Úzbekar
höfðu búið í sínum heimshluta um aldir áður en ríki þeirra var stofnað á
þriðja áratugi 20. aldar. Þar var áður persneska héraðið Sogdiana, sem
Makedóníuleiðtoginn Alexander mikli lagði undir sig á 4. öld f.Kr. og
arabar náðu á sitt vald á 8. öld. Á 13. öld var það innlimað í Mongólíu
(Genghis Khan) og aftur á 14. öld (Tamerlane). Á 16. öld voru kanötin
Bukhoro (Bukhara) og Khiva stofnuð og Kokandkanatið á 18. öld. Rússar
náðu öllu svæðinu á sitt vald á árunum 1865-73.
Uppbygging verzlunarkeðju keisarans með baðmull leiddi til blóðugra
átaka milli Rússa og innfæddra. Úzbekar og aðrir landsmenn mótmæltu
breytingum á eignarhaldi lands og skorti á matvælum, sem leiddi af
aukinni ræktun baðmullar í stað fæðu fyrir lýðinn. Hætt var við mörg
stór áveituverkefni vegna uppreisna verkamanna, sem mótmælti bágum
vinnuskilyrðum og lágum launum. Árið 1916 sameinuðust Úzbekar öðrum
Mið-Asíulöndum í byltingu gegn stjórn keisarans og þúsundir féllu.
Eftir
rússnesku byltinguna 1917 héldu basmachi-skæruliðar í Úzbekistan áfram
að berjast gegn Sovétvaldinu fram á þriðja áratuginn. Sovétríkin komu á
breyttu stjórnarfyrirkomulagi í landinu. Khiva og Bukhoro héldu sínum
yfirráðasvæðum og urðu sjálfstæð Sovétlýðveldi árið 1920. Þau fengu í
rauninni enga sjálfstjórn og brátt voru þau sameinuð. Árið 1924 var
Sovétlýðveldið Úzbek sett saman úr Túrkestanlýðveldinu og Khiva- og
Bukhorolýðveldunum. Tadjiklýðveldið var hluti af Úzbek til 1929 og
fyrrum Karakalpaklýðveldið var sameinað því árið 1936. Nokkrum sinnum
var landsvæðum skipt milli Kazakh og Úzbeklýðveldanna eftir síðari
heimsstyrjöldina. Úzbekistan gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1992. |