Murcia
er höfuðborg samnefndrar sýslu í sjálfstæðs stjórnsýsluhéraðs á
Suðaustur-Spáni. Hún er við ármót segura og Guadalentín-ánna á
frjósömu áveitusvæði (huerta = aldingarðaland) norðaustan Granadaborgar.
Þetta landsvæði var byggt, þegar Rómverjar lögðu Suður-Spán undir sig á
3. öld f.Kr., en nafn þess er ókunnugt, þótt sumir tengi það við
rómversku borgina Vergilia. Márískar heimildir geta um nafnið
Mursiyah. Arabíski landfræðingurinn Yaqut hélt því fram, að
furstinn (emírinn) af Córdoba, ‘Abd ar-Rahman II, hefði stofnað borgina
árið 825 og gert hana héraðshöfuðborg. Eftir
fall Kalífaríkisins Córdoba 1031, féll Murcia undir stjórn Almería og
síðar Valencia til 1063, þegar stjórnandi hennar, ‘Abd ar-Rahman ibn T
ahir, lýsti Murcia sjálfstætt konungsríki.
Seguraáin skiptir borginni. Norðan hennar er gamli
borgarhlutinn og hinir nýlegri sunnan hennar. Gotneska dómkirkjan Santa
María (14. öld) var endurbyggð á 18. öld. Þar er fögur kapella kennd
við Vélezfjölskylduna (1507). Í Jesúsklaustrinu (Ermita de Jesús) er
mestur hluti höggmynda Francisco Salcillo, sem laða að sér fjölda gesta
í Heilögu vikunni. Murciaháskólinn var stofnaður árið 1915.
Murcia er miðstöð
flutninga og landbúnaðar. Hveiti er unnið í borginni. Silkiiðnaður
borgarinnar, allt frá márískum tíma, er enn þá virkur. Verksmiðjur
borgarinnar framleiða m.a. ullarvöru, hördúk og baðmullarvöru, saltpétur,
leður, álvöru, húsgögn og höfuðföt. Áætlaður íbúafjöldi árið 1998 var
tæplega 350 þúsund. |