Málaga Spánn,


MÁLAGA
SPÁNN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hafnarborgin Málaga er höfuðborg samnefndrar sýslu í sjálfstjórnarhéraðinu Andalúsíu á Suður-Spáni.  Hún er við breiðan flóa við Miðjarðarhafið við ósa Guadalmedina á miðri Costa del Sol.  Fönikíumenn stofnuðu borgina á 12. öld f.Kr. en í spor þeirra komu Rómverjar og vísigotar þar til márar lögðu Málaga undir sig árið 711.  Undir stjórn þeirra varð hún að einni mikilvægustu borg Andalúsíu.  Þegar Córdoba-kalífaríkið leystist upp, var konungsríkið Málaga stofnað undir stjórn fursta (emíra), sem kölluðu borgina „Himneska paradís”.  Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir tóku kristnir borgina 19. ágúst 1487.

Áin Guadalmedina, sem rennur um Málaga frá norðri til suðurs, olli tíðum flóðatjónum áður en stíflan var reist við Agujero.  Yfir borginni gnæfir hæðin Gibralfaro (170m) með fornu arabísku virki.  Í miðri gömlu borginni var hafizt handa við byggingu dómkirkjunnar árið 1528 á grunni mosku.  Lokið var við byggingu innandyra og annars turnsins árið 1782 en hinn vantar enn þá.  Aðrar helztu kirkjur eru Santo Cristo de la Salud, Sagrario og Victoria, sem er kunn fyrir drungalegar skreytingar á grafhýsi furstanna af Luna.  Héraðslistasafnið á safn 17. aldar meistaraverka auk nútímaverka, þ.á.m. Pablo Picasso, sem fæddist í borginni í húsi nr. 16 við Plaza de la Merced.  Máríski kastalinn, Alcazaba, hefur verið endurbyggður sem safn og almenningsgarður en Gibralfaro-virkið er ósnert.

Málaga er næstmikilvægasta hafnarborg Spánar við Miðjarðarhafið eftir Barcelona.  Útflutningsvöru, sem fara um höfnina, eru aðallega járngrýti, þurrkaðir ávextir, möndlur, ólífuolía, appelsínur, sítrónur, ólífur, niðursoðnar ansjóvíur, járn og stál.  Verksmiðjur borgarinnar framleiða byggingarefni, efnavöru, járn og stál og vinna úr landbúnaðarafurðum (maís).  Þarna eru einnig ölgerðir, áburðarverksmiðjur, vefnaðarmyllur og olíuleiðslur til hreinsunarstöðvarinnar við Puertollano.

Milt loftslagið í Málaga ræðst af skjólinu af nærliggjandi fjöllum og laðar að ferðamenn.  Í grennd borgarinnar er fjöldi frábærra sandstranda, s.s. Marbella og Fuengirola, þar sem furutrén vaxa alla leið niður í fjöru.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1982 var rúmlega 450 þúsund.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM