Tenerife
(2053 km²) er stærsta eyja Kanaríeyjaklasans.
Hún er rómuð fyrir fegurð.
Um miðbik hennar teygist fjallgarður með breiðum og fjrósömum
dölum. Orotava og Gülmardalirnir
eru nefndir fyrstir hvað fegurð snertir.
Hæsti tindur eyjarinnar og þar með Spánar, Pico de Teide
(2718m), gnæfir upp úr hásléttunni Cañadas.
Flóra eyjarinnar er fjölbreytt og sendnar víkur
strandlengjunnar eru aðskildar með klettahöfðum.
Santa
Cruz de Tenerife
er höfuðastaður eyjarinnar og héraðsins. Hún er prýdd fögrum görðum eins og García Sanagría, bæjargarðinum.
Á torginu Plaza de España niðri við höfnina er iðandi mannlíf
og minnismerki um þá, sem féllu í borgarastríðinu.
Vestan þess er torgið Plaza de la Candelaria með styttu af
verndardýrlingi eyjarinnar Madonna de la Candelaria frá 1778.
Norðar er San Fransisco kirkjan (1680) með fögur háaltari og
freskum í lofti. Vestan
hennar er Borgarsafnið með verkum margra meistara, þ.á.m. innlendum.
Frá torginu Plaza del Principe er gengið eftir Calle del Pilar
að Frúarkirkjunni (Nuestra Señora del Pilar; 18.öld) með styttu af
Virgen de las Angustias (1804). Sé
gengið eftir Avenida de Anaga frá Spánartorgi og meðfram höfninni
er komið að virkinu Castillo de Paso Alto, þar sem er nú safn með
herfangi, vopnum og einkennisbúningum.
La
Laguna
(550m), næstmikilvægasti bær eyjarinnar, er 9 km norðvestan Santa
Cruz. La Laguna var fyrrum
höfuðstaður en er nú biskupssetur og háskólabær.
Dómkirkjan (16.öld) geymir fagra útskorna muni og málverk. Elzta kirkjan, La Concepción (1502), er vernduð.
Mörg gömul hús, sem aðalsmenn bjuggu í, eru með hefðbundnum
svölum. Gróðurinn í hlíðum
nærliggjandi fjalls, Las Mercedes er einkar áhuga- og athyglisverður.
Vegalengdin frá La Laguna um Bosque de la Esperanza til Las Cañadas
(Parador) er 58 km. Sumir
kjósa að fara með togbrautum upp á Pico de Teide en aðrir ganga.
*Puerto
de la Cruz er mesti ferðamannastaður eyjarinnar, enda góðar baðstrendur allt
um kring. San Telmo kirkjan
(1626) er áhugaverð og tákn bæjarins.
Þar stendur eftirmynd af verndardýrlingi fiskimanna.
Kirkjan Nuestra Señora de la peña (17.öld) geymir fjölda
listaverka frá baroktímanum, s.s. háaltarið eftir Luis de la Cruz. Hinn kunni grasagarður er við veginn til Orotava.
Þar eru tré og plöntur frá öllum heimshornum.
Sex km lengra er La Orotava (600m) í undurfögrum og
heillandi, samnefndum dal. Í
bænum er fjöldi íbúðarhúsa með svölum og La Concepción kirkjan
með barokforhlið. Í
Casas de los Balcones (17.öld) er listiðnaðarsafn.
Leiðin frá La Orotava í suðvestur til nágrannabæjarins Los
Realejos liggur um akra og bananaekrur.
Í kirkjunni Nuestra Señora de la Concepción er frábært
barokaltari og sóknarkirkjan Santiago (1498) er hin elzta á eyjunni.
Sé haldið áfram austurstrandveginn til Icod (250m) við
rætur Teide, er hægt að finna þúsund ára gamalt drekatré í bænum.
Kirkjan San Marcos er prýdd endurreisnarforhlið og barokaltari.
Aðeins lengra er litli hafnarbærinn Garachico, Perlan við
hafið. Þar er virkið
Castillo de San Miguel og baðstaður.
Los Cristianos er fallegur strandbær á suðurhluta
eyjarinnar með frábærri strönd og hótelum. |