Íberar voru meðal
forsögulegra þjóðflokka á Suður- og Austur-Spáni, sem léðu síðar öllum
skaganum nafn. Keltneskir þjóðflokkar komu í bylgjum frá 8.-6. öld f.Kr.
og settust aðallega að í norður- og miðhlutum Spánar, þrengdu sér inn í
Portúgal og Galisíu, en létu landsvæði innfædda bronsaldarfólksins,
Íbera, í óáreitt. Grískir landfræðingar gáfu þeim þetta nafn, líklega
eftir ánni Ebro (Iberus), en á dögum gríska sagnfræðingsins Herodotus (uppi
um miðja 5. öld f.Kr.) náði það til allra þjóðflokka, sem bjuggu milli
ánna Ebro og Huelva og töluðu líklega skyld tungumál og áttu menningu
óskylda íbúum norður- og versturhluta skagans. Á norðaustanverðri
Miðsléttunni, í Katalóníu og Aragon var blanda fólks af keltnesku og
íberísku kyni.
Bastetanifólkið í Almeríu og fjöllum Granada,
sem klassískir höfundar töldu meðal íberískra ættbálka, var áhrifamest
og mikilvægast. Ættbálkarnir vestan landa þeirra voru yfirleitt nefndir
Tartessíar eftir nafninu Tartessos, sem Grikkir gáfu landsvæðinu.
Turdentanifólið við ána Guadalquivir
voru voldugastir þessara ættbálka. Ættbálkarnir í norðaustri og á
ströndum Valensíu urðu fyrir verulegum menningaráhrifum frá Grikkjum,
sem bjuggu í Emporion (nú Ampurias) og á Alicante-svæðinu en
ættbálkarnir, sem bjuggu í suðausturhlutanum urðu fyrir áhrifum frá
Fönikíumönnum, sem stunduðu verzlun í nýlendum sínum Malaca (Málaga),
Sexi (Almuneca), og Abdera (Adra). Þar náðu Karþagómenn yfirráðum
síðar.
Á austurströndinni virðast íberskir ættbálkar hafa safnast í byggðir
kringum sjálfstæð borgríki. Í suðurhlutanum voru konungsríki og El
Carambolo-fjársjórðurinn (Sevilla) er talinn hafa tilheyrt konungi
Tartessos. Trúarlegir helgistaðir hafa verið uppspretta styttna úr
bronsi og terrakottó, einkum í fjalllendi. Alls konar leirmunir með
handbragði Íbera hafa fundizt. Erlendir leirmunir hafa fundizt í
Suður-Frakklandi, á Sardiníu, Sikiley og í Afríku. Grískir munir eru
algengastir. Hin fagra brjóstmynd La dama de Elche sýnir hefðbundinn
höfuðbúnað og skartgripi en einnig klassísk áhrif. Efnahagur Íbera
byggðist á landbúnaði, námugreftri og málmvinnslu.
Íberska tungan er óskyld evrópskum tungumálum og var töluð fram á upphaf
rómverskra tíma. Meðfram austurströndinni var hún einnig ritmál með 28
stöfum, sumum úr grísku og fönikísku en flestir af ókunnum uppruna.
Margar áletranir eru enn þá til. Ekki hefur tekizt að komast til botns
í þessu ritmáli, ef undan eru skilin nokkur staðanörn á sleginni mynt
frá mörgum borgríkjum. Íberar héldu ritmáli sínu þar til Rómverjar komu
til sögunnar, þegar latneska starfrófið var tekið upp. Löngum álitu
sagnfræðingar, að tungumál baska væri komið af tungu Íbera, en nú
hallast þeir helzt að því, að þau séu óskyld. |