Á
síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar breyttist stjórnskipulag Spánar
úr einræðisríki (Francisco Franco) til þingbundins konungsdæmis. Ný
stjórnarskrá gekk í gildi árið 1978.
Framkvæmdavaldið.
Þjóðhöfðingi landsins er konungur, sem er einnig yfirmaður hersins.
Framkvæmdavaldið er í höndum forsætisráðherra og ráðuneytis hans.
Konungur skipar hann og síðan verður þingið að leggja blessun sína yfir
valið. Heimastjórnarhéruð landsins eiga fulltrúa í ráði, sem hefur
ráðgefandi hlutverk.
Heilbrigðis- og velferðarmál.
Almanna tryggingarkerfið (1939) gerir ráð fyrir barnabótum. Fjár til
þeirra er aflað frá launþegum og vinnuveitendum. Eftirlaun,
sjúkratryggingar og mæðralaun hafa verið greidd síðan 1949. Sérstakur
sjóður sér um styrki til fátækra, barnaheimila og heilsugæzlu. Rúmlega
helmingur gjalda almannatrygginga fer til greiðslu eftirlauna, 30% til
heilbrigðiskerfisins. Árið 1994 störfuðu u.þ.b. 159 þúsund læknar í
landinu og framboð sjúkrarúma var 164.400.
Löggjöf.
Árið 1977 var spænska þinginu (Cortes) skipt í tvær deildir og fjöldi
þingmanna var alls 350, þar af 208 þjóðkjörnir og 46 héraðskjörnir.
Þeir eru kosnir til fjögurra ára í senn í hlutfallskosningum.
Kosningaaldur er 18. ár. Öldungarnir eru kosnir beinni kosningu til
fjögurra ára í héruðum landsins. Hvert hérað á meginlandinu á fjóra
fulltrúa og aðrir 20 koma frá Baleareyjum, Kanaríeyjum, Ceuta og Melilla.
Stjórnmálaflokkar.
Fjöldi stjórnmálaflokka er mikill á Spáni. Helztir þeirra á árunum
1989-96 voru Spænski, sósíalíski verkamannaflokkurinn (PSOE) og
Þjóðarflokkurinn (íhaldsflokkur, sem var til við sameiningu Kristilegra
demókrata og Frjálslyndra). Einnig má nefna Demókratíska miðflokkinn,
Sameinaða vinstri menn (kommúnistar) og Flokka Baska og Katalóníumanna.
Baskaflokkurinn (ETA) hefur beitt hryðjuverkum gegn stjórnvöldum. Í
marzkosningunum 1996 fékk Þjóðarflokkurinn meirihluta og þar með lauk 13
ára stjórn PSOE.
Héraðs-
og sveitarstjórnir.
Stjórnarskráin frá 1978 gerir ráð fyrir tvenns konar heimastjórn með
mismunandi valdauppbyggingu. Katalónía, baskahéruðin og Galisía eru
skilgreind sem söguleg þjóðernissvæði, sem áttu einfaldari og greiðari
leið til sjálfstjórnar en önnur héruð. Hvert henna 17
heimastjórnarhéraða kýs sér einnar deildar löggjafarþing, sem velur
forseta úr röðum sínum. Sjö heimastjórnar svæði eru aðeins ein sýsla en
10 skiptast í tvær eða fleiri. Hver hinna 50 sýslna hefur sveitarstjórn,
sem velur sýslumann, bæjar- eða borgarstjóra.
Dómskerfið
á Spáni er undir yfirstjórn dómstólaráðs með yfirdómara hæstaréttar í
forsæti. Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins. Honum er skipt í 7
deildir, sem starfa í Madrid. Héraðsdómstólar eru 17, sýsludómstólar
eru 52 og síðan eru allmörg lægri dómstig, sem sjá um refsidóma,
atvinnudóma og unglingadóma. Hlutverk stjórnarskrárdómstólsins er að
tryggja að brot gegn stjórnarskránni séu ekki framin.
Varnarmál.
Spánarher er vel búinn vopnum og tækjum. Herskylda er níu mánuðir fyrir
karlmenn en síðan 1989 hafa konur átt aðgang að öllum deildum hersins.
Árið 1996 voru hermenn alls 144.700, sem skiptust milli sjóhers
(31.900), flughers (29.400) og landhers (83.400). Þjóðvarnarliðið
(Guardia Civil) taldi á sama tíma 72.000. Spánn og BNA gerðu með sér
varnarbandalag, sem deilir herstöðvum á Spáni (sjó- og flugher). Spánn
varð aðili að NATO árið 1982. Þessi aðild var staðfest í
þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1986, en henni fylgdu þau skilyrði, að dregið
yrði úr herafla BNA í landinu. |