Mallorca áhugaverðir staðir,


MALLORCA
ÁHUGAVERÐIR STAÐIR
BALEAREYJAR
SPÁNN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Castillo de Bellver.  Haldið í vesturátt frá Palma (4 km) eftir Calle Andrea Doria að Pueblo Español (eftirmynd spænskra bygginga) í jaðri einbýlishúsahverfisins El Terreno.  Þaðan er haldið framhjá lystigarðinum Parque de Bellver að konungshöllinni *Castillo de Bellver (130m; 13. öld) með safni og inngarði með bogagöngum og turni (útsýni).

**Hringferð um Andraitx og Sóller.  Haldið til vesturs á hraðbrautinni eða bugðóttum C-719 veginum, sem tengjast handan Palma Nova og 20 km lengra koma vegamótin til Santa Ponsa.  Þar er vinsæll baðstaður og klettahöfði með minnismerki um lendingu kristnu hersveitanna árið 1229.  Áfram er haldið um Paguera, fallegan orlofsstað.  Andraitx er fallegur smábær í frjósömu umhverfi og ekið er 5 km í suðvestur að höfninni Puerto de Andraitx.  Frá Andraitx er ekið eftir C-710 að hrífandi vesturströndinni með fjölda útsýnisturna, gegnum þorpin Estellencs og Bañalbufar og lítið eitt frá ströndinni til þorpsins Valldemosa í fjallshlíð í 425 m hæð yfir sjó.  Á Cartujafjalli í baksýn þess er Karteusklaustur, þar sem Chopin dvaldi veturinn 1838-39.  Þar er safn og margt, sem minnir á hann.  Þaðan er haldið að bugðóttum strandveginum.  Svolítið afsíðis til vinstri er óðalið Miramar, sem Ludwig Salvator (1847-1915) erkihertogi lét reisa.  Skömmu síðar kemur óðalið Son Morroig í ljós (safn).  Áfram er haldið eftir útsýnisleiðinni til þorpsins Deyá (185m), sem er fagurlega í sveit sett á fjallskeilu og umkringt appelsínulundum.  Þar búa margir listamenn og við enda Listabrautarinnar er vegurinn til vinsæla ferðamannaþorpsins Sóller (55m) í dalverpi með fjölda appelsínu- og sítrónugarða.  Höfnin og Puerto de Sóllerströndin eru 4 km norðar.

Leiðin til baka til Palma liggur um fjallaskarðið Coll de Sóller (562m), með góðu útsýni yfir Palma og Palmafjörð.  Handan skarðsins eru *Afalbiagarðarnir.  Heildarvegalengdin er 125 km.

Fjallaferð til Cabo de Formentor, nyrzta odda Mallorca.  Leiðin liggur frá Palma til Sóller og síðan til hægri að höfninni til að komast að frábærri leið um fjöllin, sem liggur framhjá fallega fjallaþorpinu Fornalutx.  Þaðan tekur við bugðóttur útsýnisvegur upp á við til Mirador de Ses Barques (veitingahúsið Bellavista) og síðar er ekið í gegnum 600 m löng göng í 820 m hæð yfir sjó.  Síðan er ekið meðfram uppistöðulóni að herbúðunum Son Torrella.  Norðan þeirra gnæfir hæsti tindur eyjarinnar, Puig Mayor (1445m).  Þá tekur við uppistöðulónið Gorch Blau og göng og til vinstri til La Calobra (14 km) í grennd við gljúfrið *Torrente de Pareis.  Vegurinn liggur um *Mirador del Torrente de Pareis (664m) og síðar til vinstri Lluc-klaustrið með safni og veitingahúsi.  Þá er ekið niður á láglendið eftir karstlandslagi til fallega bæjarins Pollensa (70m).  Höfn bæjarins og baðströnd er 6 km norðar.  Vegurinn þaðan er svolítið hrikalegur með nokkrum jarðgöngum og útsýni er fagurt.  Hann liggur um Formentorskagann, sem er skógi vaxinn á köflum.  Tíu km lengra liggur ½ km langur vegur til hægri til Hótels Formentor.  Þegar 11 km í viðbót hafa verið lagðir að baki er stanzað á *Cabo de formentor (189m), frábærum útsýnisstað.  Heildarvegalengd aðra leiðina frá Palma er 112 km.

Frá Palma til Alcudia.  Vegur C-713 liggur til norðausturs um Huerta og Santa Maria til bæjarins Inca (38m; líklega byggður á dögum Rómverja) í 29 km fjarlægð.  Ekið er framhjá leiðinni til Pollensa þar til komið er til Alcudia (9m), gamaldags þorps við samnefndan fjörð.  Þar eru stæðilegir borgarmúrar frá 14. öld og lítið eitt austar rústir rómversks hringleikahúss.  Höfnin er 2 km austan miðbæjarins og þaðan teygist 10 km löng sandströnd meðfram firðinum.  Frá Puerto de Alcudia er hægt að aka meðfram Bahía til Ca’n Picafort.  Vegalengdin frá Palma til Alcudia er 54 km.

Frá Palma að dropasteinahellunum.  Manacor (110m) er önnur stærsta borg Mallorca í 50 km fjarlægð frá Palma eftir vegi C715.  Leiðin liggur um frjósöm héruð með mörgum vindmyllum, sem eru notuð til áveitna.  Manacor er einkum þekkt fyrir perluframleiðslu sína.  Fjórtán km sunnan borgarinnar er leirkerabærinn Felanitx.  Þaðan liggur 5 km leið upp að pílagrímskirkjunni á San Salvadorfjalli (509m) með frábæru útsýni.  Litlu sunnar er fjallavirkið Castillo de Santueri (13.öld).  Höfn (Porto Cristo) og baðströnd Manacor er 11 km austar og einum km lengra eru Drekahellarnir, *Cuevas del Drach, með neðanjarðarvatni.  Fólk heimsækir þá með leiðsögumönnum og þar eru líka haldnir tónleikar.  Skutulshellar, *Cuevas del Hams, eru 1½ km vestan Porto Cristo.  Safarigarðurinn *Reserva Africana er 4 km norðan Porto Cristo.  Þar ganga ýmsar afrískar villidýrategundir lausar í velafgirtum garði og hægt er að aka þar í gegn í eigin bíl eða rútu.  Cala Millor er hótlelþorp norðaustan Porto Cristo við Bahía de Artá.  Enn lengra (21 km) í sömu átt er bærinn Artá (170m) og 10 km suðaustan þess eru hellarnir *Cuevas de Artá, sem eru víðkunnir vegna stórra dropasteina.  Sé haldið enn lengra í norðaustur er komið að Cadepera með virkismúrum og Cala Ratjada, furuvaxinni baðströnd.  Í grenndinni er viti með góðu útsýni og margar baðstrendur í viðbót.

Frá Palma til Santahyí.  Leiðin liggur til austurs eftir C-717 og eftir 24 km akstur er komið til Lluchmayor, gamals bæjar.  Puig de Randa (548m), góður útsýnisstaður með þremur klaustrum, er 5 km norðar.  C-717 heldur áfram um Campos og hliðarvegi til syðsta höfða eyjarinnar og bæjarins Sananyí (60m).  Þar í grenndinni eru forsögulegir helgistaðir og virki.  Tólf km norðar er Cala d’Or og bærinn Calas de Mallorca.  Heildarvegalengd u.þ.b. 50 km.

Undanfarin ár hafa frábærar gönguferðir um fjalllendi Mallorka verið í boði.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM