú eiga sér líka fylgjendur, þótt hefðir þeirra takmarkist við ákveðin tækifæri eins og jarðarfarir.

Búseta.
Íbúafjöldinn rúmlega tvöfaldaðist á áratugunum 1950-90.  Eftir 1960 dró mjög úr fæðinga- og dánartíðni.  Fæðingatíðnin dróst saman vegna áróðurs um fjölskyldustærð, sem hófst eftir 1965, og bættra lífsskilyrða, aukinnar menntunar og umskiptanna í þjóðfélaginu, sem breyttist úr bændasamfélagi í borgar- og iðnaðarsamfélag.

Ör fjölgun borgarbúa á kostnað dreifbýlisins eru aðaleinkenni þjóðfélagsins á þessum tíma og fram á okkar daga og 75% landsmanna búa nú í borgum, u.þ.b. helmingur í hinum sex stærstu.  Ungt fólk býr í borgunum og eldra fólkið varð eftir í dreifbýlinu.  Heildarfjöldi íbúa Suður-Kóreu er 2½ sinnum meiri en í Norður-Kóreu.

Mikill fjöldi Kóreumanna fluttist úr landi fyrir síðari heimsstyrjöldina.  Norðurkóreumenn fluttust til Mansjúríu og Suðurkóreumenn til Japans.  Nærri tvær milljónir þeirra bjuggu í Mansjúríu og Síberíu árið 1945 og svipaður fjöldi í Japan.  Mesti fólksstraumurinn lá frá Norður-Kóreu eftir síðari heimsstyrjöldina, aðallega í Kóreustríðinu og eftir það.  Tvær milljónir manna flúðu til suðurs á þessu tímabili og settust að í aðalborgunum.  Auk þessara fólksflutninga settist mikill fjöldi Kóreumanna að í öðrum löndum, s.s. BNA og Kanada.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM